Sameining sveitarfélaga

Niðurstöður kosninga um sameiningu tveggja sveitarfélaga fyrir norðan eru athyglisverðar. Þróunin undanfarin ár hefur verið í þá átt að fámenn sveitarfélög hafa sameinast og þannig orðið hæfari til að taka að sér verkefni sem eru á þeirra könnu. Mikil breyting var á starfsemi sveitarfélaganna við flutning grunnskólanna frá ríkinu á sínum tíma. Nú eru sveitarfélögin í landinu tæplega 80 talsinis og hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum.

Það er merkileg staðreynd að enn skuli vera til fámenn sveitarfélög í landinu sem þrjóskast við og hafna sameiningu við nágrannasveitarfélög sín. Dæmi um slíkt sveitarélag er Skorradalshreppur, þar voru 56 íbúar þann 1. desember 2007. Hvernig skyldi sveitarfélögum af þessari stærð takast að veita íbúum sínum fullnægjandi þjónustu?

Styrking sveitarstjórnarstigsins er þjóðþrifamál. Landið er fámennt og strjálbýlt og því erfitt að halda uppi öflugri nútímalegri þjónustu sem stenst kröfur íbúanna. Lykilatriðið er því að mynda öflugri sveitarfélög. Stundum er rætt um að gera allt landið að einu kjördæmi. Það mætti hins vegar hugsa sér að nota núverandi kjördæmaskipun og mynda eitt sveitarfélag fyrir hvert kjördæmi. Þannig yrði góð samsvörun milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisvaldsins og öll samþætting yrði einfaldari og skilvirkari. Án efa mundi slík breyting verða til þess fallin að styrkja fámennari sveitarfélög og þar með efla landsbyggðina.

Er ekki kominn tími til að blása lífi í umræðuna um sameiningu sveitarfélaga?


mbl.is Aðaldælahreppur og Þingeyjarsveit sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur umhverfisins

Það fer heldur lítið fyrir fréttum af Degi umhverfisins, enda allir fjölmiðlar uppteknir við að segja ekki-fréttir af óþekkum krökkum á öllum aldri út um allan bæ. Las á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins pistil um þennan dag, sem komið var á í tíð Guðmundar Bjarnasonar ráðherra umhverfismála árið 1999. Þetta er nú aldeilis fínt framtak hjá ráðuneytinu sem lítið fer fyrir, enda erfitt að koma fréttum sem þessum að þegar hasar og fjör eru í boði á sama tíma. Í kvöldfréttum Sjónvarpsins kom fram að svifryksmengun hefur verið yfir hættumörkum margsinnis undanfarið á færanlegri mælingarstöð sem hefur verið staðsett á mörkum Stakkahlíðar og Miklubrautar.

Þrátt fyrir fréttir sem þessar virðist langt í land að almenningur taki sig til og breyti hegðan sinni. Það var athyglisvert að hlusta á viðtal við framkvæmdastjóra Sólarræstinga í fréttum í kvöld, en fyrirtækið fékk viðurkenningu ráðuneytisins. Þar kom nefnilega fram að jafnvel lítil fyrirtæki geta lagt mikið af mörkum með ábyrgri stefnu í umhverfismálum. Almenningur getur gert heilmikið, t.d. með því að ferðast saman til og frá vinnu frekar en að allir fari á sínum bíl; ganga meira, hjóla eða taka strætó. Það er bara ekki kúl - svo frekar heldur maður áfram uppteknum hætti og breytir ekki hegðan sinni.

Undanfarin ár hafa ýmsar nýjungar rutt sér til rúms í nágrannalöndum okkar. Eitt af því er s.k. "Mobility Management" - en það eru fyrirtæki eða stofnanir sveitarfélaga sem sérhæfa sig í ráðgjöf til fyrirtækja og einstaklinga um val á ferðamáta og fleira í þeim dúr. Margt smátt gerir eitt stórt stendur einhvers staðar skrifað - það á við í þessum málum sem öðrum.


mbl.is Umhverfisviðurkenningar afhentar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómissandi fólk

Allsnakinn kemurðu í heiminn
allsnakinn ferðu burt
frá þessum dauðu hlutum
sem þér fannst þú hafa dregið á þurrt

og eftir lífsins vegi
fer það sem hann fer
og veistu á miðjum degi
dauðinn, tekur mál af þér

ofmetnastu ekki
af lífsins móður mjólk
kirkjugarðar heimsins
geyma ómissandi fólk
(KK)
mbl.is 21 handtekinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftaverkin gerast enn

Sem betur fer berast jákvæð og góð tíðindi, mitt í öllu fréttaflóðinu af versnandi efnahag, slysförum, aukinni verðbólgu og hækkun stýrivaxta. Ég skrifaði hér á síðuna í nóvember s.l. um Sigtrygg vin minn í New York sem þá hafði greinst með krabbamein. Annað nýrað þurfti að fjarlægja auk þess sem blettir voru komnir í bæði lungun og lifrina. Eftir uppskurðinn fór hann í tvær lyfjameðferðir með nokkurra vikna millibili. Þessi meðferð kallast IL2 og byggir á náttúrulegum efnum sem mér skilst að líkaminn framleiði sjálfur í einhverju mæli. Þessum efnum er sem sagt dælt í líkama sjúklingsins í miklu magni meðan á meðferð stendur með tilheyrandi aukaverkunum. Auk hefðbundinna fylgikvilla eins og almenns slappleika, ógleði og slíkum hlutum fylgir þessu einnig mikill kláði. Það var því mikið á sig lagt.

Í gær átti ég langt og gott samtal við Sigtrygg í símann. Hann sagði mér að hann hefði nú verið að fá niðurstöður úr sneiðmyndatöku sem hann fór í á dögunum, þar sem staðfest var það sem komið hafði fram í síðustu læknisskoðun að öll meinvörp væru á bak og burt. Það lítur því allt út fyrir að kappinn sé læknaður og þurfi ekki að hafa meiri áhyggjur af því frekar en hver annar að fá þennan sjúkdóm að nýju. Til öryggis mætir hann í eftirlit nokkrum sinnum út árið, en ef ekkert óvænt kemur upp á (sem allir vona að sé hæpið úr því sem komið er) ætti hann að vera eins og nýr eftir þetta allt saman.

Sigtryggur sýndi það og sannaði í veikindum sínum að samstaða fjölskyldunnar og einbeittur vilji allra um að ná bata skiptir máli. Þau hafa öll tekið á málum með aðdáunarverðum hætti svo til fyrirmyndar er. Hann hefur einnig verið duglegur að halda okkur vinum sínum og ættingjum vel upplýstum um gang mála gegnum bloggsíðu sína, sem hefur verið ómetanlegt fyrir okkur sem erum svona fjarri honum á erfiðum tímum.

Það er stórkostlegt að upplifa jákvæðar fréttir þegar krabbamein er annars vegar og verða vitni að því þegar fólk nær góðum bata. Fyrir nokkrum árum var sett samasem merki milli krabbameins og dauðadóms, nú á tímum framfara í læknavísindum er öldin önnur.


Meinhornið - nöldur og tuð

Mér finnst Íslendingar stundum miklir smáborgarar og heimóttalegir svo ekki sé meira sagt. Hverjar eru nú aðalfréttirnar þessa dagana?

  • Nokkrir sjálfskipaðir töffarar á vörubílum taka sér völd sem ekki nokkurt einasta lýðræðislegt nútímasamfélag mundi láta viðgangast. Hverju eru þeir að mótmæla? Erlendum verðhækkunum og veikingu gengis. Svo finnst þeim allt í lagi að stífla allar samgönguæðarnar, svarið sem forsprakkinn gaf aðspurður að því hvort þetta hefði ekki hættu í för með sér: "Lífið er alveg stórhættulegt"
  • Verktaki fór á hausinn fyrir mörgum mánuðum og hvarf frá hálfkláruðu verki á Reykjanesbrautinni. Síðan þá er hvert óhappið á fætur öðru, nokkrir búkkar og blikkljós eru settir upp til að beina umferðinni fram hjá þrengingum allan veturinn.
  • Ein af mest lesnu fréttunum á mogganum í dag er að nú sé búið að finna sökudólginn við andremmu.

Það vantar uppbyggilegar umræður um það sem skiptir máli. Uppbyggilega samfélagsábyrga umræðu t.d. um framtíð borgarinnar, lausn á umferðavandanum, áherslur í skipulagsmálum og almennt um mál sem skipta okkur máli sem hér búum og störfum.

 Er ekki rétt að lyfta umræðunni upp á ögn hærra plan? (eins og skáldið sagði forðum)


Eldhugi

Fór og hlustaði á fyrirlestur Al Gore í Háskólabíói í morgun. Maðurinn er greinilega mjög vel þjálfaður í flutningi erindis síns, auk þess sem hann er með frábæra myndasýningu með. Fyrirlesturinn var langur, líklegast u.þ.b. 1,5 klst. Gore flutti mál sitt á sannfærandi hátt og náði að fanga athygli áheyrenda sinna allan tímann. Hann hefur greinilega kynnt sér málefnið vel, þ.e. hlýnun andrúmsloftsins, loftslagsbreytingar, veðurfarsbreytingar, gróðureyðingu, hækkandi sjávarmál, bráðnun jökla o.s.frv. 

Mér finnst líklegt að fyrirlestur Al Gore veki fólk sem á hlýðir til umhugsunar. Það er svo annað mál hversu margir geri eitthvað meira en bara að staldra við stundarkorn. Meginboðskapur Gore var nefnilega sá að allir bera ábyrgð og mikilvægt að til komi grundvallarbreyting í hegðun og afstöðu alls þorra almennings um víða veröld. Það er líka merkilegt að fylgjast með úrtöluröddunum sem alltaf láta á sér kræla þegar einhver kemur með óþægilegan boðskap, þegar rökin skortir bregða menn á það ráð að segja að slíkt sé hræðsluáróður.

Ég er þeirrar skoðunar að allt það fólk sem fyllti Háskólabíó í morgun hljóti að vera sammála um að breytingar í lífríkinu eru umtalsverðar og mikilvægt sé að sporna við. Hver er sjálfum sér næstur í þeim efnum eins og öllum öðrum.


Að bregðast við hækkunum

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast undanfarna daga með umræðunni um hækkað eldsneytisverð og þeim mótmælum sem gripið hefur verið til. Menn eru duglegir að býsnast yfir hækkandi eldsneytisverði og hversu mikil áhrif það hafi á útgjöldin, hvort heldur er um að ræða rekstrarútgjöld atvinnufyrirtækjanna eða heimilisútgjöld almennings. Ég hef vissa samúð með sjónarmiðum atvinnubílstjóra, þetta er jú þeirra atvinnustarfsemi og hækkandi rekstrarkostnaður hefur áhrif á afkomuna nema honum sé velt yfir á verðlagningu þjónustunnar. Það er hins vegar erfiðara að skilja hvað býr að baki mótmælum jeppamanna, sem ég hygg eru langflestir að stunda akstur jeppa sinna sem tómstundagaman. Þeir jeppamenn sem hins vegar eru í atvinnustarfsemi (t.d. ferðaþjónustunni) falla auðvitað undir sama hatt og aðrir atvinnubílstjórar.

Það hefur verið ágætlega upplýst m.a. af hálfu forsætisráðherrra og fjármálaráðherra að álögur hins opinbera á eldsneytisverð hefur verið í formi fastrar krónutölu um nokkra hríð. Það þýðir með öðrum orðum að þegar eldsneytisverðið hækkar (t.d. vegna hærra innkaupsverðs) þá helst gjaldtaka ríkisins óbreytt og þar með rýrnar hún hlutfallslega eftir því sem útsöluverðið hækkar. Menn hafa auðvitað misjafna skoðun á því hvort sú skattlagning sé réttmæt eða ekki og einnig hvort þessi markaði tekjustofn skili sér í vegaframkvæmdir eins og lögin segja til um.

Í allri þessari umræðu um hækkað eldsneytisverð hefur ekki verið rætt mikið um hvort olíufélögin hafi tekið álagningu sína til endurskoðunar. Það hlýtur auðvitað að vera fyllilega réttlát spurning, einkum í ljósi þess að álagning þeirra ágætu fyrirtækja er væntanlega í formi prósentu en ekki fastrar krónutölu. Það má því gera ráð fyrir að með hærra útsöluverði fái þau félögin sífellt meira í sinn hlut og fitna því nánast eins og púkinn á fjósbitanum. Það var kannski það sem fékk N1 til að lækka verðið í dag - þetta er jú bara einn dagur milli kl. 8 og 19, svo hækkaði verðið aftur að nýju. Þá er væntanlega búið að slá á þá umræðuna, N1 og allir hinir sem selja eldsneyti komnir í tölu þeirra sem bera ábyrgð og bregðast við mótmælum í þjóðfélaginu.

Síðast en ekki síst sakna ég umræðu meðal almennings um til hvaða aðgerða sé hægt að grípa hjá hverjum og einum til að lækka útgjöld heimilanna vegna aukins eldsneytisverðs. Það er án efa raunhæft fyrir marga að draga úr akstrinum, t.d. með því að vinnufélagar sameinist í bíl til og frá vinnu eða þá fyrir þá sem það geta ganga, hjóla eða taka strætó. Að ekki sé nú minnst á almennt skipulag í þessum efnum, fækka markvisst ferðum á bílnum með því að skoða ferðaþarfir sínar vandlega ofan í kjölinn. Það er býsna mikið hægt að gera til að spara í þessum efnum - þótt svo auðvitað sé alveg sjálfsagt að vekja athygli með mótmælum einnig.


mbl.is Örtröð á bensínstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun margborgar sig

Ég sé á heimasíðu MBA námsins við HÍ að nú er byrjað að taka við umsóknum þeirra sem hyggja á MBA námið næstkomandi haust. Það rifjast upp hugrenningar manns sjálfs á þessum tíma fyrir ári þegar maður byrjaði að velta því fyrir sér af alvöru að drífa sig í 2ja ára krefjandi háskólanám á gamals aldri. Til að taka af öll tvímæli: ég sé ekki eftir því. Þvert á móti er þetta sennilega með því betra sem ég hef gert fyrir sjálfan mig í langan tíma. Þótt undanfarnir dagar og vikur hafi verið gjörsamlega yfirhlaðnir af lærdómi, tímasókn, hópavinnu og verkaefnaskilum, jafnvel langt fram eftir nóttu, er þetta hreint alveg frábært í alla staði. Með því að leggja á okkur ómælda vinnu erum við nú smátt og smátt að uppskera árangur eftir allt erfiðið. Sjóndeildarhringurinn víkkar, kunnáttan eykst og hæfileikinn til að takast á við flókin og umfangsmikil verkefni tekur stöðugum framförum.

Ég hvet alla sem hafa verið að velta fyrir sér MBA náminu að hugleiða alvarlega að drífa sig. Hvort sem þú ert viðskiptafræðingur, lögfræðingur, verkfræðingur, kennari, listamaður, heimspekingur, líffræðingur, tannlæknir, hjúkrunarfræðingur, skipulagsfræðingur eða hvað, þetta nám hentar öllum. Það er ekki of seint, umsóknarfresturinn rennur ekki út fyrr en í byrjun maí og eins og sjá má með þann sem þetta ritar að það er aldeilis ekki of seint að skella sér þrátt fyrir að einhver svo og svo mörg ár séu liðin frá því maður leit fyrst dagsins ljós. Ég er meira að segja ekki elstur í hópnum!

Það eru í raun algjör forréttindi að taka þátt í námi sem þessu, allir eru þarna af sambærilegum hvötum, þ.e. að læra meira, efla færni sína og hæfni. MBA námið er eins og gott orkuver, það virkjar í manni kraftinn. Maður "lærir að læra", lærir að fókusera og horfa á það sem skiptir máli, fær góða þjálfun í að vinna í hópastarfi og með samstilltu átaki ná góðum árangri.

Nú er bara að drífa sig að sækja um!


Vor í loftinu

Þrátt fyrir að páskar séu snemma í ár leynir sé ekki að það er komið vor í loftið. Sólin skríður smátt og smátt hærra upp á himininn og geislar hennar verma sífellt betur. Vorjafndægur rétt nýliðin, framundan er stórkostlegur tími með birtu og yl. Farfuglarnir fara að láta sja sig og fuglasöngur fer að verða daglegur viðburður á ný.

Gott páskafrí að baka sem var nýtt til að hitta fjölskyldu og vini auk þess sem tíminn var vel notaður í heimanámi. Ekki veitir af, því enn á ný eru námskeiðslok í vændum með tilheyrandi verkefnaskilum og prófum. Það er ekki laust við að þetta sé aðeins farið að taka í - en á hinn bóginn bæta frábærir félagar og skemmtileg viðfangsefni það allt saman upp. Reikningshald og rekstrarstjórnun verður þemað næstu 2 vikurnar - eftir það taka við tvö siðustu námskeiðin áður en fyrra árinu í náminu lýkur: mannauðsstjórnun og fjármál fyrirtækja. Spennandi tímar framundan - vorið er í loftinu bæði í náttúrinni og mannlífinu.


Sérstaða þjóðgarðsins á Þingvöllum

Þingvallaþjóðgarðurinn er sérstakur og merkilegur staður. Staðurinn er samofinn sögu lands og þjóðar, hér var Alþingi stofnað árið 930, hér var kristnitakan ákveðin árið 1000 og hér var lýðveldið stofnað árið 1944. Hingað flykktust Íslendingar til þings öldum saman og stóðu þannig vörð um lýðræðið hvað sem á gekk. Jarðfræði Þingvalla er afar sérstök, þetta er einn af fáum stöðum í heiminum þar sem sjá má flekaskil tveggja jarðskorpufleka með berum augum. Hér mætist austrið og vestrið raunverulega.

Stjórnvöld landsins stóðu vel að því á sínum tíma að koma Þingvöllum á heimsminjaskrá UNESCO fyrir nokkrum árum. Nú er það skylda þessara sömu stjórnvalda að tryggja viðunandi lausn finnist varðandi lagningu nýs Gjábakkavegar, svo tryggt sé að þjóðgarðurinn verði áfram á heimsminjaskránni. Verkefnið er að ganga þannig frá veglagningaráformum að friðhelgi þjóðgarðsins verði virt og þau náttúruverndarsjónarmið sem nauðsynleg eru verði höfð að leiðarljósi. Það væri okkur til ævarandi skammar ef þessi merki staður, Þingvellir, væri tekinn af heimsminjaskrá UNESCO.


mbl.is Þingvellir af heimsminjaskrá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband