Hagfræði almúgans

Þessa dagana verðum við vitni að rússíbanareið krónunnar. Nú hefur það loks gerst sem lengi hefur verið beðið eftir, þ.e. að hin ofmetna íslenska króna virðist nú loks vera á sanngjörnu verði gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það er auðvitað afstætt hvað er sanngjarnt, en líklegast ber nú flestum saman um að verðmæti gjaldmiðilsins undanfarin misseri hafi verið of hátt ef eitthvað er.

Á sama tíma og gengisvístalan hækkar haldast stýrivextir áfram háir. Það er eðlilegt, því helsta stjórntæki Seðlabankans er s.k. verðbólgumarkmið. Með öðrum orðum, bankinn notar vaxtastigið til að stemma við verðbólgudraugnum svo hann fari ekki á kreik og verðbólgan verði umfram skilgreind markmið. Nú er staðan hins vegar sú að með breyttu gengi (sumir segja réttmætri leiðréttingu gengisins) er ljóst að öll aðföng þjóðarbúsins hækka, enda flest keypt erlendis frá og greitt fyrir með erlendri mynt. Það þarf því fleiri krónur til að standa straum af þessum innkaupum, hvort heldur er um að ræða nauðsynjavörur eða aðrar vörur. Við þetta hækkar verðlagið í landinu og verðbólgan eykst. Þá heldur Seðlabankinn áfram að hafa vextina háa, því fræðin segja að verði vextirnir lækkaðir auki það eftirspurnina eftir fjármagni og kyndi þar með undir aukna neyslu, með tilheyrandi áhrifum á verðlag og verðbólgu. Það eru þvi góð ráð dýr fyrir Seðlabankann. Fátt um góð úrræði þar á bæ eins og málum er háttað. Á hinn bóginn má benda á að með þessari veikingu krónunnar vænkast hagur útflutningsfyrirtækjanna sem væntanlega skilar sér í auknum skatttekjum í ríkissjóð.

Það kemur í hugann sú áleitna spurning hvort ekki sé rétt að lækka vextina þrátt fyrir allt þegar svo er ástatt sem nú. Heimilin í landinu eru lang flest skuldug upp fyrir haus, bæði vegna húsnæðiskaupa og vafalaust mörg einnig vegna neyslulána. Með allri verðhækkuninni sem framundan er vegna veikingar krónunnar verður erfitt fyrir þessi skuldsettu heimili að standa straum af útgjaldaaukanum. Ef vextirnir væru hins vegar lækkaðir mundi það vega upp að einhverju leyti útgjaldaaukann og kæmi það mörgum til góða, einkum þeim sem skuldugir eru. Það mundi án efa slá á þensluna frekar en auka hana eins og nú er ástatt. Þar að auki mundi vafalaust tiltrúin á gjaldmiðlinum vaxa á ný, enda nauðsynlegt að byggja upp traust á krónunni innan frá í stað þess að láta verðmat hennar stýrast af mati spákaupmanna sem versla með jöklabréf.

Hagfræðing er býsna merkileg fræðigrein - hún kemur stöðugt á óvart.


mbl.is Segir gengi krónunnar næstum rétt skráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Ruminy

Sæll Ásgeir,

 fáir hafa, ef ég man rétt, bent á þetta skrítna fyrirkomulag að vera hér með verðbólgumarkmið eins og stóru ríkin - þau sem hagfræðibækurnar koma helst frá. Ég var mjög hissa þegar fastagengisstefnunni var breytt árið 2000 í verðbólgumarkmið.

Að vísu er a.m.k. jafnt erfitt fyrir lítinn seðlabanka einn á báti að halda gengi föstu og að halda verðbólgu lágri með skynsamlega lágum vöxtum ef spákaupmenn fara að 'ráðast' á lítla ríki þess eins og á Íslandi (ég man eftir Svíþjóð lítlu sem varð fyrir þessu í lok síðasta áratungar, vextir hátt í 90% í nokkrar dagar).

En með því að ganga í myntsamstarf (eins og við Evrópska Seðlabankann) er miklu frekar hægt að afstýra svona gengissveiflum OG háum vöxtum ekki síst vegna þess að sameiginleg viljayfirlýsing beggja aðila að halda genginu stöðugu er miklu trúverðugra. Svona stór 'lítil' ríki eins og Sviss, Niðurlönd, Austurríki og Danmörk hafa fyrir löngu sýnt fram á það að hægt sé að 'flýtja inn' stöðugleika frá stóru trúverðugu landi, eins og Seðlabankinn sýnir fram á að verbólgumarkmið sem framfylgt er með verðbólguspá (sem hefur svo aftur áhrif á forsendur sínar) og styrivöxtum einum í landi jafnháðu útanríkisviðskiptum og Ísland getur haft þveröfug áhrif en kenningin gerir ráð fyrir.

Öll fræði koma á óvart þegar menn halda að aðeins ein kenning sé allra meina bót.

Jens Ruminy, 19.3.2008 kl. 00:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband