Færsluflokkur: Ferðalög

Fengum skutl til London

Jæja góðir hálsar, við erum sem sagt komin heim eftir vel heppnaða dvöl hjá Davíð og Ýr í Newcastle.  Flugum með easyJet frá Newcastle til London, og þaðan áfram með Iceland Express.  Drengurinn var ekkert að tvínóna við hlutina, fékk vaktaskránni breytt og var því við stjórnvölinn með foreldrana innanborðs.  Frábært flug í alla staði, og lendingin eins og best gerist!  Hér má sjá mömmu með stráknum sínum í lok ferðar.Stolt mamma

Eiríkur sonur okkar kom í heimsókn með börnin eftir við komum heim, það var ekki amalegt að hitta þau öll og fá hlýjar og notalegar móttökur.  Það felst mikil hamingja og gleði í góðum og traustum fjölskylduböndum.

Nú er skólahelgi framundan, svo það verður nóg að gera.  Þar verður fjallað um greiningu viðfangsefna og ákvarðanatöku, og markaðsfræði.  Þetta lofar allt saman mjög góðu.  Mörg verkefni í takinu - svo það verður nóg að gera.


Frábær ferð senn á enda

Í dag er síðasti dagur dvalar okkar hér í Newcastle.  Þetta hafa verið fínir dagar.  Við lögðum land undir fót í gær (þriðjudag) og ókum sem leið lá að vatnasvæði (Lake District) þeirra hér í Norður-Englandi.  Mjög fallegt og heillandi svæði, landslagið gjörólíkt sem maður sér annars staðar hér í Englandi.  Mikið um falleg stöðuvötn í djúpum dölum, sem eru umluktir af fjalllendi á alla kanta.  Við fundum þetta fína sveitahótel í Longdale, smá þorp á svæðinu.  Höfðum það notalegt þar með þeim Davíð og Ýr. 

Á þessu svæði má finnar merkar fornminjar, Hadrian´s Wall.  Veggur þessi var byggður af Hadrian konungi u.þ.b. 200 e.kr., og markaði norður landamæri heimsveldisins.  "Hér endar siðmenningin" á Hadrian að hafa sagt, enda Skotar og annar óþjóðalýður þar fyrir norðan.  Veggur þessi er í dag á heimsminjaskrá Unesco, og þykir hafa varðveist vel á köflum.

Á morgun liggur leiðin heim á ný.  Við höfum notið dvalarinnar hér í  Newcastle og erum ánægð með ferðalagið í alla staði.  Það er búið að vera gaman að prófa að aka bíl hér, nokkuð sem var ný reynsla fyrir mig.  Maður getur því með sanni sagt að maður hafi "farið öfugu megin framúr" margsinnis - og haft gaman af!

 


Jafntefli í grannaslag

Það eiga nú sjálfsagt fæstir sem þekkja mig von á því að ég fari að tjá mig um íþróttir.  Nema ef vera kynni um úrslit á innanfélagsmóti Skíðadeldar KR í Skálafelli.  Þar er hins vegar enginn snjór um þessar mundir. 

Þar sem ég er sem sagt staddur í Newcastle finnst mér tilhlýðilegt að fjalla um grannaslaginn sem hér átti sér stað í dag, þegar heimamenn skruppu suður yfir fljót og heimsóttu nágrannana í Sunderland.  Þetta var víst hörku leikur, en hann endaði með jafntefli, 1-1.  Það voru heimamenn í Sunderland sem opnuðu markareikninginn, þegar Danny Higginbothan skoraði á 52. mínútu.  Gestirnir frá Newcastle brugðust við af ákveðni, og 13 mínútum síðar jafnaði James Milner metin, og reyndust mörkin ekki fleiri í þessum leik. 

Það vakti athygli fjölmiðla hér um slóðir að eigandi Newcastle liðsins, Mike Ashley, mætti á völlinn til að styðja við bakið á sínum mönnum.  Að þessu sinni ákvað hann að vera meðal stuðningsmannanna, fyrir aftan annað markið, íklæddur treyju nr. 17 eins og hann gerir oftast á leikjum liðsins.  Forsvarsmenn Sunderland höfðu víst nokkrar áhyggjur af því að nærvera eigandans meðal stuðningsmannanna gæti valdið vandræðum, en allt virðist þetta hafið gengið áfallalaust fyrir sig. 

Tyne áin liðast fallega áfram hér utan við gluggann, það er ekki amalegt að horfa yfir á upplýsta Millenium brúna, eitt af glæsilegri mannvirkjum þessarar fyrrum kolaborgar, sem nú einkennist af mikilli uppbyggingu, iðandi mannlífi og fallegum byggingum.gateshead01


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband