Færsluflokkur: Menntun og skóli

Landsýn

Það glittir í land eftir langa og stranga siglingu. Senn lýkur fyrri hluta MBA námsins, nánar tiltekið með prófi laugardaginn 7. júní. Við hófum leikinn í kringum 25. ágúst s.l., svo þetta er orðin býsna langt og strangt úthald. Undanfarna daga og vikur hefur mannskapurinn lagt á sig mikla verkefnavinnu og prófundirbúning. Það verður ljúft að standa upp frá prófborðinu kl. 13 á laugardag, ganga út í sumarið, fagna áfanganum í góðum hóp og gleyma öllu erfiðinu um stund.

MBA námið hefur fyllilega staðið undir væntingum. Allir sem hafa hug á að efla færni sína, eru með háskólapróf og a.m.k. 3ja ára starfsreynslu og vilja takast á við stjórnunarstarf ættu að hugleiða nám þetta. Það nær yfir marga og mismunandi þætti sem nýtast vel í krefjandi störfum. Bakland Háskóla Íslands er traust og gott, fagmennskan er í fyrirrúmi.

Framundan er sumarleyfi bæði frá vinnu og námi. Ég er staðráðinn í að njóta þess út í ystu æsar.


Leiðsögunám á háskólastigi

Endurmenntun Háskóla Íslands hefur nú ákveðið að bjóða upp á leiðsögunám á hausti komandi. Hér má sjá lýsingu á náminu. Leiðsögunám hefur til þessa verið kennt hjá Leiðsöguskóla Íslands sem er fóstraður hjá Menntaskólanum í Kópavogi, auk þess sem Ferðamálaskólinn hefur einnig boðið upp á sambærilegt nám.

Námið hjá Endurmenntun HÍ er 3ja anna grunnnám, 60 einingar. Það er því talsvert umfangsmeira en námið hjá hinum skólunum tveimur, en þar er um að ræða 2ja anna nám. Námið er þróað innan veggja Háskólans í samráði við ýmsa fagaðila, jafnt innan skólans sem utan. Leiðsögunám er afar áhugavert og skemmtilegt nám, sem veitir nemendum innsýn og heildarmynd um allt milli himins og jarðar sem gesti okkar fýsir að fræðast um. Áhersla er á land og þjóð, sögu, menningu, náttúrufar, jarðfræði, bókmenntir, listir, landshagi og hvaðeina annað sem áhugavert getur talist. Allt raðast þetta síðan saman í eina heildarmynd sem leiðsögumaðurinn kemur til skila á hinum ýmsu tungumálum eftir því sem við á.

Umsóknarfresturinn er runninn út, en mér er ekki grunlaust um að enn sé hægt að sækja um með það að markmiði að hefja námið á hausti komanda. Vert er að vekja athygli á því að námið er unnt að taka sem fjarnám.

 


Helgarlæri a la MBA

Það er fátt um fína drætti og glæsileg afrek í eldhúsinu þessa dagana. Undir öllum venjulegum kringumstæðum væri maður vísast búinn að elda a.m.k. einu sinni um helgina ærlega máltíð, t.d. lambalæri með rauðkáli og grænum baunum, að ógelymdu malti og appelsín með (enda það sterkasta sem tengdamamma fæst til að drekka.....). Þess í stað er bara setið við lærdóminn, svo það verður víst að vera það sem næst kemst lærinu þessa helgina.

Búinn að skila af mér einu verkefni í dag, annað er í vinnslu og gengur bara prýðilega sýnist mér. Stefni á að skila því á morgun. Kennsluhelgi framundan, skólaseta n.k. föstudag og laugardag. Það er farið að síga aðeins í verð ég að viðurkenna, enda komið langt fram á vor. Nú er bara að halda þetta út. Það verður kennt alveg fram yfir mánaðamót, en síðasta prófið verður laugardaginn 7. júní. Mikið lifandis skelfing verður gaman þann dag! Eftir próflok kl. 13 söfnumst við saman hópurinn og efnum til MBA-leikanna með tilheyrandi hópefli, leikjum og húllum-hæ. Mér er ekki grunlaust um að það eigi eftir að verða mikið fjör og stuð langt fram eftir nóttu.

Námsgreinarnar nú á lokasprettinum eru býsna ólíkar: Fjármál fyrirtækja og Mannauðsstjórnun. Áhugavert að skygnast inn í fræðin, fjármálastjórnun er reyndar eitthvað sem maður þekkir af reynslu í gegnum tíðina en það sama er ekki hægt að segja um mannauðsstjórnunina. Sumum finnst þetta fag algjört froðusnakk, skoðanir á því eru misjafnar eins og gengur. Mannauðurinn er sennilega vanmetin auðlind víða, það er því til mikils að vinna að sinna þessum málaflokki vel, enda líklegt að þau fyrirtæki sem það geri uppskeri ríkulega.


Áfram mjakast þetta allt saman - sól á Sólvangi

Það er ennþá nóg að gera á vettvangi MBA námsins þótt langt sé liðið á vorið. Nú er síðast áfanginn á þessari önn hafnn, honum lýkur ekki fyrr en 7. júní n.k. Þá kemur langþráð sumarhvíld í næstum því þrjá mánuði. Nú er verið að kljást annars vegar við fjármál fyrirtækja og hins vegar mannauðsstjórnun. Ólíkar greinar en báðar áhugaverðar. Ekki spillir fyrir að kennararnir eru góðir - menn sem kunna sitt fag og einnig þá list að miðla þekkingunni.

Það var mikill léttir að ljúka tveimur síðustu námskeiðum, reikningshaldi og rekstrarstjórnun. Hvorutveggja nokkuð strembnar greinar sem kröfðust mikils vinnuframlags. Það var því ljúft að uppskera þokkalegar einkunnir úr þeim báðum.

Svo er það ein góð og notaleg frétt úr vinahópnum: Hún Berta Sóley er komin heim til sín á Sólvang. Henni lá einhver ósköp á í heiminn, hún og tvíburasystir hennar fæddust á Valentínusardaginn, þ. 14. febrúar s.l., eftir tæpa 28 vikna meðgöngu. Hún var ekki nema 1000 g litla skinnið, og þurfi því bæði á vaxtarækt og ljósabekk að halda á vökudeildinni. Hún er nú orðin 2600 g og dafnar vel. Það er á stefnuskránni að heimsækja hana og nýbakaða foreldrana fljótlega. Tvíburasystir Bertu Sóleyjar, Elsa Björt, lifði ekki nema 6 daga. Það er mikið og ögrandi verkefni fyrir ungt fólkt að takast samtímis á við gleði og sorg, það er ekki einfalt hlutskipti. Við dáumst að ungu foreldrunum fyrir æðruleysi þeirra, og óskum fjölskyldunni alls hins besta í framtíðinni.


Menntun margborgar sig

Ég sé á heimasíðu MBA námsins við HÍ að nú er byrjað að taka við umsóknum þeirra sem hyggja á MBA námið næstkomandi haust. Það rifjast upp hugrenningar manns sjálfs á þessum tíma fyrir ári þegar maður byrjaði að velta því fyrir sér af alvöru að drífa sig í 2ja ára krefjandi háskólanám á gamals aldri. Til að taka af öll tvímæli: ég sé ekki eftir því. Þvert á móti er þetta sennilega með því betra sem ég hef gert fyrir sjálfan mig í langan tíma. Þótt undanfarnir dagar og vikur hafi verið gjörsamlega yfirhlaðnir af lærdómi, tímasókn, hópavinnu og verkaefnaskilum, jafnvel langt fram eftir nóttu, er þetta hreint alveg frábært í alla staði. Með því að leggja á okkur ómælda vinnu erum við nú smátt og smátt að uppskera árangur eftir allt erfiðið. Sjóndeildarhringurinn víkkar, kunnáttan eykst og hæfileikinn til að takast á við flókin og umfangsmikil verkefni tekur stöðugum framförum.

Ég hvet alla sem hafa verið að velta fyrir sér MBA náminu að hugleiða alvarlega að drífa sig. Hvort sem þú ert viðskiptafræðingur, lögfræðingur, verkfræðingur, kennari, listamaður, heimspekingur, líffræðingur, tannlæknir, hjúkrunarfræðingur, skipulagsfræðingur eða hvað, þetta nám hentar öllum. Það er ekki of seint, umsóknarfresturinn rennur ekki út fyrr en í byrjun maí og eins og sjá má með þann sem þetta ritar að það er aldeilis ekki of seint að skella sér þrátt fyrir að einhver svo og svo mörg ár séu liðin frá því maður leit fyrst dagsins ljós. Ég er meira að segja ekki elstur í hópnum!

Það eru í raun algjör forréttindi að taka þátt í námi sem þessu, allir eru þarna af sambærilegum hvötum, þ.e. að læra meira, efla færni sína og hæfni. MBA námið er eins og gott orkuver, það virkjar í manni kraftinn. Maður "lærir að læra", lærir að fókusera og horfa á það sem skiptir máli, fær góða þjálfun í að vinna í hópastarfi og með samstilltu átaki ná góðum árangri.

Nú er bara að drífa sig að sækja um!


Leiðtogar og stjórnendur

Ég sótti áhugaverðan fyrirlestur í dag hjá Gylfa Dalmann Aðalsteinssyni, lektor í mannauðsstjórnun við Viðskiptadeild Háskóla Íslands. Hann fjallaði þar um stjórnendur og leiðtoga, og þá þætti í fari leiðtoga sem stjórnendur sækjast eftir.

Það var margt áhugavert sem kom fram í fyrirlestri Gylfa. Stjórnendur eru ekki endilega leiðtogar, og leiðtogar ekki endilega stjórnendur. Inn í þessa umræðu blandast oft frumkvöðlar sem heldur er ekkert sjálfgefið að séu leiðtogar né stjórnendur. Stjórnendur og leiðtogar eiga margt sameiginlegt, en það eru að mati Gylfa fleiri þættir sem þessir tveir hópar eru frábrugðnir hvorir öðrum. Í sem allra stysta máli og einfaldaðri útgáfu má segja að leiðtoginn sé sá sem "býr til" framtíðarsýn og stefnu sem þarf til að tryggja breytingar í skipulagsheildum, kemur þeirri sýn áleiðis til starfsmanna, vekur hollustu, skapar liðsheild og bandalag með málstað. Stjórnandinn er hins vegar í því hlutverki að hanna t.d. hvatakerfi, metur frammistöðu og stýrir fólki inn á rétta braut þegar frávik verða. Einkenni leiðtoga umfram stjórnendur er e.t.v. það að þeir ná "umfram" árangri með því að hrífa fólk með sér tíl góðra verka. Þeim tekst að virkja starfsmenn, miðla framtíðarýn, leysa ágreining, skapa liðsheild, hvetja, veita umboð til athafna og skapa lærdómsumhverfi. Þetta eru þeir eiginleikar leiðtoga að mati Gylfa sem stjórnendur sækjast eftir. Góð samlíkingin  sem einnig kom fra hjá Gylfa: stjórnandinn stjórnar með sverði en leiðtoginn með sprota. Einkenni stjórnunarstíls leiðtoga er nærgætni, hvatning og persónutöfrar.

Þessi fyrirlestur gaf tóninn um það sem við í MBA náminu eigum í vændum, því síðari hluta vorannar verður námskeið í mannauðsstjórnun sem Gylfi mun kenna. Spennandi tímar framundan á skólabekknum góða.


MBA námið er krefjandi en jafnframt skemmtilegt

Það er býsna gaman í skólanum. Nú er önnur önnin af fjórum hafin, tíminn líður ótrúlega hratt við þessa iðju. Á hverri önn eru fjögur námskeið kennd, tvö í senn. Á haustönninni lærðum við (eða rifjuðum upp, sum okkar) rekstrarhagfræði og starfsumhverfi; skipulagsheildir og stjórnun, greiningu viðfangsefna og ákvarðanir; sem og markaðsfræði. Allt þetta námskeið spannar býsna mikið efni, farið er í fræðilega hlið málsins jafnframt því sem raunhæf verkefni eru leyst, unnið er í hópum, fyrirtæki heimsókn, próf þreytt o.s.frv. Það rifjast upp gamli góði prófskrekkurinn meira að segja. Við lærum að nýta okkur alls konar verkfæri, tól og tæki. Nýjar víddir hafa opnast fyrir manni um notkun töflureiknis (Excel), við lærum að vinna tölfræðilegar greiningar, vinna markaðsáætlanir og fleira mætti telja.

Nú eru tvö afar áhugaverð námskeið í gangi, annars vegar rekstrarstjórnun og hins vegar reikningshald. Við lærum þar að greina flæði og ferla, tókumst á hendur stýringu á ímyndaðri verksmiðju í hermilíkani þar sem reynir á kunnáttu, snör viðbrögð og hæfni til að taka réttar ákvarðanir. Við lærum að greina ársreikninga, fáum innsýn í heim reikningsskilastaðla, lærum enn meira á excel og þau verkfæri sem hann hefur upp á að bjóða og svona má áfram telja. Sem sagt, býsna fróðlegt, skemmtilegt, krefjandi og áhugavert. Því er ekki að leyna að öll þessi yfirferð færir manni nýja sýn á þau viðfangsefni og það sem maður almennt er að kljást við í daglegum störfum sínum í atvinnulífinu.

Það eru 47 frábærir einstaklingar sem stunda námið í þessum hóp. Þetta er fjölbreyttur hópur með mikla breidd og ólíkan bakgrunn. Fólk á öllum aldri, allt frá 28 ára upp í 55 eða svo. Stjórnmálamenn, kennarar, listamenn, heilbrigðisstarfsfólk, lögfræðingar, viðskiptafræðingar, ráðgjafar og fleira mætti telja. Einstaklega skemmtilegur hópur sem fellur vel saman, og traust vináttubönd verða til. Það er ekki síður mikilvægt, enda segja þeir sem lokið hafa MBA náminu nú þegar að sú vinátta og tengslamyndun sem til er stofnað í náminu sé ómetanleg. Það sannast því vísukornið úr barnaskólanum: "Í skólanum, í skólanu, er skemmtilegt að vera......"


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband