Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
29.4.2008 | 21:37
Áfram mjakast þetta allt saman - sól á Sólvangi
Það er ennþá nóg að gera á vettvangi MBA námsins þótt langt sé liðið á vorið. Nú er síðast áfanginn á þessari önn hafnn, honum lýkur ekki fyrr en 7. júní n.k. Þá kemur langþráð sumarhvíld í næstum því þrjá mánuði. Nú er verið að kljást annars vegar við fjármál fyrirtækja og hins vegar mannauðsstjórnun. Ólíkar greinar en báðar áhugaverðar. Ekki spillir fyrir að kennararnir eru góðir - menn sem kunna sitt fag og einnig þá list að miðla þekkingunni.
Það var mikill léttir að ljúka tveimur síðustu námskeiðum, reikningshaldi og rekstrarstjórnun. Hvorutveggja nokkuð strembnar greinar sem kröfðust mikils vinnuframlags. Það var því ljúft að uppskera þokkalegar einkunnir úr þeim báðum.
Svo er það ein góð og notaleg frétt úr vinahópnum: Hún Berta Sóley er komin heim til sín á Sólvang. Henni lá einhver ósköp á í heiminn, hún og tvíburasystir hennar fæddust á Valentínusardaginn, þ. 14. febrúar s.l., eftir tæpa 28 vikna meðgöngu. Hún var ekki nema 1000 g litla skinnið, og þurfi því bæði á vaxtarækt og ljósabekk að halda á vökudeildinni. Hún er nú orðin 2600 g og dafnar vel. Það er á stefnuskránni að heimsækja hana og nýbakaða foreldrana fljótlega. Tvíburasystir Bertu Sóleyjar, Elsa Björt, lifði ekki nema 6 daga. Það er mikið og ögrandi verkefni fyrir ungt fólkt að takast samtímis á við gleði og sorg, það er ekki einfalt hlutskipti. Við dáumst að ungu foreldrunum fyrir æðruleysi þeirra, og óskum fjölskyldunni alls hins besta í framtíðinni.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.4.2008 | 23:30
Kraftaverkin gerast enn
Sem betur fer berast jákvæð og góð tíðindi, mitt í öllu fréttaflóðinu af versnandi efnahag, slysförum, aukinni verðbólgu og hækkun stýrivaxta. Ég skrifaði hér á síðuna í nóvember s.l. um Sigtrygg vin minn í New York sem þá hafði greinst með krabbamein. Annað nýrað þurfti að fjarlægja auk þess sem blettir voru komnir í bæði lungun og lifrina. Eftir uppskurðinn fór hann í tvær lyfjameðferðir með nokkurra vikna millibili. Þessi meðferð kallast IL2 og byggir á náttúrulegum efnum sem mér skilst að líkaminn framleiði sjálfur í einhverju mæli. Þessum efnum er sem sagt dælt í líkama sjúklingsins í miklu magni meðan á meðferð stendur með tilheyrandi aukaverkunum. Auk hefðbundinna fylgikvilla eins og almenns slappleika, ógleði og slíkum hlutum fylgir þessu einnig mikill kláði. Það var því mikið á sig lagt.
Í gær átti ég langt og gott samtal við Sigtrygg í símann. Hann sagði mér að hann hefði nú verið að fá niðurstöður úr sneiðmyndatöku sem hann fór í á dögunum, þar sem staðfest var það sem komið hafði fram í síðustu læknisskoðun að öll meinvörp væru á bak og burt. Það lítur því allt út fyrir að kappinn sé læknaður og þurfi ekki að hafa meiri áhyggjur af því frekar en hver annar að fá þennan sjúkdóm að nýju. Til öryggis mætir hann í eftirlit nokkrum sinnum út árið, en ef ekkert óvænt kemur upp á (sem allir vona að sé hæpið úr því sem komið er) ætti hann að vera eins og nýr eftir þetta allt saman.
Sigtryggur sýndi það og sannaði í veikindum sínum að samstaða fjölskyldunnar og einbeittur vilji allra um að ná bata skiptir máli. Þau hafa öll tekið á málum með aðdáunarverðum hætti svo til fyrirmyndar er. Hann hefur einnig verið duglegur að halda okkur vinum sínum og ættingjum vel upplýstum um gang mála gegnum bloggsíðu sína, sem hefur verið ómetanlegt fyrir okkur sem erum svona fjarri honum á erfiðum tímum.
Það er stórkostlegt að upplifa jákvæðar fréttir þegar krabbamein er annars vegar og verða vitni að því þegar fólk nær góðum bata. Fyrir nokkrum árum var sett samasem merki milli krabbameins og dauðadóms, nú á tímum framfara í læknavísindum er öldin önnur.
8.3.2008 | 22:24
Tannkrem og löggubíll
Ásgeir Bjarni afastrákur er mikill snillingur þótt fjögurra ára sé. Hann fór með mömmu sinni í búð eftir að þau höfðu rætt hvað skyldi keypt handa afa í afmælisgjöf. Stráksi hafði skýra skoðun á því og fékk auðvitað að kaupa það sem hann vildi gefa afa: Tannkrem og löggubíl. Afi á blátt tannkrem sem auðvitað gengur ekki til lengdar. Þess vegna er núna hvítt tannkrem í túpu af stærstu gerð komin í baðherbergisskápinn. Svo er auðvitað nauðsynlegt fyrir afa að leika sér með Ásgeiri Bjarna þegar hann kemur í heimsókn svo heppilegt þótti okkar manni að kaupa löggubíl af flottustu gerð. Afi fékk sem sagt tannkrem og löggubíl í afmælisgjöf frá nafna sínum - ekki slæmt það.
Nú er snáðinn sofnaður hér hjá ömmu og afa eftir vel heppnaðan dag. Áður en hann fór að sofa tilkynnti hann afa sínum að hann ætlaði að vakna á undan honum á morgun og klípa í tásuna á honum. Það verður spennandi fyrir afa að vakna í fyrramálið.
Við erum búin að eiga saman gæðastund í dag. Ásgeir Bjarni sótti afa í skólann, fór með honum og keypti pizzu og dundaði sér við límmiðabók með ömmu. Þetta er nú þegar öllu er á botninn hvolft besta afmælisgjöfinn - samveran og gleðin yfir því að eiga því láni að fagna að búa við barnalán og góða heilsu. Þá er ekkert að því að eldast.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.11.2007 | 00:24
Gildi vináttunnar
Sigtryggur vinur minn í New York er með krabbamein. Hann lenti í því á dögunum að geta ekki kastað af sér þvagi, án þess að hafa kennt sér nokkurs meins. Í ljós kom að æxli hafði búið um sig við annað nýrað, og líklegt er að meinið hafi náð að dreifa sér í önnur líffæri, eins og lungun. Þetta gæti því litið betur út.
Ég talaði lengi við Sigtrygg í símann í kvöld. Hann er að jafna sig eftir uppskurðinn, en nýrað var fjarlægt í síðustu viku. Á morgun (laugardag) er ein vika liðin frá því hann kom heim af sjúkrahúsinu eftir aðgerðina. Kallinn er auðvitað slappur eftir þetta stóra inngrip, en á hinn bóginn gengur batinn ótrúlega vel, og hann er byrjaður að braggast aðeins, fá smá matarlyst og farinn að vappa sæmilega um. Á morgun er meiningin að fara í góðan göngutúr, sem er liður í því að byggja upp þrek og þol eftir aðgerðina. Eftir 6 vikur tekur svo við stíf lyfjameðferð, sem án efa á eftir að taka á. Eins gott að vera vel í stakk búinn fyrir þau ósköp öll.
Sigtryggur á því láni að fagna að eiga góða að. Fjölskylda hans hefur frá fyrsta degi staðið þétt við bakið á honum; Lína konan hans, börnin hans þrjú og tengdabörnin. Fyrir utan alla hina. Nú er mamma hans komin í heimsókn, sem og Jón Sævar, sameiginlegur vinur okkar og skólabróðir frá Verzlunarskólaárunum. Þegar fólk verður fyrir áfalli í lífinu, hvort heldur er um að ræða ástvinamissi, slys, veikindi eða eitthvað annað, er fátt eins mikilvægt og eiga góða vini og fjölskyldu. Ég heyri það á Sigtryggi (og les það á "umönnunarsíðunni" hans) að það er honum mikils virði, og veitir honum styrk á erfiðum tímum. Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur vini hans að fá að taka þátt í baráttunni með honum, því maður finnur vel fyrir því þegar góður vinur veikist. Þá er gott að geta átt gott spjall, og leyfa sér þann munað að senda hlýjar hugsanir og jákvæða strauma, jafnvel þótt heimshöfin séu á milli.
Fyrir utan að eiga góða að þá er Sigtryggur maður með rétta hugarfarið til að takast á við raunir sem þessar. Honum tekst að vera raunsær og bjartsýnn í senn, hann einblínir á það sem er jákvætt og uppbyggilegt, og lifir nú fyrir líðandi stund. Það eru sönn lífsgæði. Ég er sannfærður um að hann á eftir að vinna bug á meini sínu, með tilstuðlan góðra og jákvæðra krafta, eiginleika sinna og stuðningi sinna nánustu. Það eru forréttindi að eiga Sigtrygg fyrir vin.
15.11.2007 | 20:57
Fengum skutl til London
Jæja góðir hálsar, við erum sem sagt komin heim eftir vel heppnaða dvöl hjá Davíð og Ýr í Newcastle. Flugum með easyJet frá Newcastle til London, og þaðan áfram með Iceland Express. Drengurinn var ekkert að tvínóna við hlutina, fékk vaktaskránni breytt og var því við stjórnvölinn með foreldrana innanborðs. Frábært flug í alla staði, og lendingin eins og best gerist! Hér má sjá mömmu með stráknum sínum í lok ferðar.
Eiríkur sonur okkar kom í heimsókn með börnin eftir við komum heim, það var ekki amalegt að hitta þau öll og fá hlýjar og notalegar móttökur. Það felst mikil hamingja og gleði í góðum og traustum fjölskylduböndum.
Nú er skólahelgi framundan, svo það verður nóg að gera. Þar verður fjallað um greiningu viðfangsefna og ákvarðanatöku, og markaðsfræði. Þetta lofar allt saman mjög góðu. Mörg verkefni í takinu - svo það verður nóg að gera.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.11.2007 | 20:37
Gæðastundir í Nýja Kastala
Við Kristrún erum komin í viku dvöl hjá Davíð syni okkar og Ýri, sambýliskonu hans, hér í Newcastle upon Tyne í Englandi. Davíð okkar er að gera það gott hér hjá enskum, hér flýgur hann þotu af gerðinni Boeng 737-700 hjá lággjaldaflugfélaginu easyJet. Ýr er snyrtifræðingur og vinnur sem slík hjá virtri snyrtistofu í miðbænum.
Dagurinn í dag hefur verið sannkölluð gæðastund út í gegn. Við Davíð fórum í útréttingar af ýmsu tagi, við fórum líka í ræktina og "chilluðum" bara svona almennt saman. Rétt eins og er svo nauðsynlegt fyrir feðga öðru hvoru. Hér var svo eldaður kvöldmatur af betri gerðinni, dúnmjúk nautasteik með piparrönd, ofnbakaðar kartöflur, tómatar og mozarella ostur, dýrindis rauðvín..... og á undan Cava freyðivín frá Spáni. Ekki nóg með það, á milli "rétta" settist drengurinn við hljóðfærið og spilaði etýður eftir Debussey og þaðan af betra "stöff".
Er hægt að kvarta við slíkar aðstæður? Það er fátt mikilvægara en fjölskyldan, börnin, tengdabörnin, barnabörnin..... og að fá að njóta samvista við þau öll - á sínum heimavelli. Þetta verður væntanlega síðasta heimsókn okkar til þeirra hér í Newcastle, því eftir áramótin bíða þeirra ný ævintýri í Milano á Ítalíu, en Davíð sótti um flutning hjá vinnuveitenda sínum og fékk. Þau flytja því snemma á nýju ári - það gefur okkur Kristrúnu auðvitað tækifæri til að heimsækja þau þar - með tilheyrandi notalegum gæðastundum.