Þakkargjörðarhátiðin - hátíð fjölskyldunnar

Þakkargjörðarhátið er haldin hátíðleg í dag í Bandaríkjum Norður - Ameríku.  Það er fjórði fimmtudagur í nóvember ár hvert sem Bandaríkjamenn þakka Guði sínum að fornum sið fyrir þá uppskeru sem nýliðið sumar hefur fært þeim.  Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur í Virginíu árið 1619 og í Massachusetts árið 1621.

ThanksgivingFeast

Hátíðahöldin eru einkum þekkt fyrir að vera fjölskylduhátið, þar sem stórfjölskyldan safnast saman og gæðir sér á góðum mat.    Algengastu krásirnar á veisluborðinu er fylltur kalkúnn, sætar kartöflur, trönuberjasósa, graskersbaka og marg fleira girnilegt. 

Það er líklega mun algengara í Bandaríkjum Norður - Ameríku en annars staðar að fjölskyldurnar búi vítt og breitt í landinu.  Það hefur skapast rík hefð fyrir því í gegnum tíðina að á þessari helgi safnist fjölskyldurnar saman, sem er t.d. ekki jafn algengt á jólum.  Þessi hátið er einnig alfarið án tengingar við öll trúarbrögð, hver og einn getur þakkað sínum Guði fyrir það sem gott er, óháð því hver og hvar hann er. 

Þessi lang helgi er stærsta ferðahelgin í landinu.  Fólk flykkist milli staða á miðvikudeginum, og aftur til síns heima á sunnudeginum.  Sá er helstur munurinn á þessari helgi og okkar löngu helgi hér uppi á Fróni, að fjölskyldurnar dvelja saman, unglirnar drífa sig sem sagt ekki á útihátið með skottið fullpakkað af bjór......

Happy Thanksgiving every one!


Ryanair hefur sölu á heilsudrykk frá Tahiti um borð í vélum sínum

Ég hef áður minnst á Noni ávaxtasafann frá Tahiti hér á síðunni.  Um er að ræða safa úr samnefndum ávexti sem vex þar syðra, og hefur verið notaður í safa um aldir að því að talið er.  Safinn er talinn hafa góð áhrif m.a. á ónæmiskerfið, innihalda andoxunarefni sem eru manninum gagnleg, talinn hafa áhrif til lækkunar kólesteróls, ásamt því að hafa yfirleitt góð áhrif á mannskepnuna.

Tahiro hjá Ryanair

Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur nú tekið þá ákvörðun að selja TaHiro drykkinn "Vitalise" um borð í vélum sínum, en þessi drykkur inniheldur þennan merka safa.  Vörur þessar eru almennt ekki seldar öðru vísi en í beinni markaðsfærslu, ef frá eru talinn nokkur lífsstílskaffihús í heiminum sem rekin eru af Tahitian Noni.  Ryanair flytur u.þ.b. 55 miljónir farþega með vélum sínum árlega, svo hér verður heldur betur breyting á aðgengi fólks að þessari vöru.

Það verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða.  Samdóma álit alls megin þorra þeirra einstaklinga sem neyta Noni safans eða afurða sem innihalda hann er að neysla safans hafi góð og jákvæð áhrif á viðkomandi.  Margir finna fyrir aukinni vellíðan, betra úthaldi, betri svefn og almennt betri líðan.  Nú er bara að prófa fíneríið næst þegar þið, kæru lesendur, takið ykkur far með Ryanair.

 


Kaloríureglur fyrir jólin

Ég fæ reglulega áminningu um það hversu bjórinn inniheldur margar kaloríur.  Nú verður spennandi að sjá hvort Volcano bjórinn frá Vestmannaeyjum verði jafn kaloríuríkur eins og bjór almennt - en hann verður án efa góður!

Fékk sendar þessar áhugaverðu leiðbeiningar um kaloríur sem eru gagnlegar nú fyrir jólin, og gott að hengja á ísskápinn:

                    KALORÍUREGLUR FYRIR JÓLIN                              

  1. Maturinn sem þú borðar þegar enginn sér til hefur engar kaloríur.
  2. Þegar þú borðar með öðrum eru einungis kaloríur í matnum sem þú borðar umfram þau.
  3. Matur sem er neytt af læknisfræðilegum ástæðum (t.d. jólaglögg, heitt súkkulagði, rauðvín o.fl) inniheldur aldrei kaloríur.
  4. Því meira sem þú fitar þá sem þú umgengst daglega því grennri sýnist þú
  5. Matur (t.d. poppkorn, kartöfluflögur,hnetur, gos, súkkulaði og brjóstsykur) sem er borðaður í kvikmyndahúsi eða þegar horft er á myndband er kaloríulaus vegna þess að hann er hluti af skemmtuninni.
  6. Kökusneiðar og smákökur innihalda ekki kaloríur þar sem þær molna úr þegar bitið er í þær.
  7. Allt sem er sleikt af sleikjum, sleifum, og innan úr skálum eða sem ratar upp í þig á meðan þú eldar matinn inniheldur ekki kaloríur vegna þess að þetta er liður í matseldinni.
  8. Matur sem hefur samskonar lit hefur sama kaloríufjölda (t.d. tómatar = jarðaberjasulta,  næpur = hvítt súkkulaði)
  9. Matur sem hefur verið frystur og matur sem er frosinn (t.d. súkkulaðiís) inniheldur ekki kaloríur því kaloríur eru hitaeiningar. 

 


mbl.is Skrifað undir samning vegna fyrirhugaðar bjórframleiðslu í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil sem engin umræða um nýja loftslagsskýrslu

Á dögunum var kynnt lokaútgáfa skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu Þjóðanna.  Það er umhugsunarvert hversu lítil umræða er um þessa skýrslu og útkomu hennar.  Megin niðurstaða skýrslunnar er að hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum er staðreynd.  Það þarf því væntanlega enginn að velkjast lengur í vafa um hvert stefnir, og af hvaða völdum.

Margir eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að grípa til róttækra ráðstafana, og vísa í því sambandi til aðgerða af hálfu hins opinbera.  Það sem skiptir hins vegar öllu máli er að sýna ábyrga hegðun - allt skiptir máli.  Það er lítið á því að græða t.d. að gefa frítt í strætó ef fólk heldur áfram að keyra bílinn eftir sem áður. 

Ég fékk sendan áhugaverðan hlekk á myndband þar sem einstaklingur tekur sig til og útskýrir á einfaldan hátt hvernig mál eru vaxin, og hvaða valkostir eru stöðunni.  Hvet alla til að líta á myndbandið, og senda það áfram til vina og kunningja.  Hér er slóðin:  http://www.youtube.com/watch?v=bDsIFspVzfI

 


Frábær en annasöm helgi - nú taka ný og spennandi verkefni við

Það var fjörug helgi í MBA náminu föstudag og laugardag.  Við erum að puða við fræðin: greiningu viðfangsefna, tölfræði, markaðsfræði - og svo eins og fjögur verkefni þar fyrir utan.  Við sitjum sveitt við í fyrirlestrum tvo daga í röð, frá kl. 9 - 17.  Svo er oftar en ekki unnið í hópum í hléum.  Ekki var þetta nóg, því í morgun (já, á sunnudagsmorgni!) var auka-dæmatími í tölfræði, frá 10 - 13.  Mikið að gera - en mjög áhugavert.

Sunnudagurinn eftir hádegi var ekki slæmur, Ásgeir Bjarni afasrákur kom í heimsók og var hjá okkur þar til restin af fjölskyldunni hans ásamt langömmu komu í mat til okkar.  Notalegt í alla staði, við nafnarnir fórum í sund, skruppum í búðina og höfðum það bara ósköp notalegt saman. 

Nú hef ég ráðið mig í nýtt starf, og hefst handa á morgun.  Það er spennandi vettvangur - innan ferðaþjónustunnar.  Fullt af áhugaverðum og krefjandi verkefnum framundan - svo væntanlega þarf ekki að kvíða verkefnaskorti næstu vikur og mánuði.  "Eigum við að ræða það eitthvað - eða ?" - svo vitnað sé í fleyg orð frægrar persónu í skemmtilegum framhaldsþætti á Stöð 2.


Hugum að því sem skiptir máli

Það var einstaklega hrifnæmt að hlusta á þakkarávarp Hr. Sigurbjörns Einarssonar biskups, er hann tók við verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu.  Meitlað málfar og lipurt tungutak hefur ávallt einkennt orðræðu þessa mikla kennimanns, svo að unun er á að hlýða.  Maður leggur við hlustir þegar hann tekur til máls, hvort heldur er á prenti eða í mæltu máli.  Mikil er gæfa þessarar þjóðar að njóta samvista við þennan andlega föður okkar, sem enn í hárri elli deilir með okkur visku sinni og speki.

Umræðan undanfarnar vikur um stöðu tungumálsins og hinna meintu þarfa atvinnulífsins, þar sem menn gera því skóna að nauðsynlegt sé að taka upp ensku ýmist samhliða eða í stað íslensku leiðir hugann að varðveislu og þróun tungumálsins.  Það velkist enginn í vafa um að nauðsynlegt er að viðhafa stöðuga árvekni, svo tungan glatist okkur ekki.  Tungumálið er jú hluti af sjálfsímynd þjóðarinnar, sem hér hefur þraukað í liðlega ellefu hundruð ár.  Það er því brýnt sem aldrei fyrr að standa vörð um tunguna. 

Skólarnir og menntun ungviðisinis er lykillinn að árangri á þessu sviði.  Það er bráðnauðsynlegt að efla móðurmálskennsluna, ekki síst málvitund, tjáningu og framsögn.  Í þessu sambandi er vert að huga að þeirri staðreynd, að enn er kennd danska í grunnskólum þessa lands.  Það eru reyndar einungis örfá ár síðan danska var fyrsta erlenda málið sem skólabörn kynntust.  Danska mun hvergi kennd fyrir utan danska konungsríkið nema hér á Íslandi.  Ísland hætti að tilheyra Danmörku árið 1944.  Af hverju kennum við þá ennþá dönsku hér?  Er ekki nauðsynlegt að staldra við og nýta þá krafta sem fara í dönskukennslu og efla þess í stað móðurmálskennsluna?  Það er undantekning að hitta Íslendinga sem bjarga sér vel á dönsku.  Þeir eru auðvitað einhverjir, en flestir þeirra eiga annað hvort einstaklega gott með að læra tungumál eða hafa búið og/eða lært í Danmörku.  Flestir Danir kunna ensku.  Það er lítið mál að bjarga sér í Danmörku á ensku.  Flest allt ungt fólk á Íslandi kann ágætis ensku, sem það bæði lærir í skólanum og með öðrum hætti, t.d. á með tölvunotkun.  Fyrir þá sem vilja læra dönsku mætti hins vegar bjóða upp á það sem valkost, rétt eins og þýsku, frönsku, spænsku o.s.frv.

Góður vinur minn, Sigtryggur Jónsson, býr í New York, og hefur búið þar hátt í þrjá áratugi.  Í samtölum okkar í gegn um tíðina höfum við margsinnis rætt dönskukennsluna á Íslandi.  Það er býsna gagnlegt að hitta Íslendinga sem hafa búið lengi erlendis, og ræða við þá þjóðmálin.  Þeir hafa meiri fjarlægð á hlutina, og sjá þá oft í öðru ljósi en við hin sem hér lifum og hrærumst í daglega amstrinu.  Allt fram undir þetta hef ég varið dönskukennsluna, en nú held ég að ég gefi mig, og fallist á þau rök að það væri viturlegra að eyða dýrmætum tíma og kröftum kennara okkar í eitthvað gagnlegra og raunhæfara en dönskukennslu.  Það væri öllum greiði gerður með þvi. 


mbl.is Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fengum skutl til London

Jæja góðir hálsar, við erum sem sagt komin heim eftir vel heppnaða dvöl hjá Davíð og Ýr í Newcastle.  Flugum með easyJet frá Newcastle til London, og þaðan áfram með Iceland Express.  Drengurinn var ekkert að tvínóna við hlutina, fékk vaktaskránni breytt og var því við stjórnvölinn með foreldrana innanborðs.  Frábært flug í alla staði, og lendingin eins og best gerist!  Hér má sjá mömmu með stráknum sínum í lok ferðar.Stolt mamma

Eiríkur sonur okkar kom í heimsókn með börnin eftir við komum heim, það var ekki amalegt að hitta þau öll og fá hlýjar og notalegar móttökur.  Það felst mikil hamingja og gleði í góðum og traustum fjölskylduböndum.

Nú er skólahelgi framundan, svo það verður nóg að gera.  Þar verður fjallað um greiningu viðfangsefna og ákvarðanatöku, og markaðsfræði.  Þetta lofar allt saman mjög góðu.  Mörg verkefni í takinu - svo það verður nóg að gera.


Frábær ferð senn á enda

Í dag er síðasti dagur dvalar okkar hér í Newcastle.  Þetta hafa verið fínir dagar.  Við lögðum land undir fót í gær (þriðjudag) og ókum sem leið lá að vatnasvæði (Lake District) þeirra hér í Norður-Englandi.  Mjög fallegt og heillandi svæði, landslagið gjörólíkt sem maður sér annars staðar hér í Englandi.  Mikið um falleg stöðuvötn í djúpum dölum, sem eru umluktir af fjalllendi á alla kanta.  Við fundum þetta fína sveitahótel í Longdale, smá þorp á svæðinu.  Höfðum það notalegt þar með þeim Davíð og Ýr. 

Á þessu svæði má finnar merkar fornminjar, Hadrian´s Wall.  Veggur þessi var byggður af Hadrian konungi u.þ.b. 200 e.kr., og markaði norður landamæri heimsveldisins.  "Hér endar siðmenningin" á Hadrian að hafa sagt, enda Skotar og annar óþjóðalýður þar fyrir norðan.  Veggur þessi er í dag á heimsminjaskrá Unesco, og þykir hafa varðveist vel á köflum.

Á morgun liggur leiðin heim á ný.  Við höfum notið dvalarinnar hér í  Newcastle og erum ánægð með ferðalagið í alla staði.  Það er búið að vera gaman að prófa að aka bíl hér, nokkuð sem var ný reynsla fyrir mig.  Maður getur því með sanni sagt að maður hafi "farið öfugu megin framúr" margsinnis - og haft gaman af!

 


Leiðakerfisbreytingarnar að skila sér

Það eru ánægjulegar fréttir sem berast úr herbúðum Strætó bs í dag.  Fram kemur að farþegafjölgun er umtalsverð, og því líklegt að langvarandi þróun farþegafækkunar sé loks að snúast við.  Þrátt fyrir þetta má ekki gleyma því að tölurnar eru enn lágar, og "markaðshlutdeild" almenningssamgangna með því lægsta sem þekkist hjá sambærilegum borgum í nágrannalöndum okkar. 

Leiðakerfi Strætó bs var gjörbylt um mitt ár 2005.  Sú breyting virðist nú vera að skila sér.  Að sjálfsögðu skal ekki lítið gert úr öðrum þáttum sem örva notkunina, eins og að gefa námsmönnum frítt í strætó.  Það er hins vegar alveg ljóst, að þjónustan sem slík verður að vera ásættanleg, því ef leiðarkerfið er kolómögulegt gefast þeir líka upp á að nota strætó sem fá frítt.  Því miður hefur umræðan um strætó og almenningssamgöngur um langa hríð verið neikvæð, og stöðugt er vegið að þjónustunni.  Það er því einkar ánægjulegt að sjá þessa þróun.

Fyrir Strætó bs og eigendur byggðasamlagsins, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, er þýðingarmikið að halda áfram að efla almenningssamgöngur.  Í því sambandi skiptir öllu máli að viðhafa aðgerðir sem flýta för vagnanna, þannig að þeir sem með þeim ferðast verði fljótari í förum en þeir sem kjósa einkabílinn.  Þetta á einkum við um álagstímana.  Með því að fjölga forgangsakreinum, koma upp ljósastýrðum forgangi og auka ferðaframboðið þegar flestir eru á ferðinni munu almenningssamgöngurnar eflast, og fleiri og fleiri sjá sér hag í að nýta sér þennan valkost.  Þá skiptir ekki öllu máli hvort er frítt eða ekki, það sem skiptir allan þorra almennings máli er að fá skilvirkt og öflugt almenningssamgangnakerfi á höfuðborgarsvæðinu. 


mbl.is Farþegum í strætó fjölgar um 13,65%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það var laglegt Duna!

Guðný Halldórsdóttir leikstjóri reið ekki feitum hesti frá Eddu verðlaunahátíðinni, þrátt fyrir að mynd hennar hafi fengið flestar tilnefningarnar.  Það er umhugsunarvert, því ég tel að mynd hennar sé meðal hennar bestu mynda.  Guðný er vaxandi leikstjóri og tekst stöðugt á hendur ný og ögrandi verkefni.  Það má reyndar einnig velta fyrir sér þeirri furðulegu staðreynd, að Astrópía fékk nánast engar tilnefningar, þrátt fyrir að vera best sótta íslenska myndin í ár.  Vantar e.t.v. raunveruleikatengingu hjá Eddunni?

Guðný er vel að bjartsýnisverðlaununum komin.  Við áttum samleið um hríð á 10. áratugnum, hún var þá bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og ég embættismaður hjá sveitarfélaginu.  Einstaklega gott að vinna með henni, og það er að ég hygg á engan hallað þótt ég segi að hún er sannarlega vel að þessum verðlaunum komin. 

Til hamingju með verðlaunin Duna!


mbl.is Guðný Halldórsdóttir fékk bjartsýnisverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband