Færsluflokkur: Bloggar

Brotið gegn valdstjórninni

Stundum les maður í fréttum að einhver hafi verið dæmdur til refsingar fyrir brot gegn valdstjórninni. Nú hefur valdstjórnin greinilega brotið gegn góðri stjórnsýslu, svo ekki sé meira sagt. Hvað gerist þá? Hvaða refsing liggur við slíku broti? Hver axlar ábyrgðina? Og hvernig?
mbl.is Annmarkar á skipun dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega hátið

Það er eiginlega ekkert sem jafnast á við hefðirnar í kringum jólin - jafnvel þótt maður sé lítið fyrir jólastússið sem slíkt. Jólaboð fjölskyldunnar á jóladag minnir mann á hversu mikilvægt það er að viðhalda fjölskyldatengslunum, ekki síst fyrir unga fólkið. Að ekki sé nú minnst á gömlu góðu réttina sem voru á borðum hér áður fyrr er þeir sem nú eru gengnir höfðu sem sitt aðalsmerki. Síldarsallöt, laufabrauð, lax, hangiket og hvaðeina.

 Gleðileg jól!


Vetrarsólhvörf

Í dag er stysti dagur ársins og skemmstur sólargangur. Vetrarsólhvörf. Klukkan nákvæmlega 12:04 er snúningspunkturinn, eftir það tekur daginn að lengja að nýju. Það heldur áfram alveg þar til kemur að sumarsólstöðum í júní. Sólarupprás í dag er kl. 11:21 og sólarlag kl. 15:31. Rétt rúmir 4 tímar eingöngu. Svo tekur daginn að lengja, sumir segja um hænufet á dag.

Nú er vonandi allt uppávið, ekki bara sólin heldur einnig vonin og bjartsýnin. Ekki veitir af hjá hrjáðri þjóð í klípu.

 


Peningamarkaðssjóðir

Í dag birtist frétt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins þess efnis að þar á bæ hefði nú verið lagt til að peningamarkaðssjóðum rekstrarfélaga viðskiptabankanna verði slitið. Lausafé sjóðanna verði greitt sjóðsfélögum inn á innlánsreikninga þeirra og síðan mánaðarlega eftir því sem eignir þeirra fáist greiddar.

Viðskiptaráðherra sá ástæðu til að lýsa því yfir á dögunum á einum af blaðamannafundunum sem haldnir voru í Iðnó að stjórnvöld væru með til skoðunar möguleika á því að þeir fjölmörgu landsmenn sem eiga innstæður í þessum sjóðum fái þær bættar eins og um hefðbundnar bankainnstæður væri að ræða. Það er því von að margir bíði spenntir eftir þeirri niðurstöðu.

Peningamarkaðssjóðirnir standa misjafnlega að vígi varðandi eign á handbæru fé. Það er því viðbúið að óbreyttu að tap þeirra sem lögðu fé sitt í þessa sjóði fái mismikið þegar upp verður staðið.

Það er dapurlegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla um þetta mál í dag. Flestir taka fréttina beint upp af vef Fjármálaeftirlitsins og láta þar við sitja. Enginn þeirra fylgir fréttinni eftir og vinnur hana frekar (nema RÚV í sjónvarpsfréttunum lítillega). Eftir sitja því allir enn í óvissunni um hvort féð og þá hversu mikið af því er glatað. 

Hvernig væri nú ef fjölmiðlar tækju sig aðeins á og sinntu hlutverki sínu, þ.e. að kafa ofan í málin og leita svara við áleitnum spurningum??? 


mbl.is FME vill að peningamarkaðssjóðum verði slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hangir stjórnin á bláþræði?

Nokkrar áhugaverðar staðreyndir blasa við:

  • Varaformaður Samfylkingarinnar setur inn blogg með þessari frétt og hvetur sem fyrr til þess að hugað verði að upptöku evru og aðild að Evrópusambandinu.
  • Formaður Samfylkingarinnar skrifaði merka grein í Moggann á dögunum þar sem hún hvatti til að gengið yrði til samninga við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og í framhaldinu hugað að aðildarviðræðum ESB og upptöku evru.
  • Varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði grein í Fréttablaðið á dögunum og sagði allar forsendur gjörbreyttar varðandi aðildarviðræður og upptöku evru.
  • Formaður Samfylkingarinnar sagði í viðtali á RÚV í kvöld að yfirstjórn Seðlabankans ættu að gefa forsætisráðherra nauðsynlegt svigrúm með því að bjóðast til að segja af sér.
  • Varaformaður Samfylkingarinnar lýsti þeirri skoðun sinni á dögunum að bankastjórar Seðlabankans ættu að segja af sér.
  • Ráðherrar í ríkisstjórninni lýsa margir yfir þeirri skoðun sinni að vaxtalækkun sé bráðnauðsynleg hið allra fyrsta.
  • Í viðtali við breskan hagfræðing á RÚV í kvöld kom fram að váleg staða í efnahagsmálum hefði verið kynnt m.a. fyrir fulltrúum ríkisstjórnarinnar fyrr á árinu þar sem varað var við þeirri þróun sem nú er komin á daginn. Ekki mátti birta niðurstöðurnar.

Orðspor lands og þjóðar á í vök að verjast á alþjóðavettvangi. Við slíkar aðstæður er traust og sterk stjórn mikilvægt grundvallaratriði. Framangreind upptalning bendir til að víða hrikti í stoðum stjórnarsamstarfsins og dagar hennar séu senn taldir.


mbl.is Fogh Rasmussen: Ókostur að vera ekki í myntbandalaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytinga er þörf

Það var athyglisvert að hlusta á viðtalið við Ragnar í Silfrinu í dag. Hef einnig heyrt fyrri viðtöl við hann, sem og lesið nokkrar af greinum hans í Mogganum undanfarið. Fyrsta starfið sem ég fékk eftir að hafa lokið námi var í Hagdeild Iðnaðarbankans sáluga, undir stjórn Ragnars. Hann er bankamaður af gamla skólanum og fagmaður fram í fingurgóma.

Í gær sagði Jón Ormur Halldórsson í viðtali við Hjálmar Sveinsson í Krossgötum að birtingarform spillingar á Íslandi væri pólitískar skipanir seðlabankastjóra. Það veiki trúverðugleika Seðlabankans að þar skuli ávallt vera í forsvari menn sem áður voru í landsmálaforystunni í stjórnmálunum. Það hefur að sjálfsögðu ekkert að gera með persónur þeirra manna sem þessi embætti skipa eða hafa skipað.

Framundan er þýðingarmikið uppbyggingartímabil í peningamálum og efnahagsstjórn landsins. Það er löngu tímabært að hefja yfirstjórn Seðlabankans yfir allan vafa og skipa í þá forystusveit hæfa einstaklinga með þar til bæra þekkingu og reynslu. Ragnar er á besta aldri, er ekki í föstu starfi að því best er vitað og hefur svo ekki er um villst sýnt það með skrifum sýnum og í viðtölum að full ástæða er til að fara að ráðum hans. Besti leikurinn í stöðunni er því að fá Ragnar til að taka að sér starf Seðlabankastjóra.


mbl.is Ragnar: Ríkið stendur ekki undir skuldbindingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næturvaktin

Það er nóg að gera hjá Fjármálaeftirlitinu þessa dagana - eða öllu heldur næturnar. Nú er Kaupþing kominn undir þeirra verndarvæng, síðastur stóru bankanna þriggja. Það er áhugaverð staðreynd að ekkert heyrist af gangi sparisjóðanna - eitthvað voru þeir líka að fást við erlendar fjárfestingar, en sennilega allt innan velsæmismarkanna og í góðu samhengi við umfang þjóðarbúsins.

Það var áhugavert að hlusta á Gylfa Magnússon í kvöld, bæði í Speglinum í RÚV og í Kastljósinu. Fram til þessa hefur Gylfi reynst nokkuð sannspár um þróunina, nú spáir hann því að einungis muni taka nokkra daga þar til ró kemst á markaði og eðlileg viðskipti geti hafist að nýju, m.a. milliríkjaviðskipti og gjaldeyrisviðskipti. Það má líka rifja það upp að hann kom einna fyrstur manna fram með þá skoðun að yfirstjórn Seðlabankans bæri að víkja, enda mikilvægt að fá hæfa og faglega aðila þar að borðinu. Í ljósi yfirlýsinga viðskiptaráðherrans og afsagnar fulltrúa Samfylkingarinnar úr bankaráði Seðlabankans verður fróðlegt að sjá hver næstu skref verða, bæði á vettvangi bankans en þó ekki síður á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Það skyldi þó aldrei vera svo að fleiri verk af ýmsum toga verði unnin næstu næturnar?


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nagandi óvissa

Nú hafa ný lög verið afgreidd á Alþingi og framundan hefst nýr kafli í efnahagslífi þjóðarinnar. Almenningur veit á þessu stigi lítið sem ekkert um hvaða þetta hefur í för með sér. Algjör óvissa ríkir fyrir fjölskyldurnar í landinu, hvort heldur um er að ræða þá sem tekið hafa lán til að fjármagna kaup á bílum og íbúðum eða þá sem eiga sparifé í bönkunum.

Það er staðreynd að um langt skeið hefur hið hefðbundna innlánsform bankanna ekki verið raunhæfur kostur, því hafa margir kosið að ávaxta fé sitt með öðrum hætti. Allir bankarnir hafa t.d. boðið upp á s.k. peningamarkaðssjóði sem gefið hafa mun betri ávöxtun en hefðbundnir innlánsreikningar. Nú er þessi sparnaður háður óvissu, því innlánstrygging stjórnvalda nær ekki til þessa forms. Það er algjörlega háð gengi bréfanna í þessum sjóðum hversu verðmæt inneignin er. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þegar bankarnir opna á morgun hver þróunin verður með þessa sjóði. 

Það er mörgum spurningum ósvarað eftir daginn, atriðum sem hafa verið í umræðunni undanfarna daga. Virtir hagfræðiprófessorar hafa undanfarið lýst þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að skipta um forystu í Seðlabankanum, rætt hefur verið um upptöku Evru og sitt sýnist hverjum um ágæti krónunnar. Þessar spurningar hljóta að verða áleitnar á næstu dögum, svo ekki sé meira sagt. Forsætisráðherran talar um að gengi krónunnar sé óeðlilega lágt, það sé langt frá því sem kalla megi eðlilegt jafnvægisgengi. Það skyldi þó ekki vera að gengi endurspegli tiltrú markaðarins á stjórn efnahags- og peningamála? Vonandi auðnast þjóðinni að komast út úr þessum hremmingum, sem þó nánast enginn veit hverjar verða. Það læðist að manni sá grunur að stóri skellurinn eigi enn eftir að koma á daginn – hvenær sem það nú gerist og hver sem hann verður. Þá er mikilvægt að þjóðin treysti ráðamönnum sínum og stjórnvöldum, ekki síst yfirstjórn peningamálanna.

 


mbl.is Ný lög um fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blogglok

Nú hyggst ég láta staðar numið og hætta bloggi í bili a.m.k. Aldrei að vita hvenær það verður svo opnað aftur.....

 kveðja


Strákurinn að standa sig

Gaman að vel skuli ganga hjá easyJet, enda minn maður að leggja sitt lóð á vogaskálarnar þar. Að hans sögn ríkir góður andi meðal starfsmanna félagsins og liðsheildin sterk.


mbl.is Farþegum easyJet fjölgar um 15,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband