Færsluflokkur: Bloggar

Törnin búin í bili - nú þarf að kljást við ný viðfangsefni

Það er ekki laust við að manni finnist það erfitt að vera í námi á gamals aldri. Undanfarin dægur hafa einkennst af miklum önnum tengdum námi, ekki síst vegna skila á stóru verkefni sem við unnum saman í hóp nokkur saman. Þar að auki var kennsla s.l. föstudag og laugardag og síðan tók við 3ja daga heimapróf sem lauk nú í kvöld. Ég viðurkenni fúslega að svona tarnir taka í, en á hinn bóginn eru verkefnin og viðfangsefnin áhugaverð og hópfélagarnir frábærir í alla staði. Það er með ólíkindum hversu miklu er hægt að koma í verk á stuttum tíma þegar ekkert annað er í boði en að klára verkefnin áður en fresturinn er úti.

Næst á dagskrá er að koma sér í jólaskapið, kaupa "jólagjöfina" sem reyndar er alltaf sami hausverkurinn ár eftir ár. Þeir sem luma á góðri hugmynd um gjöf fyrir umburðarlynda, þolinmóða, elskulega og blíða eiginkonu mega gjarnan láta ljós sitt skína - allar hugmyndir eru vel þegnar. 

Rigningatíðin undanfarið hefur tekið á taugarnar hér í húsi, vatn er að finna sér leið í gegnum leyndar sprungur með tilheyrandi óþægindum. Það væri nú óskandi að það færi að kólna, kæmi jafnvel smá vetrarstillur með snjóföl, stjörnuskini, norðurljósum og jólastemmingu. Að ekki sé nú minnst á birtuna sem því fylgir.


Þrautsegja og frumkvöðlastarf

Ef einhver hefur staðið sig vel í baráttu fyrir málefnum mænuskaðaðra er það Auður Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur.  Allt frá því dóttir hennar lenti í alvarlegu umferðarslysi fyrir all mörgum árum hefur hún verið óþreytandi í að vekja athygli heilbrigðisyfirvalda á málaflokknum og framgangi hans.  Hún stóð fyrir ráðstefnu um mænuskaða hér á landi, þar sem margir færir sérfræðingar komu saman og greindu frá rannsóknum og þróun á sviði meðhöndlunar mænuskaddaðra.  Þá stóð hún á sínum tíma fyrir gerð upplýsingabanka um mænuskaða, sem er opinn öllum á netinu.  Hún stóð einnig á sínum tíma fyrir komu kínversks sérfræðings í mænuskaða hingað til lands fyrir nokkrum árum. 

Vonandi er þessi stofnun komin til að vera.  Vonandi leiðir starfsemin til þess að mænuskaddaðir öðlist von um bata, eða a.m.k. bætt lífsgæði.  Það er til mikils að vinna.  Ég dáist að þrautsegju og dugnaði Auðar, og óska henni og dóttur hennar til hamingju með þennan þýðingamikla áfanga.

 


mbl.is Mænuskaðastofnun stofnuð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarfi og falskt öryggi

Það er merkilegt að enn skuli tæplega 40% bifreiða í Reykjavík vera á nagladekkjum.  Það er nokkuð ljóst að þörf á negldum börðum er lítil, því flest okkar erum lítið á ferðinni fyrir utan borgina yfir vetrarmánuðina.  Nú fást orðið mjög góðir vetrarhjólbarðar sem hafa t.d. loftbólur í, auk þess sem mynstur þeirra er það gott að þeir skila mjög góðu veggripi.  Þar við bætist að flestir nýlegir bílar hafa bæði spólvörn og ABS hemla, slíkur búnaður gagnast einmitt vel þegar hált er.  Þá má ekki gleyma því að þjónustustig sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar er hátt, sem þýðir að um leið og það verður hált á götum og vegum er búið að salta og ryðja eftir því sem þörfin krefur. 

Ekki skal gert lítið úr því að mikið hefur áunnist, margir hafa séð að það gengur prýðilega að komast leiðar sinnar á ónegldum vetrarhjólbörðum.  Ekki má gleyma því að nagladekkin eru aðal mengunarvaldurinn þegar svifrykið er annars vegar, og því til mikils að vinna að sleppa negldum hjólbörðum.  Það er einungis í örfáaum tilvikum sem naglarnir koma að notum, en einnig eru þau tilvik þar sem þeir eru beinlínis verri kostur en ónegldir hjólbarðar.

 Sem sagt:  sýnum nú ábyrga hegðun, slaufum nöglunum og stuðlum að betra umhverfi. 


mbl.is 38% bifreiða á negldum hjólbörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slökkt á friðarsúlunni

Nú er síðasti dagur þess tímabils sem ljósið á friðarsúlunni í Viðey logar þetta árið.  Framtak Yoko Ono er merkilegt, enda hefur það hlotið athygli víða um heim.  Það er gaman að skoða allar fallegu ljósmyndirnar sem teknar hafa verið, og ekki er ólíklegt að margar fleiri eigi eftir að bætast við í kvöld nú þegar aðstæðurnar eru eins og best verður á kosið.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta framtak á eftir að nýtast í markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands utan háannatímans.  Erlendir ferðamenn koma hingað nú orðið talsvert utan hins hefðbundna ferðamannatíma, m.a. til að njóta norðurljósanna, fylgjast með flugeldum um áramót, þeysast um á snjósleðum, ferðast á breyttum jeppum, skreppa í Bláa lónið o.s.frv.  Möguleikarnir eru margir og fjölbreyttir, og um að gera að nýta betur þá fjárfestingu sem ráðist hefur verið í til að anna eftirspurninni á sumrin. 

imaginepeacetower


mbl.is Slökkt á ljósasúlunni í Viðey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr forstjóri með kaupmannsblóð í æðum

Nýr forstjóri FL Group á ekki langt að sækja viðskiptavitið.  Afi hans og alnafni var þekktur matvörukaupmaður í Reykjavík, fyrst í Vesturbænum og síðar í Breiðholti.  Hann rak um árabil verslunina Straumnes, og var ævinlega kenndur við þá búð.  Jón í Straumnesi var frábær maður, Frammari fram í fingurgóma og kaupmaður af Guðs náð. 

Nafni hans sem nú tekur við stjórnartaumunum hjá FL Group og verður fostjóri félagsins er ungur að árum, fæddur 1978.  Hann er því ekki nema 29 ára gamall, sem hlýtur að teljast ungur aldur þegar um er að ræða svo umfangsmikil og vandasöm verkefni eins og að stýra FL Group.  Hann hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2005, svo væntanlega eru þeir sem ráða hann til starfans ekki í nokkrum vafa um hæfileika hans og getu.  Frábær árangur hjá þessum unga manni.


mbl.is Forstjóraskipti hjá FL Group
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar annir - lítið bloggað

Þegar ég afréð að byrja bloggið hér ákvað ég með sjálfum mér að miða við eina færslu á dag alla jafna.  Þau göfugu áform hafa nú heldur betur hrunið undanfarna daga, enda miklar annir hér á bæ. 

Þessa dagana er verið að koma sér inn í nýtt starf, sem reyndar gengur alveg prýðilega.  Þar að auki er það alveg þrælskemmtilegt og áhugavert.  Við í deildinni minni förum út úr bænum á fimmtudag og höfum vinnudag, þá gefst tækifæri fyrir mig til að kynnast öllu þessa frábæra samstarfsfólki betur, um leið og við hristum hópinn saman og stillum strengina fyrir glæsta sigra á nýju ári. 

Um helgina var kennsluhelgi í MBA náminu, allur föstudagurinn og laugardagurinn, svo dæmatími í tölfræði á sunnudaginn.  Mikið um verkefnavinnu einnig, þannig að nú eru flestar stundir dagsins vel nýttar.  Skólatörninni lýkur með kennsluhelgi 14. og 15. desember, auk þess sem þá er stóru verkefni gerð skil og í kjölfarið tekur svo við próf.  Maður hlýtur að verða uppfullur af visku eftir þetta allt saman . . . .  verður spennandi að sjá hvort þetta tolli nú allt í heilabúinu! 


Þýðingamikið skref stigið í átt að vetnissamfélaginu

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með þróun vetnisverkefnis Íslenskrar Nýorku allt frá því þessi ágæta vetnisstöð var vígð og þrír vetnisstrætisvagnar voru teknir í notkun.  Þeir voru í rekstri í hartnær þrjú ár, og hlaut það verðskuldaða athygli víða um heim.  Það kom ótrúlegur fjöldi erlendra gesta á ári hverju í heimsókn hingað til lands, einungis vegna þessa verkefnis.  Þrátt fyrir að það verkefni hafi verið starfrækt í 10 öðrum borgum, má telja að sú athygli sem þessar borgir fengu samanlagt hafi ekki verið jafnmikil og sú sem íslenska verkefnið hlaut.  Það er ekki síst sú staðreynd að orkan sem notuð er til að framleiða vetnið er framleidd úr vistvænum, endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsorku og jarðvarmaorku.  Það skiptir öllu máli.

Jón Björn Skúlason framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku er algjör kraftaverkamaður.  Hann hefur stýrt fyrirtkæinu frá upphafi, og án elju hans og dugnaðar við að koma þessu verkefni á framfæri, sannfæra stjórnvöld, aðstandendur verkefnisins, Evrópusambandið og fleiri aðila, hefði þetta magnaða verkefni aldrei náð eins langt og raun ber vitni.  Það að nú skuli vera hingað kominn fólksbílafloti sem gengur fyrir vetni er enn eitt kraftaverkið og rós í hnappagat Íslenskrar Nýorku.  Það verður einkar fróðlegt að fylgast með þessu næstu mánuðina, það kæmi mér ekki á óvarrt að áður en varir verði komnir margir tugir vetnisbíla á göturnar hér.  ´

Rannsóknar- og þróunarstarf á vettvangi vetnis og nýtingu þess er mikið.  Mikill árangur hefur náðst á þessu sviði, enda miklar tæknilegar framfarir t.d. í smíði farartækja sem geta nýtt vetni sem orkubera.  Geymsla vetnisins hefur fram til þessa verið aðal þröskuldurinn á notkun þess, þannig að farartækin hafa þurft stóra tanka fyrir vetnið, en þrátt fyrir það ekki komist langt á hverjum tank.  Þeir bílar sem nú hafa verið fluttir inn eru s.k. tvinnbílar, þannig að þeir geta nýtt hefðbundna orkugjafa samhliða vetninu.  Ég tek undir það með félaga mínum Kjartani leiðsögumanni að erlendir ferðamenn eru mjög áhugasamir um þessi mál, og spyrja gjarnan um þennan málaflokk þegar ekið er fram hjá vetnisstöð Skeljungs og Shell Hydrogen á Vesturlandsveginum.


mbl.is Iðnaðarráðherra vígði vetnisstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kallinn var magnaður

Það hljóp þvílíkt á snærið hjá mér í kvöld.  Thomas vinur minn hringdi og sagðist eiga tvo miða á Kim Larsen - svo honum var snarlega boðið í mat og síðan drifum við okkur félagarnir.  Þvílíkt gæða rokk sem sá gamla töfraði fram - hann er í fanta formi.  Einungis 3 í hljómsveitinni fyrir utan hann sjálfan, algjör eðal grúppa.  Bassaleikari, trommari og einn sá magnaðasti gítarleikari sem maður hefur lengi heyrt í.  Pottþéttur og öflugur þrusu taktur.  Kallinn reitti af sér brandarana, sagði m.a. að það mættu allir horfa á argasta klám á internetinu, jafnt börn sem fullorðnir, það mættu allir keyra eins og þeir vildu á bílunum sínum og úða eins miklu af koltvísýringi út í andrúmsloftið eins og menn gætu, en það mætti hins vegar ekki kveikja sér í sígarettu í Reykjavík!  Það var mjög góð stemming á tónleikunum, og gaman að sjá hversu fólk lifði sig inn í mörg laganna, greinilegt að margir kunnu þau utan að.  Magnað að upplifa svona tónleika, þar sem höfuðpaurinn er að ég held kominn vel á sjötugsaldurinn.  Hreint út sagt alveg frábært kvöld.
mbl.is Kim Larsen hélt uppi fjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkargjörðarhátiðin - hátíð fjölskyldunnar

Þakkargjörðarhátið er haldin hátíðleg í dag í Bandaríkjum Norður - Ameríku.  Það er fjórði fimmtudagur í nóvember ár hvert sem Bandaríkjamenn þakka Guði sínum að fornum sið fyrir þá uppskeru sem nýliðið sumar hefur fært þeim.  Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur í Virginíu árið 1619 og í Massachusetts árið 1621.

ThanksgivingFeast

Hátíðahöldin eru einkum þekkt fyrir að vera fjölskylduhátið, þar sem stórfjölskyldan safnast saman og gæðir sér á góðum mat.    Algengastu krásirnar á veisluborðinu er fylltur kalkúnn, sætar kartöflur, trönuberjasósa, graskersbaka og marg fleira girnilegt. 

Það er líklega mun algengara í Bandaríkjum Norður - Ameríku en annars staðar að fjölskyldurnar búi vítt og breitt í landinu.  Það hefur skapast rík hefð fyrir því í gegnum tíðina að á þessari helgi safnist fjölskyldurnar saman, sem er t.d. ekki jafn algengt á jólum.  Þessi hátið er einnig alfarið án tengingar við öll trúarbrögð, hver og einn getur þakkað sínum Guði fyrir það sem gott er, óháð því hver og hvar hann er. 

Þessi lang helgi er stærsta ferðahelgin í landinu.  Fólk flykkist milli staða á miðvikudeginum, og aftur til síns heima á sunnudeginum.  Sá er helstur munurinn á þessari helgi og okkar löngu helgi hér uppi á Fróni, að fjölskyldurnar dvelja saman, unglirnar drífa sig sem sagt ekki á útihátið með skottið fullpakkað af bjór......

Happy Thanksgiving every one!


Ryanair hefur sölu á heilsudrykk frá Tahiti um borð í vélum sínum

Ég hef áður minnst á Noni ávaxtasafann frá Tahiti hér á síðunni.  Um er að ræða safa úr samnefndum ávexti sem vex þar syðra, og hefur verið notaður í safa um aldir að því að talið er.  Safinn er talinn hafa góð áhrif m.a. á ónæmiskerfið, innihalda andoxunarefni sem eru manninum gagnleg, talinn hafa áhrif til lækkunar kólesteróls, ásamt því að hafa yfirleitt góð áhrif á mannskepnuna.

Tahiro hjá Ryanair

Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur nú tekið þá ákvörðun að selja TaHiro drykkinn "Vitalise" um borð í vélum sínum, en þessi drykkur inniheldur þennan merka safa.  Vörur þessar eru almennt ekki seldar öðru vísi en í beinni markaðsfærslu, ef frá eru talinn nokkur lífsstílskaffihús í heiminum sem rekin eru af Tahitian Noni.  Ryanair flytur u.þ.b. 55 miljónir farþega með vélum sínum árlega, svo hér verður heldur betur breyting á aðgengi fólks að þessari vöru.

Það verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða.  Samdóma álit alls megin þorra þeirra einstaklinga sem neyta Noni safans eða afurða sem innihalda hann er að neysla safans hafi góð og jákvæð áhrif á viðkomandi.  Margir finna fyrir aukinni vellíðan, betra úthaldi, betri svefn og almennt betri líðan.  Nú er bara að prófa fíneríið næst þegar þið, kæru lesendur, takið ykkur far með Ryanair.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband