6.2.2008 | 21:37
Kastljósið varpar kastljósi
Kastljós RÚV miðvikudaginn 6. febrúar 2008 verður líklegast lengi í minnum haft þeirra sem það sáu. Til umfjöllunar voru drög að lokaskýrslu stýrihóps um REI málið sem frægt er orðið. Nú er nokkuð um liðið frá því öll þau ósköp dundu yfir með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun; trúnaðarbresti milli samherja í stjórnmálum, fall meirihluta borgarstjórnar ásamt þverrandi trausti almennings á kjörnum fulltrúum sínum.
Það er sérlega áhugavert að fá þessa upprifjun nú eftir að þessi tími er liðinn frá því atburðirnir gerðust og því ákveðin fjarlægð komin á þá. Það er ekki síst athyglisvert að rifja upp málið nú í ljósi þeirrar staðreyndar að sjálfstæðismenn eru á ný komnir í meirihluta í borgarstjórn og þar með til áhrifa og valda. Eins og alkunna er þrætti þáverandi borgarstjóri og oddviti þeirra sjálfstæðismanna fram í rauðan dauðann og þvertók fyrir að hafa vitað um lista yfir þá starfsmenn Orkuveitunnar sem skyldu fá að kaupa hlui í REI á tilgreindu verði, né heldur kannaðist hann við að hafa séð frægt minnisblað þrátt fyrir að jafn mætur maður og Bjarni Ármannsson hefði haldið því fram, jafn vammlaus og hann vafalaust er. Í Kastljósinu í kvöld var svo gráu bætt ofan á svart í þessum efnum, því haft var eftir Hauki Leóssyni, sem var í stjórn OR og REI að þáverandi borgarstjóra hefði verið fullkunnugt um bæði listann og minnisblaðið.
Það er umhugsunarefni fyrir framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins að þessi sami einstaklingur skuli enn vera oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Það er líka umhugsunarefni fyrir sömu framvarðarsveit að þessi einstaklingur skuli á ný verða borgarstjóri í mars 2009, samkvæmt samkomulagi núverandi meirihluta. Skyldi framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins treysta á lélegt pólitískt minni kjósenda sinna? Jafnvel þótt það hafi e.t.v. á stundum verið lélegt til þessa er ég nokkuð viss um að það eigi ekki við lengur. Það er viðbúið að fylgið hrynji af Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórnarkosningunum 2010 fari fram sem horfi og ekki verði skipt um kallinn í brúnni. Best fyrir alla, ekki síst hann sjálfan, væri að hann axlaði ábyrgð og tæki pokann sinn, í stað þess að verða þröngvað til þess. Það er að mínu mati einungis tímaspurning hvenær það gerist.
2.2.2008 | 20:51
Spáð í spilin
Eins og ég gat um fyrr hér á blogginu var þessi möguleiki sem nú virðist vera kominn í umræðuna viðrarður í góðra vina hópi í New York fyrir tveimur vikum. Þar ræddum við m.a. að flott "set up" gæti verið að Hilary yrði forsetinn og Barak aðstoðarforsetinn, en að loknu einu kjörtímabili mundi Hilari ekki bjóða sig fram heldur veita Barak brautargengi. Þannig gæti hann því setið í næstu tvö kjörtímabil ef allt gengi eftir.
Þvílíkur reginmunur á þessu tvíeyki samanborið við þá John McCain og Mitt Romney, sem nú virðast vera þeir líklegustu meðal repúblikana. Sá á dögunum kappræður þeirra á CNN sem fram fór í Ronald Reagan bókasafninu. Ekkert nema rifrildi og karp, minna fór fyrir uppbyggilegum umræðum. Það er ljóst að repúblikanar eiga erfitt uppdráttar nú, þarf væntanlega mikið að breytast svo þeir eigi yfir höfuð einhvern möguleika á að sigra forsetakosningarnar í haust.
Það væri nú aldeilis tíðindi ef næsta forsetapar Bandaríkjanna samanstæði af blökkumanni og konu, þá er e.t.v. smá von um að betri tíð og blóm í haga fyrir Bandaríkjamenn og heimsbyggðina alla.
![]() |
Munu Clinton og Obama bjóða fram saman? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.1.2008 | 23:45
Glöggt er gests augað
Land- og ferðamálafræðiskor hélt áhugaverða málstofu í Öskju í dag, miðvikudag. Umfjöllunarefnið voru bílar og umferð í borginni. Tvö erindi voru flutt, annars vegar af frönskum doktorsnema við deildina sem kallaði fyrirlestur sinn "Cars and the City" eða "Bílar í borginni" og hins vegar breskur prófessor í "mobility and urban planning" við Álaborgarháskóla.
Hinn franski doktorsnemi, Virgile Collin-Lange greindi frá rannsókn sem hann framkvæmdi nýlega meðal menntaskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Þar spurði hann viðmælendur sína um ferðamáta og velti fyrir sér þeirri óvenjulegu staðreynd hversu margir eiga bíl. Hann spurði einni um hið séríslenska fyrirbæri "rúntinn" - það eru greinilega margir unglingar sem nota bílinn í félagslegum tilgangi, merkilegt nokk. Helstu niðurstöður hans voru þær að bílaeign unglinga er ekki einungis í samgöngulegum tilgangi, heldur hefur einnig með lífsstíl að gera. Einn viðmælanda hans sagði eitthvað á þessa leið: "Bíllinn minn er eitthvað það fallegasata sem ég hef nokkurn tíma eignast. Við erum ástfangin. Ég fæ bílpróf eftir mánuð, og þaðan í frá munu ég og bíllinn minn verða ástfanginn að eilífu. Bíllinn minn er eitt það besta sem hefur gerst í lífi mínu. Ég keypti hann sjálf(ur) og ég vann mikið til að geta keypt hann." Það var athyglisverð staðreynd að áður en ungviðið fékk bílpróf voru tæplega 40% þeirra sem tóku strætó í skólann, en eftir að þau voru komin með bílpróf datt þetta hlutfall niður fyrir 10%.
Hinn breski Tim Richardson fjallaði um það vandasama verkefni sem blasir við í borgum nútímans, sem standa frammi fyrir síaukinni umferð og meiri þrengslum og töfum. Hann sagði m.a. frá tilraunum sem hafa verið gerðar í London, Osló og Edinburg, þar sem umferð í miðborgunum var takmörkuð með gjaldtöku. Ken Livingstone, borgarstjóri í London er frumkvöðull á þessu sviði. Hann lagði pólitíska framtíð sína að veði þegar hann ákvað að leggja gjald á umferð í miðborg London, en uppskar ríkulega. Allir voru meira og minna á móti þessum aðgerðum áður en ráðist var í þær, en eftir að reynslan er fengin er fólk upp til hópa ánægt. Livingstone var síðar endurkjörinn borgarstjóri með góðri kosningu.
Báðir fyrirlesarar voru undrandi yfir bílaborginni Reykjavík og hinni miklu bílamenningu sem hér ríkir. Það mátti sjá a.m.k. einn borgarfulltrúa meirihlutans á málstofunni, sem er virðingarvert. Nú verður spennandi að sjá hvort borgarstjórnin ætlar að fylgja fast eftir áformum sínum um mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar - svo við þurfum ekki að bíða í 2 eða 3 ljós þessar 10 - 15 mínútur, tvisvar á dag þegar mesti álagstíminn er. Þá getum við áfram ekið í bílunum okkar alein til og frá vinnu, og strætó heldur áfram að bíða í sömu röðinni eins og allir hinir.....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2008 | 00:19
Ó borg mín, borg.....
Sá mikli skáldsnillingur Vilhjálmur frá Skáholti samdi ódauðlegt ljóð á sínum tíma með þessu nafni sem Haukur Morthens gerði síðan fallegt lag við og söng inn á plötu. Í öllu pólitíska fárinu undanfarna daga í borgarpólitíkinni er ekki laust við að þessi fleygu orð komi í hugann - nú þegar enn skal skipt um meirihluta.
Það er með ólíkindum hvernig málum er komið hjá Reykjavíkurborg. Menn skipta orðið um borgarstjóra með örfárra mánaða millibili eins og ekkert sé, það er ekki von á góðri stjórnsýslu þegar svo háttar til því eftir höfðinu dansa limirnir. Það er í hæsta máta undarlegt að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn skuli enn á ný tefla fram leiðtoga sínum sem borgarstjóraefni, ekki síst eftir það sem á undan er gengið. Það er eins og einhver álög hvíli á þessum stjórnmálaflokki - það að láta sama manninn taka við aftur er vísasta leiðin til að steypa flokknum í glötun fyrir næstu kosningar og ávísun á slakt kjörgengi.
Í Kastljósi Sjónvarpsins þriðjudaginn 22. janúar 2008 var viðtal við áðurnefndan leiðtoga sjálfstæðismanna, fyrrverandi og verðandi borgarstjóra. Ég hygg að aldrei hafi nokkur maður staðið sig jafn hörmulega og í þessu viðtali - endalaus vörn og tönnlast í sífellu á einhverju sem ekki var nokkur leið að skilja. Hví auðnast þessum flokki ekki lengur að hafa í röðum sínum glæsilega leiðtoga, skörunga og foringja sem áður var aðalsmerkið? Það þarf ekki annað en að nefna nokkur nöfn borgarstjóra: Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson, Davíð Oddsson ..... er núverandi oddviti samanburðarhæfur við þennan hóp? Það er ekki nema von að fylgið mælist lágt - og það mun án efa fara þverrandi sjái menn ekki að sér.
20.1.2008 | 13:48
Góð heimsókn til New York
Nú er senn á enda runnin stutt helgarheimsókn mín til vinar míns Sigtryggs og Línu konu hans, sem hér hafa búið í u.þ.b. 20 ár. Búin að vera frábær helgi í góðra vina hópi, þar sem slegið var á létta strengi og samverunnar notið til fulls. Sigtryggur er búinn að taka fyrri lyfjameðferð sína vegna krabbameins síns, og nú tekur síðari törnin við hjá honum í vikunni. Það er frábært að sjá hversu vel gengur hjá honum og hve fjölskyldan er samheldin og ákveðin í að takast af skynsemi á við þetta vandasama verkefni. Það er líka búið að vera frábært að sjá framfarir og nánast dagamun, svo allt lofar þetta góðu. Auðvitað ekki hægt að líkja því saman að vera á staðnum og hitta mannskapinn eða að vera einungis í síma- og tölvupóstsambandi. Átti einnig frábæran dag í borginni á föstudag, fór á þrjá fundi vinnu minnar vegna í Midtown Manhattan. Einstaklega skemmtileg og lifandi borg, New York.
Hér í landi er mikið fjör í pólitíkinni, enda stendur undirbúningur forsetakosninga sem hæst með tilheyrandi forvölum beggja stóru flokkanna. Það fylgir þessu sérstök stemming og gaman að fylgjast með. Við sem hér vorum saman komin um helgina (helmingurinn búsettur í USA og helmingurinn á Íslandi) vorum öll meira og minna sammála um að það myndi teljast með ólíkindum ef þessi þjóð kysi sér forseta á ný úr röðum Repúblikana, miðað við það sem á undan er gengið og þá þróun sem hefur orðið í forsetatíð Bush. Það er hins vegar ekki á vísan að róa í þessu sambandi, skjótt skipast veður í lofti og mál geta tekið nýja stefnu án þess að nokkurn hafi órað fyrir því. Eins og staðan er núna hjá Demókrötum virðist sem Hillary Clinton sé að rífa sig upp úr öldudal sem hún lenti eftir að hafa tapað í New Hampshire, en það er enn á brattan að sækja. Það er hins vegar merkileg staða sem nú er uppi í herbúðum þeirra, nefnilega að þar sem þessi flokkur er núna sigurstranglegri en hinn er því líklegt að næsti forseti Bandaríkjanna verði annað hvort kona eða blökkumaður. Ekki nóg með það, í samræðum okkar hér um helgina vorum við nokkurn veginn búin að komast að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri fyrir Demókrata að fylkja sér um Hillary og að Obama yrði varaforseti hennar. Slá tvær flugur í einu höggi! Hillary gæti svo stigið af veldisstóli sínum eftir eitt kjörtímabil og hleypt Obama að sem gæti þá orðið forseti í tvö kjörtímabil ef allt gengi vel. Óskhyggja? Getur vel verið - en það er gaman að velta þessu öllu fyrir sér og fylgjast með umræðunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2008 | 22:22
Gott sjónvarp
Fyrir þá sem ekki sjá stöð 2 er vert að benda á nýjustu skrautfjöður þeirra, Pressuna. Horfði á þriðja þáttinn í kvöld, alveg þrælgóður bara. Eftir að Næturvaktinni lauk var maður hálf efins að jafn gott tæki við, en það voru óþarfa áhyggjur. Fyrir viku horfði ég einnig á Sjálfstætt fólk þar sem rætt var við Kristján Tómas Ragnarsson lækni í New York, einnig sérlega góður þáttur. Kristján er frábær einstaklingur sem hefur náð langt í sínu fagi, endurhæfingu mænuskaddaðra. Við getum vottað það í þessari fjölskyldu.
Horfði einnig á Silfrið í dag, áhugavert viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um skipulagsmál. Það er greinilega von á sjónvarpsþáttum síðar í vetur frá honum, verður áhugavert að fylgjast með því. Viðtalið í dag og myndirnar sem hann sýndi veitti góð fyrirheit um það sem í vændum er. Skipulagsmálin eru mjög þýðingamikill málaflokkur sem mikilvægt er að huga að.
Svo spáir hann snjókomu - loksins að koma vetur en ekki þessar endalausu rigningar sem ætluðu aldrei að hætta hér fyrir hátíðarnar.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2008 | 17:50
Það ku vera að skána veðrið
Heyrst hefur eftir áreiðanlegum heimildum að veðrið í Karabíahafinu sé að skána, loksins stytt upp eftir talsverðar rigningar undanfarna daga. Komin sól og blíða. Einnig hefur frést af bæjarferðum, gimsteinaskoðun, heimsókn í romm-bruggerí, og keppni í félagsvist. Kona á besta aldri sem þarna er á ferð með móður sinni fékk víst aðal verðlaunin. Eitthvað mun skilningur á stjörnugjöf á gististöðum vera með önnur viðmið heldur en þau sem við þekkjum, það sem telst vera 4 stjörnur þar telst tæpast vera nema 2-3 á vestrænan mælikvarða. Þá er nú bara um að gera að vera ekki að strekkja sig á því, gera bara gott úr þessu.
Haustönn MBA námsins lauk um síðustu helgi, enda fór veðrið þá strax að skána. Nú er einungis eftir að leggja lokahönd á síðasta verkefnið, áður en undirbúningur fyrir vorönn og næstu námstarnir hefjast. Hópurinn tók sig til og efndi til fagnaðar mikils á laugardagskvöldið eins og honum var einum lagið. Ekkert verið að tvínóna við hlutina, gert með stæl og verið lengi að. Rétt eins og það á að vera hjá stúdentum í háskólanámi. Feiknalegt stuð og mikið gaman.
Megi nýja árið færa öllum hamingju og visku!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2007 | 22:45
Árið gert upp
Þetta var um margt merkilegt ár hjá mér. Í hnotskurn gerðist þetta:
- Ég missti vinnuna.
- Ég byrjaði að blogga.
- Ég settist á skólabekk.
- Ég fékk nýja vinnu.
- Ég ferðaðist mikið, bæði innanlands og utan.
Af þessu má sjá að árið var þrátt fyrir allt gott - það var í öllu falli engin lognmolla. "Det rör på sig" eins og sænskurinn segir. Það er stundum sagt að í öllum breytingum felist tækifæri. Það er auðvitað ekki spurning að það á við í mínu tilviki. Breytingarnar hafa þrátt fyrir allt orðið til góðs, og maður kemur öflugari og sterkari út úr þessu öllu.
Þegar einhver annar en maður sjálfur ákveðum að maður skula hætta í starfi sem maður hefur helgað sig um nokkura ára skeið og telur sig ekki vera búinn að ljúka verkefninu sem manni var falið verður maður súr. Ergilegur og pirraður. Sár. Sérstaklega vegna þess hvernig að málum var staðið. Þetta tekur sinn toll, maður dregst með þetta í hugarfylgsninu hvort sem manni líkar það betur eða ver, svo það er eins gott að taka sig núna til og hreinsa þennan ófögnuð út í eitt skipti fyrir öll. Einhver frægur maður sagði einhvern tíma eitthvað á þá leið að eftir því sem hann kynntist mönnunum betur þeim mun vænna þætti honum um hundinn sinn. Það getur vafalaust átt við í mínu tilviki þegar misvitrir sveitarstjórnarmenn eru annars vegar, einkum þeir sem nýlega höfðu komist í meirihluta en hrökkluðust síðan úr embætti vegna aulaháttar og lélegra vinnubragða.
Það er dapurlegt að fylgjast með gamla vinnustaðnum og sjá hvernig hver höndin er upp á móti annarri og menn í endalausum hjaðningarvígum. Hvenær ætlar þessu ástandi að linna? Hvernig stendur á því að eigendur þessa fyrirtækis láta endalaust reka á reiðanum, af hverju er ekki gripið til markvissrar mótspyrnu og þróuninni snúið við? Þegar maður hittir gamla vinnufélaga og spyr hvernig þeir hafi það og hvað sé að frétta, eru helstu svörin þessi: ".... æi þetta er alveg skelfilegt ástand" eða "... nú bíður maður eftir að komast á eftirlaun" eða "... sennilega verður þetta aldrei gott" og fleira í þeim dúr. Skattborgarar höfuðborgarsvæðisins borga hátt í tvo miljarða króna á ári með þessum rekstri - og enginn segir neitt, enginn gerir neitt. Allir sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu (með örfáum undantekningum) eru meira og minna algjörlega áhugalausir um þessa starfsemi og á meðan flýtur fleyið sofandi að feigðarósi. Það er ekki að búast við glæstum sigrum og góðum árangri meðan aðstæður eru eins og raun ber vitni. Það er hins vegar leið út úr þessum ógöngum, það þarf einungis að taka á málunum á viðeigandi hátt og taka stefnumarkandi ákvarðanir sem losa fyrirtækið úr þessum heljargreipum. Vonandi tekst það áður en það verður of seint.
Og hana nú.
Að öðru leyti er gott ár að baki. Frábært að vera kominn í nám, MBA námið er í senn gefandi og krefjandi. Einstaklega skemmtilegur og fjölbreyttur hópur frábærra einstaklinga sem leggur stund á námið og maður kynnist mörgu góðu fólki og stofnað er til vináttu sem maður hefur á tilfinningunni að eigi eftir að endast manni út lífið. Nýtt starf er skemmtilegt og spennandi, þó algjörlega ólíkt öllu sem ég hefur áður fengist við. Ég hlakka til að takast á við verkefnin, þau eru fjölbreytt, krefjandi og spennandi. Samstarfsfólkið er frábært - valinn maður í hverju rúmi.
Ég tek fagnandi á móti nýju ári, sem vonandi felur í sér fullt af spennandi tækifærum og skemmtilegum verkefnum. Það verður gaman. Gleðilegt ár!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.12.2007 | 11:10
Gleðileg jól!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.12.2007 | 21:49
Botninum náð - nú er það bara upp á við
Nú er stystur sólargangur - vetrarsólshvörf. Það mun vera nákvæmlega útreiknað að vetrarsólhvörf í ár verða kl. 06:08 þann 22. des. Eftir það tekur daginn að lengja að nýju, uns hámarkinu er náð um sumarsólstöðlur á Jónsmessu, þegar sól er hæst á lofti og lengstur sólargangur. Fyrir marga er þessi árstími án efa erfiður, ekki síst þegar tíðarfarið er eins og verið hefur undanfarið, rigning og dimmt. Það er bara að vona að það taki að birta til um leið og daginn tekur að lengja.
Góður vinur býður til fagnaðar af þessu tilefni, og auðvitað verður veislan haldin á hárréttum tíma, um kl. 6 að morgni hins 22. desember. Það verður ekki í kot vísað á þeim bænum frekar en fyrri daginn. Boðið er "háheiðið og rustikal, með síld og Rúbba, bjór og Áka á borðum". Skiptir engu máli þótt þessi tími dagsins sé, það er viðbúið að vel verði mætt.
Með þessum orðum óska ég lesendum mínum gleðilegra jóla. Megið þið eiga notalegar og ljúfar stundir um hátíðarnar, njótið tilverunnar og takið með opnum hug á móti jólaboðskapnum. Leyfum jólabarninu innra með okkur að eiga sitt örugga skjól í hugum okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)