11.11.2007 | 17:33
Búðarferð án forsjárhyggju
Við Davíð fórum í dag og keyptum í matinn, nánar tiltekið í þá ágætis verslun Sainsbury´s. Það er gaman að fara í góðar matvörubúðir þar sem er gott úrval og góð verð. Við keyptum kartöflur og ýmislegt fleira, því nú erum við að sjóða hangiket. Það verður veisla með öllu tilheyrandi: hangikjöt með uppstúf, ora grænum og öðru sem þess háttar kræsingum tilheyrir. Nú er kominn þessi fíni ilmur í íbúðina, það er jólalykt í húsinu.
Það vakti athygli mína að auk hefbðundinna matvæla var gott úrval af áfengi ýmiss konar. Þarna gat maður valið úr góðu rauðvíni og hvítvíni frá hinum og þessum stöðum, gott úrval af bjór, og það sem meira er að þá var hægt að velja á milli ýmissra góðra viský tegunda og annarra sterkra drykkja. Ég tók líka eftir því að svo virtist sem að þeir sem voru að kaupa inn í búðinni voru ekkert endilega bundnir meira yfir þessum vörum frekar en grænmetinu og ávöxtunum. Það sem meira er, bæði börn og unglingar voru áberandi meðal viðskiptavinanna, ekki varð þó séð að þau væru að sniglast í kringum vínrekkana.
Mér finnst við Íslendingar vera heimóttalegir í umræðunni um hvort leyfa eiga sölu bjórs og borðvína í matvöruverslunum. Umræðan ber öll keim af forsjárhyggju og því að nauðsynlegt sé að hafa vit fyrir fólki. Mér er sagt að alkahólismi sé sjúkdómur. Það er því líklegt að þeir sem eru haldnir þessum sjúkdómi láti ekki aðgengið að vímugjafanum aftra sér. Mér finnst miður að hugsanleg áhrif á þá sem eru veikir fyrir eigi að hafa áhrif á það hvort allir hinir eigi að geta keypt sér rauðvín um leið og steikin er keypt. Það er svona svipað og að taka burt allar sykraðar vörur úr venjulegum búðum af tillitssemi við sykursjúka. Látum nú af sveitamennskunni og smásálarhugsunargangnum, lyftum huganum upp á ögn æðra plan og leyfum frjálsum straumum að leika um vanga okkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2007 | 20:27
Jafntefli í grannaslag
Það eiga nú sjálfsagt fæstir sem þekkja mig von á því að ég fari að tjá mig um íþróttir. Nema ef vera kynni um úrslit á innanfélagsmóti Skíðadeldar KR í Skálafelli. Þar er hins vegar enginn snjór um þessar mundir.
Þar sem ég er sem sagt staddur í Newcastle finnst mér tilhlýðilegt að fjalla um grannaslaginn sem hér átti sér stað í dag, þegar heimamenn skruppu suður yfir fljót og heimsóttu nágrannana í Sunderland. Þetta var víst hörku leikur, en hann endaði með jafntefli, 1-1. Það voru heimamenn í Sunderland sem opnuðu markareikninginn, þegar Danny Higginbothan skoraði á 52. mínútu. Gestirnir frá Newcastle brugðust við af ákveðni, og 13 mínútum síðar jafnaði James Milner metin, og reyndust mörkin ekki fleiri í þessum leik.
Það vakti athygli fjölmiðla hér um slóðir að eigandi Newcastle liðsins, Mike Ashley, mætti á völlinn til að styðja við bakið á sínum mönnum. Að þessu sinni ákvað hann að vera meðal stuðningsmannanna, fyrir aftan annað markið, íklæddur treyju nr. 17 eins og hann gerir oftast á leikjum liðsins. Forsvarsmenn Sunderland höfðu víst nokkrar áhyggjur af því að nærvera eigandans meðal stuðningsmannanna gæti valdið vandræðum, en allt virðist þetta hafið gengið áfallalaust fyrir sig.
Tyne áin liðast fallega áfram hér utan við gluggann, það er ekki amalegt að horfa yfir á upplýsta Millenium brúna, eitt af glæsilegri mannvirkjum þessarar fyrrum kolaborgar, sem nú einkennist af mikilli uppbyggingu, iðandi mannlífi og fallegum byggingum.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007 | 20:37
Gæðastundir í Nýja Kastala
Við Kristrún erum komin í viku dvöl hjá Davíð syni okkar og Ýri, sambýliskonu hans, hér í Newcastle upon Tyne í Englandi. Davíð okkar er að gera það gott hér hjá enskum, hér flýgur hann þotu af gerðinni Boeng 737-700 hjá lággjaldaflugfélaginu easyJet. Ýr er snyrtifræðingur og vinnur sem slík hjá virtri snyrtistofu í miðbænum.
Dagurinn í dag hefur verið sannkölluð gæðastund út í gegn. Við Davíð fórum í útréttingar af ýmsu tagi, við fórum líka í ræktina og "chilluðum" bara svona almennt saman. Rétt eins og er svo nauðsynlegt fyrir feðga öðru hvoru. Hér var svo eldaður kvöldmatur af betri gerðinni, dúnmjúk nautasteik með piparrönd, ofnbakaðar kartöflur, tómatar og mozarella ostur, dýrindis rauðvín..... og á undan Cava freyðivín frá Spáni. Ekki nóg með það, á milli "rétta" settist drengurinn við hljóðfærið og spilaði etýður eftir Debussey og þaðan af betra "stöff".
Er hægt að kvarta við slíkar aðstæður? Það er fátt mikilvægara en fjölskyldan, börnin, tengdabörnin, barnabörnin..... og að fá að njóta samvista við þau öll - á sínum heimavelli. Þetta verður væntanlega síðasta heimsókn okkar til þeirra hér í Newcastle, því eftir áramótin bíða þeirra ný ævintýri í Milano á Ítalíu, en Davíð sótti um flutning hjá vinnuveitenda sínum og fékk. Þau flytja því snemma á nýju ári - það gefur okkur Kristrúnu auðvitað tækifæri til að heimsækja þau þar - með tilheyrandi notalegum gæðastundum.
4.11.2007 | 20:09
Áhugaverðar áherslur Svandísar
Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarstjórn, var í viðtali í Silfri Egils í dag. Það var sem betur fer ekki einungis talað um Orkuveituna og REI, heldur einnig tæpt á öðrum málum. Það var áhugavert að hlusta á viðtalið, hér er greinilega á ferðinni stjórnmálamaður af betri gerðinni, sem gerir sér far um vönduð vinnubrögð, er sjálfri sér samkvæm og með skýra og ákveðna sýn á málefnin.
Ég hef áður hér í blogginu tjáð mig um málefni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það var því fróðlegt að heyra í viðtalinu að þegar Svandís var spurð hverjar væru hennar áherslur í borgarmálunum taldi hún upp umhverfismálin, og í því sambandi málefni er snúa að samgöngum, samgöngumannvirkjum og síðast en ekki síst almenningssamgangna. Það kom fram hjá henni að efla þyrfti strætó, auka forgang í umferð, og hún sagði jafnframt að hún væri ekki feimin við að þrengja að einkabílnum.
Hér eru á ferðinni nýjar og athyglisverðar áherslur á vettvangi borgarstjórnar. Svandís vakti athygli á grænum skrefum sem tekin voru undir forystu Gísla Marteins Baldurssonar, og vill halda áfram á þeirri braut. Með því að takast á við rót vandans og efla forgang í umferðinni, sem verður sennilega ekki gert af neinu viti nema að þrengja að einkabílnum í einhverju mæli, kveður því við nýjan tón. Það er margsannað að mun fleiri munu nota almenningssamgöngur um leið og þeir sjá sér hag í því, ekki síst ef það verður beinlínis fljótlegra að fara á milli staða t.d. með strætó en á bíl. Þá mun koma af sjálfu sér í framhaldinu aukin og bætt þjónusta í samræmi og takt við aukna eftirspurn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2007 | 14:35
Næsti áfangi hafinn í MBA
Í dag hófst önnur lota í MBA náminu. Fyrri lotunni lauk með prófum um síðustu helgi, þannig að nú er 1/8 hluti námsins að baki. Nú eigum við að vita allt um rekstrarhagfræði og starfsumhverfi, sem og stjórnun skipulagsheilda. Það er að vísu ekki komin niðurstaða úr prófunum, en vonandi verður það í lagi.
Nýju námskeiðun tvö sem nú fara af stað heita annars vegar "Greining viðfangsefna og ákvarðanir" og hins vegar Markaðsfræði. Í dag erum við að sökkva okkur niður í alls kyns tól og tæki sem auðvelda greiningu viðfangsefna, jafnframt erum við að feta okkur inn í heim tölfræðinnar. Þar er galdratólið Excel mikilvægt hjálpartæki. Hugtök eins og meðaltal, meðalgildi, tíðasta gildi, staðalfrávik o.s.frv. er mikilvægt að kunna deili á, sem og að geta handfjatlað þau í töflureikninum.
Með nýjum námskeiðum verða til nýjir vinnuhópar. Við í mínum hóp erum þegar búin að hittast lauslega, því ekki veitir af að hefjast handa nú þegar. Mörg verkefni eru í deiglunni, svo það verður nóg að snúast næstu 10 vikurnar. Ég kveð gamla hópinn með söknuði, hann var einstaklega samhentur og skemmtilegur. Annað kvöld ætlar mannskapurinn allur að hittast og skemmta sér, svona til að hrista okkur aðeins meira saman.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.10.2007 | 23:46
Focus on your strength
Heimsótti vin minn Thomas Möller fyrr í kvöld. Ég hef minnst á hann áður hér á blogginu. Thomas er frábær einstaklingur og góður vinur. Hann er í MBA námi við HR, sem sagt ekki í sama skóla og ég en samt í sams konar námi. Það er gaman að spjalla og bera saman bækurnar, í orðsins fyllstu merkingu.
Við ræddum um stjórnun og ýmislegst sem snýr að þeim fræðum. Maður kemur ekki að tómum kofanum þar á bæ. Thomas er hafsjór af fróðleik á þessu sviði, hann er vel lesinn og hefur viðað að sér heilmiklum fróðleik sem hann miðlar frá sér á þann hátt að þetta verður einhvern veginn allt svo eðlilegt og einfalt.
"Focus on your strength" - leggðu áherslu á styrkleika þína. Þetta sannast best á því að Tiger Woods, fremsti kylfingur heims, er bestur í upphagshöggum og púttum. Brautarhöggin eru ekki að gera sig að sama skapi. Hvað skyldi þjálfari Tiger leggja áherslu á? Brautarhöggin? Nei, ekki aldeilis. Hann þjálfar upphafshöggin og púttin. Þar liggur styrkleikinn, og það er það sem þarf að leggja rækt við. Í daglega lífinu þurfum við bogey spilararnir að gera það sama, hvort heldur við erum að kljást við sveifluna á golfvellinum eða bara verkefnin sem við tökumst á hendur. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir hvar styrkleikarnir liggja, leggja rækt við þá eiginleika og hæfileika, í stað þess að einblína á veikleikana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2007 | 09:02
Hin magnaða útrás
Það lætur nærri að það séu u.þ.b. 180.000 manns á vinnumarkaði á Íslandi, það er e.t.v. réttara að segja að hér séu u.þ.b. 180.000 heilsársstörf. Það er hins vegar öllu merkilegra að íslensku útrásarfyrirtækin íslensku hafa nokkurn vegin jafn marga í vinnu hjá fyrirtkækjum sem eru í þeirra eigu á erlendri grund. Ég hygg að margir hafi ekki velt þessu fyrir sér.
Í morgun var áhugavert viðtal við framkvæmdastjóra fyrirtækisins CCP á Morgunvaktinni á Rás 1 (RÚV). Þetta fyrirtæki framleiðir og starfrækir tölvuleikinn Eve Online. Það kom fram í viðtalinu að u.þ.b. 200.000 manns eru áskrifendur að leiknum, og aðrir 50.000 eru í reynsluáskrift. Hjá fyrirtækinu sjálfu vinna u.þ.b. 250 manns, á skrifstofum í þremur heimsálfum. Þeir sem spila leikinn eru vel að merkja ekki táningar, flestir þeirra eru á þrítugsaldri. Tölvuleikir hafa þannig haslað sér völl sem afþreying til jafns við hverja aðra afþreyingu.
Um helgina stendur CCP fyrir notendamóti þeirra sem spila leikinn, í Laugardalshöllinni. Framkvæmdastjórinn greindi frá því að allt að 1.500 gestir væru væntanlegir til landsins af þessu tilefni, þar af u.þ.b. 40 blaðamenn. Sennilega er þetta næst stærsti viðburðurinn á eftir Icelandic Airvaives. Útrásarfyrirtækið CCP hefur með þessu móti ekki aðeins umfangsmikla starfsemi víða um veröld og marga viðskiptavini, heldur færir íslenskri ferðaþjónustu dýrmæta viðbót á þeim tíma ársins sem ferðamenn almennt sækja landið ekki heim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 12:51
Hægan Electra
Enn á ný stendur til að virkja með látum, að þessu sinni í náttúruperlunni og útivistarsvæðinu í Henglinum. Nokkrir kollegar mínir úr Félagi leiðsögumanna hafa opnað vefsíðu, þar sem þeir vekja athygli á þessum áformum. Það er full ástæða til að hvetja fólk til að kynna sér málið, mikilvægt er að standa vel og vandlega að ákvörðunum sem þessum svo ekki verði um óafturkræf spjöll á þessu einstaka svæði. Slóðin á vef þeirra er hér.
Um er að ræða s.k. Bitruvirkjun, sem á að rísa rétt vestan við Ölkelduháls. Það sem er sérstaklega aðfinnsluvert er að Orkuveitan lét sjálf kosta mat á umhverfisáhrifum, en fyrirtækið á augljóslega hagsmuna að gæta í þessu máli og því afar ótrúverðugt að slíkur háttur skuli hafður á.
Við leiðsögumenn sem höfum farið með erlenda ferðamenn um Hengilssvæðið vitum e.t.v. betur en margir aðrir hvers kyns náttúruperla svæðið er. Það er einstakt að komast í slíkt umhverfi einungis steinsnar frá höfuðborginni. Svæðið hentar frábærlega til útiveru, gönguferða, baða í heitum lindum o.m.fl. Það hlýtur að skipta máli að horfa einnig á þessa hlið málsins, ekki síst í ljósi þess að ferðamönnum fjölgar stöðugt og þeir sem hingað sækja eru ekki síst að leita eftir ósnortinni náttúru, einkum svæðum sem hafa sérstöðu á borð við Hengilssvæðið. Stigum varlega til jarðar í þessu máli, eins og leikritaskáldið sagði: Hægan, Electra....
![]() |
Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.10.2007 | 18:24
Hvernig er blóðþrýstingurinn?
Ég þurfti nýlega að fara til læknis út af einhverri umgangspest, sem ekki er í sjálfu sér í frásögu færandi. Eftir að hafa rætt þau mál við lækninn og þegar heimsókninni var um það bil að ljúka, spyr læknirinn mig hvort blóðþrýstingurinn hafi verið mældur nýlega. Ég sagði að það væru nú ábyggilega komin 2 ár síðan síðast, en hins vegar hefði ég alltaf verið með fínan þrýsting. Reyndar hefði hann verið svona í efri mörkum þá, enda mikið stress og álag þá um stundir.
Læknirinn tók sig til og mældi, tók síðan af sér hlustunarpípuna, og sagði: Ásgeir, þú ert með hættulega háan þrýsting, sem verður strax að bregðast við. Ég sagði við hann að þetta væri nú örugglega bara eitthvað tilfallandi, enda hefði ég verið í erilsömu álagsstarfi, þar til fyrir nokkrum mánuðum. "Svona há gildi verða ekki skýrð með stressi og álagi" sagði þá minn maður. Þrýstingur af þessu tagi (195/115) eru það sem kalla má "silent killer" ef ekkert er að gert. Þetta er ávísun á heilablóðfall. Í framhaldinu var svo skrifaður út lyfseðill, pillurnar virðast virka á tilætlaðan hátt og allt að verða eðlilegt aftur.
Ég hvet alla til að láta mæla blóðþrýstinginn reglulega. Flestöll apótek bjóða viðskiptavinum sínum upp á mælingu, svo er auðvitað fullt af vinnustöðum sem hafa trúnaðarlækni og þangað er auðvelt að sækja slíka þjónustu. Að ekki sé nú minnst á heilsugæslustöðina eða heimilislækninn. Háþrýstingur er algjörlega einkennalaus, og lítið er vitað um orsakir hans. Hann hefur ekkert endilega að gera með holdafar eða slíka þætti, heldur getur hann verið himinhár hjá hinum mestu mjónum. Ekki draga að láta mæla - það er mikilvægt að hafa þrýstinginn í lagi!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2007 | 01:12
Formannsþankar Stefnis - II
S.l. föstudagskvöld, 26. 10.2007 var á dagskrá RÚV þátturinn Útsvar, þar sem sveitarfélögin etja kappi. Að þessu sinni leiddu saman hesta sína fulltrúar Vestmannaeyja og Mosfellsbæjar. Það var að ekki að spyrja að því, sveitungar mínir Mosfellingar gerðu góða feð suður og unnu rimmuna með glæsibrag. Það var enda einvalalið frá hálfu Mosfellsbæjar, Diddú eðalsöngkona frá Túnfæti, Bjarki menningarbóndi á Hvirfli og Höskuldur prófessor og söngfélagi minn í karlakórnum Stefni.
Eftir hina frækilegu sigurför sendi formaður Stefnis Höska tölvupóst, enda þótti honum að Stefnisfélaginn hefði borið af í frammistöðu annars ágæts liðs, sem fékk 67 stig úr rimmunni við Vestmanneyinga:
Þarna var heilmikil harka
hláturinn ekkert að marka
og hvergi brást liðið
með Höskuld í miðið
með hjálp frá Diddú og Bjarka.
Hann flest veit frá A til Ö
og eitthvað þau hin þarna tvö.
Hún er alls engin blekking
þessi afburða þekking
það er flott að fá 67.
Af sinni alkunnu hógværð svaraði Höski formanni, og þótti tilhlýðilegt að leiðrétta þann misskilning að hann hefði haft eitthvað meira að gera með sigurinn en þau hin. Sagði að Bjarki hefði nú verið sá sem allt vissi - enda mikill spekingur og frægur spurningabani frá fyrri tíð. Formaðurinn lagði nú ekki meiri trú en svo á orð Höska, að hann sendi honum þennan kveðskap til baka:
Já, Bjarki er bráðskarpur fýr
og brosmilda dívan er hýr,
en þú gast þetta einn,
þú ert gáfaður sveinn.
En - það þurfa að vera þrír.
Já, góðir hálsar, það er gaman í karlakór. Og það var býsna gaman hjá okkur á bjórkvöldinu í kvöld!
Ljóð | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)