Að bregðast við hækkunum

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast undanfarna daga með umræðunni um hækkað eldsneytisverð og þeim mótmælum sem gripið hefur verið til. Menn eru duglegir að býsnast yfir hækkandi eldsneytisverði og hversu mikil áhrif það hafi á útgjöldin, hvort heldur er um að ræða rekstrarútgjöld atvinnufyrirtækjanna eða heimilisútgjöld almennings. Ég hef vissa samúð með sjónarmiðum atvinnubílstjóra, þetta er jú þeirra atvinnustarfsemi og hækkandi rekstrarkostnaður hefur áhrif á afkomuna nema honum sé velt yfir á verðlagningu þjónustunnar. Það er hins vegar erfiðara að skilja hvað býr að baki mótmælum jeppamanna, sem ég hygg eru langflestir að stunda akstur jeppa sinna sem tómstundagaman. Þeir jeppamenn sem hins vegar eru í atvinnustarfsemi (t.d. ferðaþjónustunni) falla auðvitað undir sama hatt og aðrir atvinnubílstjórar.

Það hefur verið ágætlega upplýst m.a. af hálfu forsætisráðherrra og fjármálaráðherra að álögur hins opinbera á eldsneytisverð hefur verið í formi fastrar krónutölu um nokkra hríð. Það þýðir með öðrum orðum að þegar eldsneytisverðið hækkar (t.d. vegna hærra innkaupsverðs) þá helst gjaldtaka ríkisins óbreytt og þar með rýrnar hún hlutfallslega eftir því sem útsöluverðið hækkar. Menn hafa auðvitað misjafna skoðun á því hvort sú skattlagning sé réttmæt eða ekki og einnig hvort þessi markaði tekjustofn skili sér í vegaframkvæmdir eins og lögin segja til um.

Í allri þessari umræðu um hækkað eldsneytisverð hefur ekki verið rætt mikið um hvort olíufélögin hafi tekið álagningu sína til endurskoðunar. Það hlýtur auðvitað að vera fyllilega réttlát spurning, einkum í ljósi þess að álagning þeirra ágætu fyrirtækja er væntanlega í formi prósentu en ekki fastrar krónutölu. Það má því gera ráð fyrir að með hærra útsöluverði fái þau félögin sífellt meira í sinn hlut og fitna því nánast eins og púkinn á fjósbitanum. Það var kannski það sem fékk N1 til að lækka verðið í dag - þetta er jú bara einn dagur milli kl. 8 og 19, svo hækkaði verðið aftur að nýju. Þá er væntanlega búið að slá á þá umræðuna, N1 og allir hinir sem selja eldsneyti komnir í tölu þeirra sem bera ábyrgð og bregðast við mótmælum í þjóðfélaginu.

Síðast en ekki síst sakna ég umræðu meðal almennings um til hvaða aðgerða sé hægt að grípa hjá hverjum og einum til að lækka útgjöld heimilanna vegna aukins eldsneytisverðs. Það er án efa raunhæft fyrir marga að draga úr akstrinum, t.d. með því að vinnufélagar sameinist í bíl til og frá vinnu eða þá fyrir þá sem það geta ganga, hjóla eða taka strætó. Að ekki sé nú minnst á almennt skipulag í þessum efnum, fækka markvisst ferðum á bílnum með því að skoða ferðaþarfir sínar vandlega ofan í kjölinn. Það er býsna mikið hægt að gera til að spara í þessum efnum - þótt svo auðvitað sé alveg sjálfsagt að vekja athygli með mótmælum einnig.


mbl.is Örtröð á bensínstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband