Ferðaþjónustan og Strætó

Fram að þessu hef ég ekki lagt orð í belg um Strætó bs., hvorki varðandi brotthvarf framkvæmdastjórans né heldur framkvæmd við breytingu á Ferðaþjónustu fatlaðra. Ég starfaði sem framkvæmdastjóri hjá Strætó bs. frá stofnun 2001 fram í byrjun árs 2007, og tel mig því þekkja þessa starfsemi nokkuð vel frá fyrstu hendi. Gagnrýni á sannarlega rétt á sér í þessu máli öllu, og skiljanlegt er að fólki sé mikið niðri fyrir. Að mínu mati er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að gagnrýni sem byggist á stóryrðum og fullyrðingum sem e.t.v. eiga ekki við rök að styðjast er verst fyrir þjónustuna sjálfa og ekki síst skjólstæðinga hannar. Ég mundi fyrst af öllu fara varlega í stóryrði og fullyrðingar, frekar beina kröftunum að því að komast að raun um hvað hefur farið úrskeiðis og hvernig skuli fyrirbyggt að atvik sem það sem gerðist á miðvikudag geti endurtekið sig.

Ferðaþjónusta fatlaðra á sér langa og farsæla sögu innan SVR og síðar Strætó bs. Það er þvi ekki eins og þjónustan hafi fyrst núna verið fengin Strætó bs. til umjsónar. Upphafið má rekja til ársins 1978 þegar Kiwanis hreyfingin efndi til söfnunar fyrir sérútbúnum bíl til flutninga á fólki með fötlun. Fljótlega var síðan samið við Reykjavíkurborg, um að SVR sæi um aksturinn og starfsemina. Upp frá því var bílunum fjölgað, en þeir voru í eigu Reykjavíkurborgar, starfsfólkið voru starfsmenn SVR. Það fyrirkomulag færðist síðan yfir til Strætó bs. þegar byggðasamlagið var stofnað og SVR lagt niður. Þá hélst Strætó bs. áfram að aka skjólstæðingum Reykjavíkurborgar, en fyrirkomulag hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu var óbreytt (það byggðast á samningum við verktaka).Um síðustu áramót tók svo í gildi nýtt fyrirkomulag þar sem framkvæmdin (aksturinn) á öllu höfuðborgarsvæðinu var boðin út. Öll aðildarsveitafélög Strætó bs. nema Kópavogur voru aðilar að þessu nýja fyrirkomulagi og ákveðið að verkið skyldi boðið út þannig að bílarnir yrðu í eigu verktaka og bílstjórarnir starfsmenn verktakafyrirtækisins. Að auki var samið við leigubílastöð um þann akstur sem ekki næst að sinna með flota verktakans, á sérstaklega við um þá notendur þjónustunnar sem ekki þurfa á sérútbúnum farartækjum að halda. Það fyrirkomulag hefur verið við líði hjá Ferðaþjónustu fatlaðara mörg undanfarin ár.

Það er auðvitað á ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra Strætó bs. hvernig að þessari framkvæmd var staðið. Eftir á að hyggja tel ég að rangar ákvarðanir hafi verið teknar um framkvæmd breytingarinnar, enda ýmis gagnrýni komið fram þar að lútuandi. Það var ákveðið að ráðast í grundvallaruppstokkun á allri þjónustunni í einu lagi á efriðasta árstímanum. Fyrirtækið bar ekki gæfu til að nýta sér reynslu og þekkingu þeirra starfsmanna sem fyrir voru og þekktu m.a. sérþarfir skjólstæðinganna út og inn. Talsverð brögð voru víst að því að þær upplýsingar skiluðu sér seint og illa, og ekki nægjanlega nákvæmar. Það hlýtur að vera verðugt rannsóknarverkefni með hvaða hætti þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins stóð að þessari breytingu, hvernig hann hagaði samráði við það starfsfólk sem gleggst þekkti til starfseminnar og hvort hann hafi farið gegn ráðleggingum þeirra. Eftir á að hyggja hefði verið skyndsamlegt að innleiða fyrst hið nýja tölvukerfi með því starfsfólki sem til staðar var og hafði alla þekkinguna, áður en nokkuð annað var gert. Þegar sú breying væri gengin um garð væri eðlilegt næsta skref að bjóða aksturinn út og um leið tryggja hnökralausa yfirfærslu á þjónustunni frá Strætó bs. yfir til verktakans. 

Að lokum skulum við ekki gleyma því að megin tilgangur breytinganna á Ferðaþjónustunni um síðustu áramót var stórbætt þjónustustig, þ.e. að í stað þess að þurfa að panta ferð með sólarhrings fyrirvara má nú panta ferð með 2ja klukkustunda fyrirvara. Stöndum vörð um þessa mikilvægu þjónustu og köllum þá til ábyrgðar sem ábyrgðina bera. Ég er þeirrar skoðunar að það sé heppilegt fyrirkomulag að aðskila umsjón og umsýslu frá framkvæmdinni, með því móti er tryggt að hagkvæmustu lausnirnar fáist hverju sinni í útboði. Með því er ég ekki að segja að verðið eigi að troða niður í svaðið, þvert á móti á að skilgreina útboðskaupin á þann hátt að tryggt verði að þjónustan sem keypt er af verktaka fylgi verkferlum, standist gæðakröfur, gerð sé krafa um nauðsynlega þekkingu ökumanna gagnvart mismunandi þörfum skólstæðinganna o.s.frv. 


mbl.is Stúlkan sem sat ein í bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Ágeir, góður pistill.

Að semja við City taxi (eins og ég hef frétt) um framkvæmd þjónustunnar þykir mér vera dómgreindarskortur í meira lagi. 

Lægra verður ekki komist í vali á leigubílum.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.2.2015 kl. 17:53

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Leiðrétting. Ásgeir vildi ég skrifað hafa.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 5.2.2015 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband