Gildi vináttunnar

Sigtryggur vinur minn í New York er með krabbamein.  Hann lenti í því á dögunum að geta ekki kastað af sér þvagi, án þess að hafa kennt sér nokkurs meins.  Í ljós kom að æxli hafði búið um sig við annað nýrað, og líklegt er að meinið hafi náð að dreifa sér í önnur líffæri, eins og lungun.  Þetta gæti því litið betur út. 

Ég talaði lengi við Sigtrygg í símann í kvöld.  Hann er að jafna sig eftir uppskurðinn, en nýrað var fjarlægt í síðustu viku.  Á morgun (laugardag) er ein vika liðin frá því hann kom heim af sjúkrahúsinu eftir aðgerðina.  Kallinn er auðvitað slappur eftir þetta stóra inngrip, en á hinn bóginn gengur batinn ótrúlega vel, og hann er byrjaður að braggast aðeins, fá smá matarlyst og farinn að vappa sæmilega um.  Á morgun er meiningin að fara í góðan göngutúr, sem er liður í því að byggja upp þrek og þol eftir aðgerðina.  Eftir 6 vikur tekur svo við stíf lyfjameðferð, sem án efa á eftir að taka á.  Eins gott að vera vel í stakk búinn fyrir þau ósköp öll.

Sigtryggur á því láni að fagna að eiga góða að.  Fjölskylda hans hefur frá fyrsta degi staðið þétt við bakið á honum; Lína konan hans, börnin hans þrjú og tengdabörnin.  Fyrir utan alla hina.  Nú er mamma hans komin í heimsókn, sem og Jón Sævar, sameiginlegur vinur okkar og skólabróðir frá Verzlunarskólaárunum.  Þegar fólk verður fyrir áfalli í lífinu, hvort heldur er um að ræða ástvinamissi, slys, veikindi eða eitthvað annað, er fátt eins mikilvægt og eiga góða vini og fjölskyldu.  Ég heyri það á Sigtryggi (og les það á "umönnunarsíðunni" hans) að það er honum mikils virði, og veitir honum styrk á erfiðum tímum.  Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur vini hans að fá að taka þátt í baráttunni með honum, því maður finnur vel fyrir því þegar góður vinur veikist.  Þá er gott að geta átt gott spjall, og leyfa sér þann munað að senda hlýjar hugsanir og jákvæða strauma, jafnvel þótt heimshöfin séu á milli. 

Fyrir utan að eiga góða að þá er Sigtryggur maður með rétta hugarfarið til að takast á við raunir sem þessar.  Honum tekst að vera raunsær og bjartsýnn í senn, hann einblínir á það sem er jákvætt og uppbyggilegt, og lifir nú fyrir líðandi stund.  Það eru sönn lífsgæði.  Ég er sannfærður um að hann á eftir að vinna bug á meini sínu, með tilstuðlan góðra og jákvæðra krafta, eiginleika sinna og stuðningi sinna nánustu.  Það eru forréttindi að eiga Sigtrygg fyrir vin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband