Valkostir í ferðamáta

Á baksíðu Morgunblaðsins mánudaginn 28. nóvember 2011 er viðtal við einstakling sem greinir frá því m.a. að fjölskyldan ákvað að selja báða heimilisbílana, kaupa metanknúinn bíl í staðinn auk þess sem sú ákvörðun var tekin á heimilinu að alla jafna skyldi ekki ekið á heimilisbílnum til og frá vinnu. Eftir breytinguna er eldsneytiskostnaður fjölskyldunnar á bilinnu 1.500 - 2.000 kr. á viku. Sá sem viðtalið er tekið við býr á Seltjarnarnesi og vinnur í Kringlunni sem verslunarstjóri í herrafataverslun. Vegalengdin í vinnuna er um 5,2 km. Eðli málsins samkvæmt þarf viðmælandinn að vera vel klæddur í vinnunni. Hann segir það alla jafna ekki vera neitt mál, nema t.d. ef mikið rignir því þá krumpist jakkafötin undir regngallanum. Þá daga tekur hann strætó í vinnuna.

Það er til marks um breytta tíma en þó einkum breytt viðhorf að lesa þetta viðtal. Fyrir örfáum árum hefði það nánast verið óhugsandi að einstaklingur í þeirri stöðu sem viðmælandinn er ásamt öðrum í sambærilegri aðstöðu hefðu valið að aka ekki á bílnum til og frá vinnu. "Maður þarf bara að taka ákvörðun um að bíllinn sé ekki til að fara í vinnuna" er haft eftir viðkomandi. Jafnframt segir hann á öðrum stað: "Ég er ekki grænn að eðlisfari en það er bara búið að ýta manni út í að vera umhverfisvænn". Þetta er einmitt mergurinn málsins. Það eru ytri aðstæður sem í þessu tilviki hafa fengið viðkomandi til að hugleiða aðra kosti en þá að nota einkabílinn til og frá vinnu.

Sá sem þetta ritar var framkvæmdastjóri Strætó bs á árunum 2001 - 2007. Ég hef áður sagt að meginvandi almenningssamgangna sé viðhorfið til þeirra. Með hækkandi eldsneytisverði og minni kaupmátt er ljóst að mörgum verður ljóst að valkostir eru fleiri en einkabíllinn þegar kemur að vali ferðamáta. Nær allir þessara valkosta eiga það sameiginlegt að vera margfalt ódýrari en notkun einkabílsins.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu greiða umtalsverða fjármuni með rekstri Strætó bs. Líklegast er einhver besta fjárfesting þessara sveitarfélaga að verja auknum fjármunum til eflingar almenningssamgangna, samhliða öðrum aðgerðum sem ýta undir aukna notkun annara ferðamáta en einkabílsins. Þar má nefna m.a. aukinn forgang í umferðinni fyrir strætó (sérakreinar, ljósastýrðan forgang, götur eingöngu fyrir strætó o.s.frv.), verðlagningu bílastæða ásamt ýmsu öðru. Um leið og notkun strætó eykst hækka fargjaldatekjurnar og þörfin á opinberu framlagi minnkar smátt og smátt.

Fyrirtæki og vinnustaðir gera rétt í því að örva starfsfólk sitt til að velja aðra samgöngumáta en einkabílinn. Ávinningurinn er margvíslegur. Ekki þarf að útvega jafnmörg bílastæði og ella, með því móti sparast fjárfesting í bílastæðum og kostnaður við að reka þau þegar til lengri tíma er litið. Með því að hvetja starfsfólk sitt til vistvænni samgangna leggja fyrirtækið sitt að mörkum í viðleitninni til að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Síðast en ekki síst leiðir aukin hreyfing (hvort heldur er með því að ganga til og frá biðstöð eða með hjólreiðum) til bættrar heilsu og aukinnar vellíðan. Bætt heilsufar almennt er fljótt að skila sér í meiri vellíðan og ánægðari einstaklingum sem verða um leið betri og jákvæðari starfsmenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband