Nagandi óvissa

Nú hafa ný lög verið afgreidd á Alþingi og framundan hefst nýr kafli í efnahagslífi þjóðarinnar. Almenningur veit á þessu stigi lítið sem ekkert um hvaða þetta hefur í för með sér. Algjör óvissa ríkir fyrir fjölskyldurnar í landinu, hvort heldur um er að ræða þá sem tekið hafa lán til að fjármagna kaup á bílum og íbúðum eða þá sem eiga sparifé í bönkunum.

Það er staðreynd að um langt skeið hefur hið hefðbundna innlánsform bankanna ekki verið raunhæfur kostur, því hafa margir kosið að ávaxta fé sitt með öðrum hætti. Allir bankarnir hafa t.d. boðið upp á s.k. peningamarkaðssjóði sem gefið hafa mun betri ávöxtun en hefðbundnir innlánsreikningar. Nú er þessi sparnaður háður óvissu, því innlánstrygging stjórnvalda nær ekki til þessa forms. Það er algjörlega háð gengi bréfanna í þessum sjóðum hversu verðmæt inneignin er. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þegar bankarnir opna á morgun hver þróunin verður með þessa sjóði. 

Það er mörgum spurningum ósvarað eftir daginn, atriðum sem hafa verið í umræðunni undanfarna daga. Virtir hagfræðiprófessorar hafa undanfarið lýst þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að skipta um forystu í Seðlabankanum, rætt hefur verið um upptöku Evru og sitt sýnist hverjum um ágæti krónunnar. Þessar spurningar hljóta að verða áleitnar á næstu dögum, svo ekki sé meira sagt. Forsætisráðherran talar um að gengi krónunnar sé óeðlilega lágt, það sé langt frá því sem kalla megi eðlilegt jafnvægisgengi. Það skyldi þó ekki vera að gengi endurspegli tiltrú markaðarins á stjórn efnahags- og peningamála? Vonandi auðnast þjóðinni að komast út úr þessum hremmingum, sem þó nánast enginn veit hverjar verða. Það læðist að manni sá grunur að stóri skellurinn eigi enn eftir að koma á daginn – hvenær sem það nú gerist og hver sem hann verður. Þá er mikilvægt að þjóðin treysti ráðamönnum sínum og stjórnvöldum, ekki síst yfirstjórn peningamálanna.

 


mbl.is Ný lög um fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband