20.3.2008 | 10:24
Laugavegurinn
Um daginn átti ég samtal við starfsmann erlendrar ferðaskrifstofu sem hingað kom til að ganga frá dagskrá fyrir hóp sem hingað kemur á hans vegum í sumar. Við fórum vítt og breitt, skoðuðum veitingastaði, hótel, kynntum okkur afþreyingu af ýmsu tagi og þar fram eftir götunum. Þegar kom að því að taka ákvörðun um hótel fannst honum ekki skipta öllu máli að vera nálægt miðbænum, enda var hann búinn að fara þar um og sá í sjálfu sér ekkert áhugavert þar. Hann minntist sérstaklega á að það væri lítið spennandi fyrir hópinn að vera í miðbænum þar sem ekkert væri um göngugötur og áhugaverð svæði þar sem fólk væri í fyrirrúmi. Þessi orð urðu mér talsvert umhugsunarefni, sérstaklega eftir að hafa farið með viðkomandi hefðbundinn "city sightseeing tour" þar sem m.a. miðbæ Reykjavíkur eru gerð góð skil.
Kaupmenn við Laugaveginn mundu líklegast gera best í því að fá borgina til að loka götunni fyrir bílaumferð og byggja t.d. létt glerþak yfir götuna sem hægt væri að opna á góðviðrisdögum. Tækni nútímans hlýtur að ráða við slíkar lausnir. Þetta kallar að sjálfsögðu á aðgerðir á aðliggjandi svæðum, t.d. varðandi bílastæði, gönguleiðir, almenningssamgöngur o.fl. Reynsla margra borga víða um Evrópu er sú að fyrst eftir að bílaumferð var takmörkuð tóku miðborgirnar að blómstra.
Það er ekkert varið í að ganga um Laugaveginn eða annars staðar í miðbænum þegar stöðug bílaumferð fer hjá með tilheyrandi úblæstri og hávaðamengun, að ekki sé nú minnst á allan þann fjölda bíla sem lagt er ólöglega, m.a. upp á gangstéttum. Nú er lag fyrir borgaryfirvöld og hagsmunaaðila miðbæjarins að snúa saman bökum og koma með raunhæfa lausn sem gerir miðbæinn eftirsóttan að nýju. Hún er miklu einfaldari en marga grunar og er sannarlega til þess fallin að efla svæðið, bæði kaupmönnum, veitingahúsaeigendum, almenningi og borgaryfirvöldum í hag.
![]() |
Kreppa á Laugavegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2008 | 22:53
Hagfræði almúgans
Þessa dagana verðum við vitni að rússíbanareið krónunnar. Nú hefur það loks gerst sem lengi hefur verið beðið eftir, þ.e. að hin ofmetna íslenska króna virðist nú loks vera á sanngjörnu verði gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það er auðvitað afstætt hvað er sanngjarnt, en líklegast ber nú flestum saman um að verðmæti gjaldmiðilsins undanfarin misseri hafi verið of hátt ef eitthvað er.
Á sama tíma og gengisvístalan hækkar haldast stýrivextir áfram háir. Það er eðlilegt, því helsta stjórntæki Seðlabankans er s.k. verðbólgumarkmið. Með öðrum orðum, bankinn notar vaxtastigið til að stemma við verðbólgudraugnum svo hann fari ekki á kreik og verðbólgan verði umfram skilgreind markmið. Nú er staðan hins vegar sú að með breyttu gengi (sumir segja réttmætri leiðréttingu gengisins) er ljóst að öll aðföng þjóðarbúsins hækka, enda flest keypt erlendis frá og greitt fyrir með erlendri mynt. Það þarf því fleiri krónur til að standa straum af þessum innkaupum, hvort heldur er um að ræða nauðsynjavörur eða aðrar vörur. Við þetta hækkar verðlagið í landinu og verðbólgan eykst. Þá heldur Seðlabankinn áfram að hafa vextina háa, því fræðin segja að verði vextirnir lækkaðir auki það eftirspurnina eftir fjármagni og kyndi þar með undir aukna neyslu, með tilheyrandi áhrifum á verðlag og verðbólgu. Það eru þvi góð ráð dýr fyrir Seðlabankann. Fátt um góð úrræði þar á bæ eins og málum er háttað. Á hinn bóginn má benda á að með þessari veikingu krónunnar vænkast hagur útflutningsfyrirtækjanna sem væntanlega skilar sér í auknum skatttekjum í ríkissjóð.
Það kemur í hugann sú áleitna spurning hvort ekki sé rétt að lækka vextina þrátt fyrir allt þegar svo er ástatt sem nú. Heimilin í landinu eru lang flest skuldug upp fyrir haus, bæði vegna húsnæðiskaupa og vafalaust mörg einnig vegna neyslulána. Með allri verðhækkuninni sem framundan er vegna veikingar krónunnar verður erfitt fyrir þessi skuldsettu heimili að standa straum af útgjaldaaukanum. Ef vextirnir væru hins vegar lækkaðir mundi það vega upp að einhverju leyti útgjaldaaukann og kæmi það mörgum til góða, einkum þeim sem skuldugir eru. Það mundi án efa slá á þensluna frekar en auka hana eins og nú er ástatt. Þar að auki mundi vafalaust tiltrúin á gjaldmiðlinum vaxa á ný, enda nauðsynlegt að byggja upp traust á krónunni innan frá í stað þess að láta verðmat hennar stýrast af mati spákaupmanna sem versla með jöklabréf.
Hagfræðing er býsna merkileg fræðigrein - hún kemur stöðugt á óvart.
![]() |
Segir gengi krónunnar næstum rétt skráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2008 | 22:24
Tannkrem og löggubíll
Ásgeir Bjarni afastrákur er mikill snillingur þótt fjögurra ára sé. Hann fór með mömmu sinni í búð eftir að þau höfðu rætt hvað skyldi keypt handa afa í afmælisgjöf. Stráksi hafði skýra skoðun á því og fékk auðvitað að kaupa það sem hann vildi gefa afa: Tannkrem og löggubíl. Afi á blátt tannkrem sem auðvitað gengur ekki til lengdar. Þess vegna er núna hvítt tannkrem í túpu af stærstu gerð komin í baðherbergisskápinn. Svo er auðvitað nauðsynlegt fyrir afa að leika sér með Ásgeiri Bjarna þegar hann kemur í heimsókn svo heppilegt þótti okkar manni að kaupa löggubíl af flottustu gerð. Afi fékk sem sagt tannkrem og löggubíl í afmælisgjöf frá nafna sínum - ekki slæmt það.
Nú er snáðinn sofnaður hér hjá ömmu og afa eftir vel heppnaðan dag. Áður en hann fór að sofa tilkynnti hann afa sínum að hann ætlaði að vakna á undan honum á morgun og klípa í tásuna á honum. Það verður spennandi fyrir afa að vakna í fyrramálið.
Við erum búin að eiga saman gæðastund í dag. Ásgeir Bjarni sótti afa í skólann, fór með honum og keypti pizzu og dundaði sér við límmiðabók með ömmu. Þetta er nú þegar öllu er á botninn hvolft besta afmælisgjöfinn - samveran og gleðin yfir því að eiga því láni að fagna að búa við barnalán og góða heilsu. Þá er ekkert að því að eldast.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.3.2008 | 21:17
Góð tíðindi að vestan
![]() |
Útilokar ekki framboð með Obama |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.2.2008 | 21:51
Leiðtogar og stjórnendur
Ég sótti áhugaverðan fyrirlestur í dag hjá Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni, lektor í mannauðsstjórnun við Viðskiptadeild Háskóla Íslands. Hann fjallaði þar um stjórnendur og leiðtoga, og þá þætti í fari leiðtoga sem stjórnendur sækjast eftir.
Það var margt áhugavert sem kom fram í fyrirlestri Gylfa. Stjórnendur eru ekki endilega leiðtogar, og leiðtogar ekki endilega stjórnendur. Inn í þessa umræðu blandast oft frumkvöðlar sem heldur er ekkert sjálfgefið að séu leiðtogar né stjórnendur. Stjórnendur og leiðtogar eiga margt sameiginlegt, en það eru að mati Gylfa fleiri þættir sem þessir tveir hópar eru frábrugðnir hvorir öðrum. Í sem allra stysta máli og einfaldaðri útgáfu má segja að leiðtoginn sé sá sem "býr til" framtíðarsýn og stefnu sem þarf til að tryggja breytingar í skipulagsheildum, kemur þeirri sýn áleiðis til starfsmanna, vekur hollustu, skapar liðsheild og bandalag með málstað. Stjórnandinn er hins vegar í því hlutverki að hanna t.d. hvatakerfi, metur frammistöðu og stýrir fólki inn á rétta braut þegar frávik verða. Einkenni leiðtoga umfram stjórnendur er e.t.v. það að þeir ná "umfram" árangri með því að hrífa fólk með sér tíl góðra verka. Þeim tekst að virkja starfsmenn, miðla framtíðarýn, leysa ágreining, skapa liðsheild, hvetja, veita umboð til athafna og skapa lærdómsumhverfi. Þetta eru þeir eiginleikar leiðtoga að mati Gylfa sem stjórnendur sækjast eftir. Góð samlíkingin sem einnig kom fra hjá Gylfa: stjórnandinn stjórnar með sverði en leiðtoginn með sprota. Einkenni stjórnunarstíls leiðtoga er nærgætni, hvatning og persónutöfrar.
Þessi fyrirlestur gaf tóninn um það sem við í MBA náminu eigum í vændum, því síðari hluta vorannar verður námskeið í mannauðsstjórnun sem Gylfi mun kenna. Spennandi tímar framundan á skólabekknum góða.
20.2.2008 | 18:53
Tími forsjárhyggjunnar er liðinn
![]() |
Tvískinnungur að aðrar reglur gildi um póker |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2008 | 19:04
Frábær frammistaða
Strætóbílstjórar eru upp til hópa frábært fólk. Þeir sinna starfi sínu oft við erfiðar aðstæður og kemur þar margt til. Þeim er ætlað að aka samkvæmt tímaáætlun óháð ytri aðstæðum, svo sem færð og umferðarálagi. Þeir þurfa að eiga við einstaklinga í misjöfnu ástandi, þótt svo auðvitað séu farþegar í strætó upp til hópa ákaflega viðkunnalegt og þægilegt í samskiptum. Þeir þurfa svo að sinna farmiðasölu, innheimta fargjald, sinna fjarskiptum og fleira mætti telja. Þar að auki gera farþegarnir þær kröfur til vagnstjóranna að þeir séu í góðu skapi, þjónustulundaðir, liprir og þægilegir. Síðast en ekki síst er gerð krafa um mjúkan, þægilegan og öruggan akstur.
Það er eins og hvíli stundum einhver álög á starfsemi Strætó bs., fjölmðilar og almenningur virðist oftar en ekki vera tilbúnir að beina spjótum sínum og gagnrýni á starfsemina, og oftast er stutt í alhæfingar. Það hefur allt sín áhrif á starfsemina og starfsmennina. Þeir eru því ekki öfundsverðir og sinna starfi sínu vægast sagt oft við erfiðar aðstæður.
Það er ánægjulegt að loks skuli birtast jákvæð og uppbyggileg frétt frá þessu þjakaða fyrirtæki. Frammistaða vagnstjórans er til fyrirmyndar í alla staði, hún á heiður skilinn fyrir snör handtök og rétt viðbrögð. Væri ekki rétt að sæma hana viðurkenningu fyrir afrekið?
![]() |
Þetta var ekki auðvelt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2008 | 00:23
Borgarskipulag í brennidepli
Það er afar áhugaverð sýningin sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur, sem er til húsa í gamla Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Þar eru nú til sýnis tillögur sem bárust í hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina sem Reykjavíkurborg efndi til og kunngerði úrslitin á dögunum.
Verðlaunatillagan er mögnuð. Hún nær að fanga á einstakan hátt hina einu sönnu Reykjavíkurstemmingu um leið og til verður áhugaverð nútímalausn sem er til þess fallin að ganga vel upp við umhverfi sitt. Það er væntanlega ekki einfalt að bæta heilu borgarhverfi við, ekki síst eins og í þessu tilviki svo nálægt miðbænum eins og raun ber vitni. Það er líka ánægjulegt til þess að vita hversu góð samstaða náðist um tillöguna um leið og það er athyglisvert að verða vitni að því hversu umræðan um hvort flugvöllurinn eiga að vera eða fara kemst á vitrænna stig en áður.
Sem áhugamaður um samögnur tekur maður eftir að margir góðir möguleikar opnast með þessari tillögu. Varpað er fram hugmynd um léttlestir og einnig tengingu yfir á Kársnesið með göngum sem mundi opna leið fyrir lestarsamgöngur til Keflavíkur.
Með tilkomu "102 Reykjavík" skapast ný sóknarfæri fyrir Reykjavík, ekki síst í samgöngulegu tilliti. Það verður áhugavert að fylgjast með umræðunni og hvernig unnið verður áfram með tillöguna. Ekki síst verður fróðlegt að sjá hvernig skipulagsyfirvöld sjá fyrir sér tenginu þessa nýja hverfis við önnur hverfi höfuðborgarsvæðisins, t.d. hvort eigi að aðlaga þetta nýja hverfi "bílaborginni Reykjavík" eða hvort sú ágæta bílaborg verði aðlöguð þessu nýja hverfi og þeim áhugaverðu möguleikum sem tillagan hefur upp á að bjóða.
Nú er bara að vona að sæmilegur stöðuleiki fari að nást í borgarpólitíkinni svo unnt sé að nýta kraftana í uppbyggilega umræðu, ekki síst um jafn mikilvæg mál og skipulagsmál og samgönumál. Það eru spennandi tímar framundan á þessum vettvangi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2008 | 19:46
MBA námið er krefjandi en jafnframt skemmtilegt
Það er býsna gaman í skólanum. Nú er önnur önnin af fjórum hafin, tíminn líður ótrúlega hratt við þessa iðju. Á hverri önn eru fjögur námskeið kennd, tvö í senn. Á haustönninni lærðum við (eða rifjuðum upp, sum okkar) rekstrarhagfræði og starfsumhverfi; skipulagsheildir og stjórnun, greiningu viðfangsefna og ákvarðanir; sem og markaðsfræði. Allt þetta námskeið spannar býsna mikið efni, farið er í fræðilega hlið málsins jafnframt því sem raunhæf verkefni eru leyst, unnið er í hópum, fyrirtæki heimsókn, próf þreytt o.s.frv. Það rifjast upp gamli góði prófskrekkurinn meira að segja. Við lærum að nýta okkur alls konar verkfæri, tól og tæki. Nýjar víddir hafa opnast fyrir manni um notkun töflureiknis (Excel), við lærum að vinna tölfræðilegar greiningar, vinna markaðsáætlanir og fleira mætti telja.
Nú eru tvö afar áhugaverð námskeið í gangi, annars vegar rekstrarstjórnun og hins vegar reikningshald. Við lærum þar að greina flæði og ferla, tókumst á hendur stýringu á ímyndaðri verksmiðju í hermilíkani þar sem reynir á kunnáttu, snör viðbrögð og hæfni til að taka réttar ákvarðanir. Við lærum að greina ársreikninga, fáum innsýn í heim reikningsskilastaðla, lærum enn meira á excel og þau verkfæri sem hann hefur upp á að bjóða og svona má áfram telja. Sem sagt, býsna fróðlegt, skemmtilegt, krefjandi og áhugavert. Því er ekki að leyna að öll þessi yfirferð færir manni nýja sýn á þau viðfangsefni og það sem maður almennt er að kljást við í daglegum störfum sínum í atvinnulífinu.
Það eru 47 frábærir einstaklingar sem stunda námið í þessum hóp. Þetta er fjölbreyttur hópur með mikla breidd og ólíkan bakgrunn. Fólk á öllum aldri, allt frá 28 ára upp í 55 eða svo. Stjórnmálamenn, kennarar, listamenn, heilbrigðisstarfsfólk, lögfræðingar, viðskiptafræðingar, ráðgjafar og fleira mætti telja. Einstaklega skemmtilegur hópur sem fellur vel saman, og traust vináttubönd verða til. Það er ekki síður mikilvægt, enda segja þeir sem lokið hafa MBA náminu nú þegar að sú vinátta og tengslamyndun sem til er stofnað í náminu sé ómetanleg. Það sannast því vísukornið úr barnaskólanum: "Í skólanum, í skólanu, er skemmtilegt að vera......"
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2008 | 22:17
Samgönguráð ræðir sporbundnar samgöngur
Á vef Samgönguráðuneytisins má sjá frétt um að þann 8. febrúar hafi verið haldin málstofa á vegum Samgönguráðs. Málstofan fjallaði um sporvagna, svæðis- og samgönguskipulag og skýrsludrög um almenningssamgöngur á Íslandi. Í fréttinni kemur fram að sérfræðingur frá Stuttgart í Þýskalandi hafi fjallað um reynslu af léttlestakerfi þar í borg, þar sem m.a. hafi komið fram að léttlestir geti verið fyllilega raunhæfur valkostur fyrir borgir af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið er.
Samgöngunefnd Reykjavíkur tókst á hendur ferð til nokkurra borga í Þýskalandi árið 2003, þar á meðal Stuttgart, þar sem nefndin kynnti sér léttlestavæðingu þessara borga ásamt reynslu þeirra af því að hafa valið þennan kost. Tekin var saman skýrsla um ferðina og í kjölfarið urðu talsverðar umræður um hvort slíkt gæti verið raunhæfur valkostur fyrir borgina. Málið hlaut ekki brautargengi á þeim tíma og var tekið af dagskrá.
Það er áhugavert að Samgönguráð skuli nú taka málið til umfjöllunar, ekki síst í ljósi þess að fram að þessu hefur tiltölulega lítið frumkvæði komið frá ríkisvaldinu hvað varðar almenningssamgöngur í þéttbýli. Sveitarfélögin hafa alfarið þurft að bera hita og þunga af starfrækslu þessa málaflokks, gagnstætt því sem almennt tíðkast. Í því sambandi má benda á að í Þýskalandi greiðir ríkið 80% af stofnkostnaði við almenningssamgöngur í þéttbýli. Hér á landi er starfsemin að greiða talsverða fjármuni á ári hverju til ríkissjóðs, mest í formi virðisaukaskatts.
Bendi í leiðinni á útvarpsþáttinn Krossgötur á RÚV (rás 1 á laugardögum), þar sem Hjálmar Sveinsson fjallar um þessar mundir um skipulagsmál og nú í síðasta þætti um samgöngustefnu fyrirtækja, innheimtu vegatolla í þéttbýli og almenningssamgöngur. Hann tók við mig viðtal sem hann birti í þessum þætti þar sem hann spurði mig álits um ýmislegt er varðar reynslu mína af starfsemi innan þessa málaflokks undanfarin ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)