Próflok

Í dag var prófdagur í MBA náminu.  Við sátum við frá kl. 9 - 12 og tókumst á við ýmis viðfangsefni innan hagfræðinnar, bæði rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði.  Flestum þótti prófið frekar snúið, og tíminn naumur.  Það verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður.  Um næstu helgi hefjast ný námskeið, sem standa fram í janúar.  Annað er í markaðsfræði, en hitt fjallar um greiningu viðfangsefna og ákvarðanir. 

Það er mikill kraftur í hópi MBA nemenda.  Við héldum smá fund að loknu prófi, þar sem við huguðum að félagslífinu, hagsmunamálum okkar sem nemenda og ýmsu fleiru.  Það verður áhugavert að vinna með þessum hópi næstu tvo veturna, samheldnin og félagsandinn er í góðum gír.

Framundan er að taka að sér verkefni í leiðsögn, verð með sænska matvörukaupmenn í nokkra daga og fer með þá um.  Það verður fróðlegt að spjalla við þá um bransann, og hvernig kaupin gerast á eyrinni austur í Svíaríki.  Það er alltaf áhugaverðar samræður um land og þjóð við ferðamennina, þeir eru áhugasamir um margt, einkum það sem snýr að samanburði í daglega lífinu.  Ekki eru þeir síðir hrifnir af landinu og náttúrunni, og sumir hverjir eru mjög móttækilegir fyrir alls konar fróðleik.  Jarðfræðin skorast oftast hátt, en einnig ýmislegt er varðar landshagi, menningu og sögu. 

Góða helgi kæru lesendur!


Meðvitundarleysi í umhverfismálum

Nú hefur verið birt ný skýrsla á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNEP) um stöðu og horfur í umhverfismálum.  Skýrslan (GEO-4) er viðamikil, nær 600 síður, og að gerð hennar hafa komið fjölmargir vísindamenn og sérfræðingar um heim allan.  Megin niðurstaða skýrlsunnar er að u.þ.b. 60% af lífríki mannkyns séu í hættu vegna rányrkju mannsins.  Vissulega hefur margt vel verið gert, en betur má ef duga skal.  Mesta ógnin stafar af loftslagsmálum, og hvatt er til aðgerða sem draga úr loftslagsmengun og hlýnun andrúmsloftsins. 

Svo virðist sem Íslendingar séu stikk frí að stórum hluta þegar kemur að umræðunni um umhverfismál og aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda.  Umræðan einkennist oftar en ekki af vanþekkingu og litlum áhuga á þessum þýðingamiklum málaflokki.  Þá virðist einnig skorta verulega á að Íslendingar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að viðhafa ábyrga hegðun í umhverfismálum, svo sem með því að draga úr akstri einkabílsins, flokka sorp, endurvinna úrgang o.s.frv.

Margt hefur áunnist í umhverfisvernd á Íslandi.  Með skipulögðum hætti er unnið að jarðvegsfoki og landeyðingu, þótt enn sé langt í land í þeim efnum.  Metnaðarfull tilraun var gerð með rekstri vetnisstrætisvagna, sem gengu alfarið fyrir innlendum orkugjöfum.  Á sorphaugunum í Álfsnesi verður til nægjanlega mikil metangas til að knýja allan strætisvagnaflota höfuðborgarsvæðisins.  Nú þegar eru tveir vagnar á götunum sem ganga fyrir metangasi, sem hafa reynst vel. 

Íslendingar hafa náð frábærum árangri í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, bæði vatnsafli og gufuafli.  Upphitun húsa og rafmagnsnotkun er nærri 100% frá slikum orkugjöfum, hlutfall sem er einstakt í heiminum.  Um 30% af heildarorkunotkun á Íslandi er hins vegar í formi jarðefnaeldsneytis, en þar vegur þyngst rekstur bíla- og skipaflotans.  Það er verðugt verkefni að vinna að lausnum sem dregur úr notkun jarðefnaeldsneytis, það er best gert með auknum rannsóknum, metnaðarfullum tilraunum og síðast en ekki síst ábyrgari hegðun okkar allra.

 


Minnkum svifrykið í vetur - notum ónegld dekk

Nú þegar októbermánuður líður senn til enda með öllum sínum rigningardögum hillir loks undir veðrabreytingu.  Það þykir víst flestum nóg komið með alla rigninguna, og hlakka því til helgarinnar þegar veður hér á suð-vesturhornina á að batna til muna.  Það verður að vísu kaldara, en þurrt og bjart.

Svifryksmengun hefur aukist undanfarin ár í Reykjavík.  Þegar veður er stillt, þurrt og logn, spæna nagladekkin undir bílunum malbikið upp og svifryksagnirnar svífa um loftið með tilheyrandi slæmum afleiðingum.  Reykjavíkurborg hefur rekið áróður fyrir því undanfarin misseri að minnka notkun nagladekkja, enda fækkar sífellt þeim tilvikum sem þau eru nauðsynleg.  Með öflugum snjómokstri og hálkueyðingu er unnt að komast leiðar sinnar all flesta daga á ónegldum vetrardekkjum.  Flestir nýrri bílar eru þar að auki útbúnir ABS bresmum og spólvörn, sem eykur enn á akstursfærni bílanna.

Það er til tiltölulega litlum hagsmunum fórnað fyrir mikla með því að hafa vetrardekkin ónegld.  Við sem höfum ekið á ónegldum vetrardekkjum mörg undanfarin ár vitum að það er alveg jafn auðvelt fyrir okkur að komast leiðar okkar á veturna eins og alla hina sem eru með naglana í dekkjum.  Nú er bara að láta umhverfið njóta vafans, og leggja sitt af mörkum með því að sýna gott fordæmi og sleppa nöglum í dekkjum hér eftir.


Hvað gerir nýr meirihluti borgarstjórnar í málefnum almenningssamgangna?

Mörg undanfarin ár og áratugir hafa verið erfiðir tímar á vettvangi almenningssamgangna.  Málaflokkurinn á undir högg að sækja, stöðugt fjölgar einkabílum með tilheyrandi fækkun farþega, en á sama tíma þenst höfuðborgarsvæðið út sem aldrei fyrr með tilheyrandi aukningu kostnaðar.  Strætó ekur sem sagt fleiri og fleiri kílómetrar á hverju ári, með stöðugt færri og færri farþega. 

Mörg þýðingamikil skref hafa verið stigin til að efla málaflokkinn.  SVR og AV voru lögð niður árið 2001 og Strætó bs stofnað með það að markmiði að efla almenningssamgöngur.  Leiðakerfinu var gjörbylt árið 2005, og búið var til nýtt, heildstætt leiðakerfi fyrir allt höfuðborgarsvæðið.  Sitt sýndist hverjum um þá breytingu.  Eftir að D listinn komst til valda í Reykjavík í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna vorið 2006 var ákveðið að gefa stoppistöðvunum nafn og gefa stærsta hópi viðskiptavinanna frítt í strætó.  Vissulega metnaðarfull tilraun til að fjölga farþegum, en lítið hefur reyndar frést af því hvort sú tilraun hafi skilað þeim árangri sem vænst var. 

Sú þróun sem átt hefur sér stað á höfuðborgarsvæðinu er sú sama og fjölmargar borgir í nágrannalöndum okkar hafa verið að fást við undanfarin ár og áratugi.  Með aukinni velmegun eykst bílafjöldinn, og sífellt þrengist að í umferðinni.  Langflestar borgir hafa brugðist við með aðgerðum sem taka á rót vandans.  Þær felast fyrst og fremst í því að veita almenningssamgöngum forgang þannig að þeir sem ferðast með slíkum farartækjum verði fljótari í förum en hinir sem sitja einir í bílum sínum, einkum á álagstímum.  Lítið en jákvætt skref var stigið í þessa átt þegar strætó fékk sérakrein á Miklubraut til vesturs.  En betur má ef duga skal.  Það er vel þekkt í mörgum borgum að götur í miðborgum eru einungis ætlaðar almenningsvögnum, fjöldi bílastæða er takmarkaður og verðlagning þeirra með þeim hætti að fólk hugsar sig tvisvar um áður en ákveðið er að leggja þar til lengri tíma.  Þrátt fyrir að hagsmunaaðilar hafi yfirleitt sett sig upp á móti slíkum ráðstöfunum hefur hið gagnstæða komið á daginn, breytingarmar hafa nær undantekningalaust verið verslun og þjónustu í miðborganna til framdráttar.

Nú nýlega var tekinn í notkun stýribúnaðar á umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu, sem sér til þess að umferðarljósunum verði stýrt eftir því hvernig umferðarálagið er hverju sinni.  Þessi búnaður gerir einnig ráð fyrir þeim möguleika að skynja sérstaklega þegar strætisvagnar nálgast umferðarljósin, og lágmarka þannig tímann sem strætó þarf að bíða á rauðu ljósi.  Ekki hefur komið fram í fréttum hvort nýta eigi þennan möguleika þessa fullkomna búnaðar fyrir strætó.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu greiða hundruðir miljóna á ári hverju með rekstri Strætó bs., ætli það láti ekki nærri 2 miljörðum króna árlega nú um stundir.  Þessi sömu sveitarfélög hafa það í hendi sér að koma með raunhæfar lausnir sem virka.  Málið snýst um að auka forgang í umferð, fjölga ferðum á álagstímum þegar flestir eru á ferðinni, og ráðast í umfangsmikla áróðursherferð þar sem höfðað er til umhverfisþátta og almennrar skynsemi.  Miðað við það mikla fjármagn sem rennur til þessarar starfsemi á ári þurfa kjörnir fulltrúar að veita þessum málaflokki mun meiri athygli en þeir hafa gert fram að þessu, þeir þurfa fyrst og fremst að hafa frumkvæði (proactive) í stað þess að bregðast við (reactive).  Stærsti vandi almenningssamgangna er viðhorfið til þeirra.  Til að breyta viðhorfi þarf að breyta hegðun.  Með því að gera almenningssamgöngur að eftirsóknarverðum og raunhæfum valkosti er unnt að breyta hegðuninni og þar með viðhorfinu fyrr en marga grunar.

Það verður fróðlegt að fylgjast með hverjar áherslur nýja meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur verða í málefnum almenningssamgangna. 


Persónuleikapróf - magnaðar niðurstöður

Það er bæði skemmtilegt og áhugavert að stunda MBA námið, og velta fyrir sér ýmsum hliðum fræðanna.  Nú er að ljúka námskeiði sem fjallar um skipulagsheildir og stjórnun, þar sem fjallað er um stjórnun í víðum skilningi, t.d. mannauðsstjórnun, breytingastjórnun, viðskiptasiðferði, stjórnunarstíla o.m.fl.

Í síðasta tímanum var m.a. fjallað um ákvarðanatöku og atferli í fyrirtækjum.  Kennari okkar benti okkur fyrir tímann á persónuleikapróf kennt við Meyers - Brigg, og flestir í hópnum fundu prófið á netinu og tóku það sér til gamans.  Niðurstöðurnar voru síðan skoðaðar í tímanum af hópnum sameiginlega. 

Áður en að þessum tíma kom höfðu nokkrir einstaklingar í MBA hópnum lagt til að kosin yrði stjórn hópsins, nokkurs konar hagsmuna- og félagsráð nemendahópsins.  Ákveðið var að allir skyldu skrifa 3 nöfn á blað, og þeir sem efstir voru í kjörinu yrðu tilnefndir sem stjórn hópsins.  Niðurstöðurnar voru kynntar s.l. laugardag, þ.e. sama dag og fjallað var um ákvarðanatöku og atferli.  Þá kom hið merkilega í ljós, að 6 efstu einstaklingarnir í kjörinu voru allir með sömu niðurstöðu úr persónuleikaprófinu!   Tilviljun?  A.m.k. sagði kennari okkar að þessi niðurstaða kæmi sér ekki á óvart.......


Tímastjórnun - aðferð til árangurs

Fyrisögnin er fengin að láni hjá góðum vini mínum, Thomasi Möller.  Hann hefur skrifað bók um tímastjórnun, hann er einnig höfundur dagbókar Odda sem margir eiga, og inniheldur mörg góð ráð um tímastjórnun, markmiðasetningu og aðrar aðferðir til að ná árangri.  Þar að auki hefur Thomas haldið fjölmörg námskeið um tímastjórnun og stjórnun almennt. 

"Ég hef tekið eftir því að þeir sem ná árangri nýta tíma sem aðrir sóa" á Henry Ford eitt sinn að hafa sagt.  Þetta eru án efa orð að sönnu.  Herbert von Karajan sagði einhvern tíma að "þeir sem náð hafa öllum sínum markmiðum hafa sett þau of lágt".  Mannskepnan þarf stöðugt að takast á við ný verkefni, og fyrir marga er nauðsynlegt að þau séu bæði örgrandi og krefjandi.  "Fólk sem nær árangri setur sér skýr, skrifleg markmið" skrifar Brian Tracy í einni af bókum sínum.  Thomas segir í dagbókinni góðu að markmiðin þurfi að vera SMART - þ.e. Skýr, Mælanleg, Aðgerðatengd, Raunhæf og Tímasett. 

Ég hvet alla til að velta fyrir sér mikilvægi markmiðasetningar og góðrar tímastjórnunar.  Þeir sem sinna því vel eru líklegri en aðrir til að ná langt í lífinu, lifa innihaldsríku og gefandi lífi, auk þess sem þeir eru líklegri til að búa við góða heilsu og hamingju.  "Lifðu eins og þú munir deyja á morgun - lærðu eins og þú munir lifa til eilífar".  Lífið er stórkostlegt.


Sunnudagspistillinn - Noni safinn

Um ár og aldir hefur Noni ávöxturinn vaxið í hitabeltinu.  Fræðiheitið er "Morinda citrifolia".  Fyrirtækið Tahitian Noni Internatioan (www.tni.com) er leiðandi í framleiðslu Noni ávaxtasafans.  Það var stofnað árið 1996, og er með höfuðstöðvar sínar í Utah fylki í Bandaríkjum Norður-Ameríku.  Vöxtur fyrirtækisins hefur verið mjög hraður, og ekkert lát virðist vera á aukningu í umsvifum. 

Hvað er það sem gerir þennan ávöxt eftirsóttan og hvers vegna eru margir að neyta safans?  TNI stendur fyrir umfangsmiklum rannsóknum á eiginleikum safans.  Það sem m.a. hefur komið á daginn er að hann hefur góð áhrif til lækkunar kólesteróls, styrkir ónæmiskerfið, eykur orku og líkamlegt atgervi og inniheldur s.k. andoxunarefni (bráavarnarefni, e:antioxidants).  Margir einstaklingar sem neyta safans reglulega finna fyrir jákvæðum áhrifum, svo sem bættu úthaldi, aukinni vellíðan almennt, fá sjaldnar umgangspestir og fleira í þeim dúr.

Framleiðsluvörur TNI eru einungis seldar í beinni markaðsfærslu, maður á mann.  TNI starfrækir reyndar "Life Style Cafées" á nokkrum stöðum í heiminum, þar sem hægt er að fá mat og drykk sem innilheldur afurðir unnar úr þessum magnaða ávexti.  Með því að fara inn á heimasíðu TNI kemst maður í samband við dreifingaraðilana hér á Íslandi, sem sjá síðan um framhaldið, hvort heldur sem viðkomandi vill kaupa safann og/eða gerast dreifingaraðili. 


Formannsþankar Stefnis

Eitt af áhugamálum mínum er kórsöngur.  Ég hef verið félagi í Karlakórnum Stefni til margra ára, þar fær maður að kljást við raddaðan söng og vera um leið í góðum félagsskap.  Eins og gengur og gerist með mörg félagasamtök er sífellt verið að brydda upp á nýjungum varðandi fjáröflun, og gengur misvel. 

Nýlega bauðst okkur Stefnismönnum að mæta á áhorfendapallana í skemmtiþætti Sjónvarpsins nokkur laugardagskvöld í röð, gegn því að fá nokkrar krónur á haus fyrir hvern sem mætti.  Málið var borið undir félagsmenn, fyrst í tölvupósti og síðan á kóræfingu, en fékk dræmar undirtektir. 

Formaður okkar sem jafnframt er hagyrðingur ágætur samdi af þessu tilefni og sendi okkur í tölvupósti í kvöld:

Upp hefur komið sá kvittur

að hver og einn Stefnistittur

afþakki teiti

í Efstaleiti

þótt bjóðist þeim bjór og snittur


Fyrsti áfangi MBA námsins senn í höfn

Nú um helgina eru síðustu kennsludagar í fyrstu tveimur námskeiðunum í MBA náminu sem ég nú legg stund á við HÍ.  Það eru auðvitað mikil viðbrigði fyrir einstakling kominn á sextugsaldurinn að setjast að nýju á skólabekk - en jafnframt áhugavert.  Hópurinn er frábær, fólk úr ýmsum áttum og með fjölbreyttan bakgrunn.  Kennararnir eru góðir, og námsefnið áhugavert.  Hópavinna er mikil, og hópurinn sem ég tilheyri nú á fyrsta námskeiðinu er einstaklega samhentur og skemmtilegur. 

Einn af hópfélögum mínum er hinn geðþekki Birkir Jón Jónsson, alþingismaður þeirra Framsóknarmanna og Siglfirðingur.  Það er vert að benda á færslu hans í dag, þar sem hann greinir frá öllum þeim fjölda vinnustunda sem liggja að baki hárri þjóðarframleiðslu okkar Íslendinga.  Þetta málefni var til umfjöllunar hjá Gylfa Magnússyni í dag þegar fjallað var um þjóðhagfræði.  Íslendingar eru aftarlega á merinni þegar kemur að framlegð, því að baki hárri þjóðarframleiðslu á mann liggur m.a. mikill fjöldi vinnustunda, mikil atvinnuþátttaka og langur starfsaldur Það þarf með öðrum orðum að hafa mikið fyrir hagsældinni.  Færslu Birkis má sjá hér.   

Framundan er að lesa skruddurnar, taka tvö próf, hið síðara fyrsta vetrardag.  Það verður fróðlegt að sjá hver útkoman úr því verður.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband