Færsluflokkur: Bloggar

Laugavegurinn

Um daginn átti ég samtal við starfsmann erlendrar ferðaskrifstofu sem hingað kom til að ganga frá dagskrá fyrir hóp sem hingað kemur á hans vegum í sumar. Við fórum vítt og breitt, skoðuðum veitingastaði, hótel, kynntum okkur afþreyingu af ýmsu tagi og þar fram eftir götunum. Þegar kom að því að taka ákvörðun um hótel fannst honum ekki skipta öllu máli að vera nálægt miðbænum, enda var hann búinn að fara þar um og sá í sjálfu sér ekkert áhugavert þar. Hann minntist sérstaklega á að það væri lítið spennandi fyrir hópinn að vera í miðbænum þar sem ekkert væri um göngugötur og áhugaverð svæði þar sem fólk væri í fyrirrúmi. Þessi orð urðu mér talsvert umhugsunarefni, sérstaklega eftir að hafa farið með viðkomandi hefðbundinn "city sightseeing tour" þar sem m.a. miðbæ Reykjavíkur eru gerð góð skil.

Kaupmenn við Laugaveginn mundu líklegast gera best í því að fá borgina til að loka götunni fyrir bílaumferð og byggja t.d. létt glerþak yfir götuna sem hægt væri að opna á góðviðrisdögum. Tækni nútímans hlýtur að ráða við slíkar lausnir. Þetta kallar að sjálfsögðu á aðgerðir á aðliggjandi svæðum, t.d. varðandi bílastæði, gönguleiðir, almenningssamgöngur o.fl. Reynsla margra borga víða um Evrópu er sú að fyrst eftir að bílaumferð var takmörkuð tóku miðborgirnar að blómstra.

Það er ekkert varið í að ganga um Laugaveginn eða annars staðar í miðbænum þegar stöðug bílaumferð fer hjá með tilheyrandi úblæstri og hávaðamengun, að ekki sé nú minnst á allan þann fjölda bíla sem lagt er ólöglega, m.a. upp á gangstéttum. Nú er lag fyrir borgaryfirvöld og hagsmunaaðila miðbæjarins að snúa saman bökum og koma með raunhæfa lausn sem gerir miðbæinn eftirsóttan að nýju. Hún er miklu einfaldari en marga grunar og er sannarlega til þess fallin að efla svæðið, bæði kaupmönnum, veitingahúsaeigendum, almenningi og borgaryfirvöldum í hag.


mbl.is Kreppa á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð tíðindi að vestan

Það er í raun synd að eyða kröftunum hjá báðum þessu frambærilegu einstaklingum í karp hvort við annað. Með því að sameina kraftana og fara bæði í framboð hljóta þau að eiga sigurinn vísan í haust í baráttunni við frambjóðanda repúblikana. Með þessi tvö í embætti forseta og varaforseta munu þau skrá mikilvægan áfanga á spjöld sögunnar og um leið mun tiltrú heimsbyggðarinnar aukast að nýju á stjórnvöld í Bandaríkjunum. Vonandi verður það gæfuskref fyrir heimsbyggðina að fá í embætti forseta og varaforseta þessa voldugasta ríki heims einstakling af öðrum kynþætti en þeim hvíta og konu. Næstum því of gott til að vera satt.
mbl.is Útilokar ekki framboð með Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími forsjárhyggjunnar er liðinn

Það er löngu tímabært að stjórnvöld viðurkenni að einstaklingar þessa lands eru yfirleitt fullfærir um að taka sínar eigin ákvarðanir, hvort heldur þær eru að spila Olsen, kaupa rauðvín eða annað það sem hugurinn girnist. Frábært framtak hjá Birki - minnir á þegar Davíð keypti ölið hér um árið sem varð til þess að bjórinn var leyfður.
mbl.is Tvískinnungur að aðrar reglur gildi um póker
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarskipulag í brennidepli

Það er afar áhugaverð sýningin sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur, sem er til húsa í gamla Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Þar eru nú til sýnis tillögur sem bárust í hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina sem Reykjavíkurborg efndi til og kunngerði úrslitin á dögunum.

Verðlaunatillagan er mögnuð. Hún nær að fanga á einstakan hátt hina einu sönnu Reykjavíkurstemmingu um leið og til verður áhugaverð nútímalausn sem er til þess fallin að ganga vel upp við umhverfi sitt. Það er væntanlega ekki einfalt að bæta heilu borgarhverfi við, ekki síst eins og í þessu tilviki svo nálægt miðbænum eins og raun ber vitni. Það er líka ánægjulegt til þess að vita hversu góð samstaða náðist um tillöguna um leið og það er athyglisvert að verða vitni að því hversu umræðan um hvort flugvöllurinn eiga að vera eða fara kemst á vitrænna stig en áður.

Sem áhugamaður um samögnur tekur maður eftir að margir góðir möguleikar opnast með þessari tillögu. Varpað er fram hugmynd um léttlestir og einnig tengingu yfir á Kársnesið með göngum sem mundi opna leið fyrir lestarsamgöngur til Keflavíkur.

Með tilkomu "102 Reykjavík" skapast ný sóknarfæri fyrir Reykjavík, ekki síst í samgöngulegu tilliti. Það verður áhugavert að fylgjast með umræðunni og hvernig unnið verður áfram með tillöguna. Ekki síst verður fróðlegt að sjá hvernig skipulagsyfirvöld sjá fyrir sér tenginu þessa nýja hverfis við önnur hverfi höfuðborgarsvæðisins, t.d. hvort eigi að aðlaga þetta nýja hverfi "bílaborginni Reykjavík" eða hvort sú ágæta bílaborg verði aðlöguð þessu nýja hverfi og þeim áhugaverðu möguleikum sem tillagan hefur upp á að bjóða.

Nú er bara að vona að sæmilegur stöðuleiki fari að nást í borgarpólitíkinni svo unnt sé að nýta kraftana í uppbyggilega umræðu, ekki síst um jafn mikilvæg mál og skipulagsmál og samgönumál. Það eru spennandi tímar framundan á þessum vettvangi.


Spáð í spilin

Eins og ég gat um fyrr hér á blogginu var þessi möguleiki sem nú virðist vera kominn í umræðuna viðrarður í góðra vina hópi í New York fyrir tveimur vikum. Þar ræddum við m.a. að flott "set up" gæti verið að Hilary yrði forsetinn og Barak aðstoðarforsetinn, en að loknu einu kjörtímabili mundi Hilari ekki bjóða sig fram heldur veita Barak brautargengi. Þannig gæti hann því setið í næstu tvö kjörtímabil ef allt gengi eftir.

Þvílíkur reginmunur á þessu tvíeyki samanborið við þá John McCain og Mitt Romney, sem nú virðast vera þeir líklegustu meðal repúblikana. Sá á dögunum kappræður þeirra á CNN sem fram fór í Ronald Reagan bókasafninu. Ekkert nema rifrildi og karp, minna fór fyrir uppbyggilegum umræðum. Það er ljóst að repúblikanar eiga erfitt uppdráttar nú, þarf væntanlega mikið að breytast svo þeir eigi yfir höfuð einhvern möguleika á að sigra forsetakosningarnar í haust.

Það væri nú aldeilis tíðindi ef næsta forsetapar Bandaríkjanna samanstæði af blökkumanni og konu, þá er e.t.v. smá von um að betri tíð og blóm í haga fyrir Bandaríkjamenn og heimsbyggðina alla.


mbl.is Munu Clinton og Obama bjóða fram saman?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð heimsókn til New York

Nú er senn á enda runnin stutt helgarheimsókn mín til vinar míns Sigtryggs og Línu konu hans, sem hér hafa búið í u.þ.b. 20 ár. Búin að vera frábær helgi í góðra vina hópi, þar sem slegið var á létta strengi og samverunnar notið til fulls. Sigtryggur er búinn að taka fyrri lyfjameðferð sína vegna krabbameins síns, og nú tekur síðari törnin við hjá honum í vikunni. Það er frábært að sjá hversu vel gengur hjá honum og hve fjölskyldan er samheldin og ákveðin í að takast af skynsemi á við þetta vandasama verkefni. Það er líka búið að vera frábært að sjá framfarir og nánast dagamun, svo allt lofar þetta góðu. Auðvitað ekki hægt að líkja því saman að vera á staðnum og hitta mannskapinn eða að vera einungis í síma- og tölvupóstsambandi. Átti einnig frábæran dag í borginni á föstudag, fór á þrjá fundi vinnu minnar vegna í Midtown Manhattan. Einstaklega skemmtileg og lifandi borg, New York.

Hér í landi er mikið fjör í pólitíkinni, enda stendur undirbúningur forsetakosninga sem hæst með tilheyrandi forvölum beggja stóru flokkanna. Það fylgir þessu sérstök stemming og gaman að fylgjast með. Við sem hér vorum saman komin um helgina (helmingurinn búsettur í USA og helmingurinn á Íslandi) vorum öll meira og minna sammála um að það myndi teljast með ólíkindum ef þessi þjóð kysi sér forseta á ný úr röðum Repúblikana, miðað við það sem á undan er gengið og þá þróun sem hefur orðið í forsetatíð Bush. Það er hins vegar ekki á vísan að róa í þessu sambandi, skjótt skipast veður í lofti og mál geta tekið nýja stefnu án þess að nokkurn hafi órað fyrir því. Eins og staðan er núna hjá Demókrötum virðist sem Hillary Clinton sé að rífa sig upp úr öldudal sem hún lenti eftir að hafa tapað í New Hampshire, en það er enn á brattan að sækja. Það er hins vegar merkileg staða sem nú er uppi í herbúðum þeirra, nefnilega að þar sem þessi flokkur er núna sigurstranglegri en hinn er því líklegt að næsti forseti Bandaríkjanna verði annað hvort kona eða blökkumaður. Ekki nóg með það, í samræðum okkar hér um helgina vorum við nokkurn veginn búin að komast að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri fyrir Demókrata að fylkja sér um Hillary og að Obama yrði varaforseti hennar. Slá tvær flugur í einu höggi! Hillary gæti svo stigið af veldisstóli sínum eftir eitt kjörtímabil og hleypt Obama að sem gæti þá orðið forseti í tvö kjörtímabil ef allt gengi vel. Óskhyggja?  Getur vel verið - en það er gaman að velta þessu öllu fyrir sér og fylgjast með umræðunni.

 


Það ku vera að skána veðrið

Heyrst hefur eftir áreiðanlegum heimildum að veðrið í Karabíahafinu sé að skána, loksins stytt upp eftir talsverðar rigningar undanfarna daga. Komin sól og blíða. Einnig hefur frést af bæjarferðum, gimsteinaskoðun, heimsókn í romm-bruggerí, og keppni í félagsvist. Kona á besta aldri sem þarna er á ferð með móður sinni fékk víst aðal verðlaunin. Eitthvað mun skilningur á stjörnugjöf á gististöðum vera með önnur viðmið heldur en þau sem við þekkjum, það sem telst vera 4 stjörnur þar telst tæpast vera nema 2-3 á vestrænan mælikvarða. Þá er nú bara um að gera að vera ekki að strekkja sig á því, gera bara gott úr þessu.

Haustönn MBA námsins lauk um síðustu helgi, enda fór veðrið þá strax að skána. Nú er einungis eftir að leggja lokahönd á síðasta verkefnið, áður en undirbúningur fyrir vorönn og næstu námstarnir hefjast. Hópurinn tók sig til og efndi til fagnaðar mikils á laugardagskvöldið eins og honum var einum lagið. Ekkert verið að tvínóna við hlutina, gert með stæl og verið lengi að. Rétt eins og það á að vera hjá stúdentum í háskólanámi. Feiknalegt stuð og mikið gaman.

Megi nýja árið færa öllum hamingju og visku!

 


Árið gert upp

Þetta var um margt merkilegt ár hjá mér. Í hnotskurn gerðist þetta:

  • Ég missti vinnuna.
  • Ég byrjaði að blogga.
  • Ég settist á skólabekk.
  • Ég fékk nýja vinnu.
  • Ég ferðaðist mikið, bæði innanlands og utan.

Af þessu má sjá að árið var þrátt fyrir allt gott - það var í öllu falli engin lognmolla. "Det rör på sig" eins og sænskurinn segir. Það er stundum sagt að í öllum breytingum felist tækifæri. Það er auðvitað ekki spurning að það á við í mínu tilviki. Breytingarnar hafa þrátt fyrir allt orðið til góðs, og maður kemur öflugari og sterkari út úr þessu öllu.

Þegar einhver annar en maður sjálfur ákveðum að maður skula hætta í starfi sem maður hefur helgað sig um nokkura ára skeið og telur sig ekki vera búinn að ljúka verkefninu sem manni var falið verður maður súr. Ergilegur og pirraður. Sár. Sérstaklega vegna þess hvernig að málum var staðið. Þetta tekur sinn toll, maður dregst með þetta í hugarfylgsninu hvort sem manni líkar það betur eða ver, svo það er eins gott að taka sig núna til og hreinsa þennan ófögnuð út í eitt skipti fyrir öll. Einhver frægur maður sagði einhvern tíma eitthvað á þá leið að eftir því sem hann kynntist mönnunum betur þeim mun vænna þætti honum um hundinn sinn. Það getur vafalaust átt við í mínu tilviki þegar misvitrir sveitarstjórnarmenn eru annars vegar, einkum þeir sem nýlega höfðu komist í meirihluta en hrökkluðust síðan úr embætti vegna aulaháttar og lélegra vinnubragða.

Það er dapurlegt að fylgjast með gamla vinnustaðnum og sjá hvernig hver höndin er upp á móti annarri og menn í endalausum hjaðningarvígum. Hvenær ætlar þessu ástandi að linna? Hvernig stendur á því að eigendur þessa fyrirtækis láta endalaust reka á reiðanum, af hverju er ekki gripið til markvissrar mótspyrnu og þróuninni snúið við? Þegar maður hittir gamla vinnufélaga og spyr hvernig þeir hafi það og hvað sé að frétta, eru helstu svörin þessi:  ".... æi þetta er alveg skelfilegt ástand" eða "... nú bíður maður eftir að komast á eftirlaun" eða "... sennilega verður þetta aldrei gott" og fleira í þeim dúr. Skattborgarar höfuðborgarsvæðisins borga hátt í tvo miljarða króna á ári með þessum rekstri - og enginn segir neitt, enginn gerir neitt. Allir sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu (með örfáum undantekningum) eru meira og minna algjörlega áhugalausir um þessa starfsemi og á meðan flýtur fleyið sofandi að feigðarósi. Það er ekki að búast við glæstum sigrum og góðum árangri meðan aðstæður eru eins og raun ber vitni. Það er hins vegar leið út úr þessum ógöngum, það þarf einungis að taka á málunum á viðeigandi hátt og taka stefnumarkandi ákvarðanir sem losa fyrirtækið úr þessum heljargreipum. Vonandi tekst það áður en það verður of seint.

Og hana nú.

Að öðru leyti er gott ár að baki. Frábært að vera kominn í nám, MBA námið er í senn gefandi og krefjandi. Einstaklega skemmtilegur og fjölbreyttur hópur frábærra einstaklinga sem leggur stund á námið og maður kynnist mörgu góðu fólki og stofnað er til vináttu sem maður hefur á tilfinningunni að eigi eftir að endast manni út lífið. Nýtt starf er skemmtilegt og spennandi, þó algjörlega ólíkt öllu sem ég hefur áður fengist við. Ég hlakka til að takast á við verkefnin, þau eru fjölbreytt, krefjandi og spennandi. Samstarfsfólkið er frábært - valinn maður í hverju rúmi.

Ég tek fagnandi á móti nýju ári, sem vonandi felur í sér fullt af spennandi tækifærum og skemmtilegum verkefnum. Það verður gaman. Gleðilegt ár!

 


Gleðileg jól!

jólakveðja
mbl.is Ferðamenn aftur til Betlehem
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Botninum náð - nú er það bara upp á við

Nú er stystur sólargangur - vetrarsólshvörf. Það mun vera nákvæmlega útreiknað að vetrarsólhvörf í ár verða kl. 06:08 þann 22. des. Eftir það tekur daginn að lengja að nýju, uns hámarkinu er náð um sumarsólstöðlur á Jónsmessu, þegar sól er hæst á lofti og lengstur sólargangur. Fyrir marga er þessi árstími án efa erfiður, ekki síst þegar tíðarfarið er eins og verið hefur undanfarið, rigning og dimmt. Það er bara að vona að það taki að birta til um leið og daginn tekur að lengja.

Góður vinur býður til fagnaðar af þessu tilefni, og auðvitað verður veislan haldin á hárréttum tíma, um kl. 6 að morgni hins 22. desember. Það verður ekki í kot vísað á þeim bænum frekar en fyrri daginn. Boðið er "háheiðið og rustikal, með síld og Rúbba, bjór og Áka á borðum". Skiptir engu máli þótt þessi tími dagsins sé, það er viðbúið að vel verði mætt.

Með þessum orðum óska ég lesendum mínum gleðilegra jóla. Megið þið eiga notalegar og ljúfar stundir um hátíðarnar, njótið tilverunnar og takið með opnum hug á móti jólaboðskapnum. Leyfum jólabarninu innra með okkur að eiga sitt örugga skjól í hugum okkar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband