Færsluflokkur: Bloggar

Kraftaverk - barnið bjargaðist

Á Sólvangi gegnt Eyrarbakka búa þau Elsa og Pjetur vinir okkar, ásamt Siggu dóttur sinni, Grétari sambýlismanni hennar og Bertu Sóley sem fæddist langt fyrir tímann í febrúar. Tvíburasystir hennar lifði einungis í 6 daga eftir að hafa fengið heiftarlega sýkingu. Sýkingin uppgötvaðist hjá Bertu Sóleyju áður en hún var komin á alvarlegt stig svo það tókst að gera ráðstafanir í tæka tíð. Nú er Berta Sóley komin heim, búin að ná fæðingaþyngd og dafnar eðlilega.

Í dag vildi svo ótrúlega til að foreldrarnir voru rétt ný búin að taka barnið úr vöggunni þegar skjálftinn reið yfir. Allt lék á reiðiskjálfi, lausamunir hentust um allt og ekki vildi betur til en svo að kommóða féll ofan á vögguna. Það er ekki gott að segja hvernig blessuðu barninu hefði reitt af ef það hefði enn verið í vöggunni. Mikil guðs mildi var að hún var komin í arma móður sinnar þegar þessi ósköp dundu yfir. Ég hef þá trú að Bertu Sóley sé ætlað mikilvægt hlutskipti í þessu jarðlífi.


mbl.is Forgangsmál að tryggja öryggi íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

14. sæti - meira og minna allt fyrirséð

Man núna af hverju ég hef ekki haft áhuga á að fylgjast með þessari keppni mörg undanfarin ár, þetta er allt meira og minna samkvæmt bókinni og næstu nágrannar gefa hverjir öðrum flest stig. Spádómurinn var þó ekki alvitlaus, munaði þremur sætum.

Kattarkonan frá Svíþjóð fer sennilega í af-strekkingu fyrir næstu keppni.

Okkar fólk stóð sig með prýði, geisluðu af gleði og orku. Það bara dugar ekki í þessari keppni, né heldur frambærilegt lag. Verður ekki stuð í öllum eurovision partýum kvöldsins?


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkur stjórnmálamaður hættir

Ken Livingstone er einn af merkilegustu stjórnmálamönnum samtímans. Hann er stjórnmálamaður sem þorir og er trúr sannfæringu sinni. Hann lyfti Grettistaki í almenningssamgöngum í London, en líklegast verður hans einna helst minnst fyrir að koma á s.k. þrengslaskatti (e. Congestion Charges) í London. Með því móti tókst að stemma stigu við umferð einkabíla um miðborg London og þannig draga stórlega úr henni. Þessi ákvörðun var í fyrstu mjög umdeild en eftir því sem leið á hefur hún notið sífellt meiri stuðnings almennings.

Það verður athyglisvert að fylgjast með Boris, hinum nýja borgarstjóra og verkum hans. Það er ekki einfalt að feta í fótsport Livingstone, trúlegt er að margir Lundúnarbúar eigi eftir að sakna hans og verka hans.


mbl.is Borgarstjóraskipti í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valborgarmessa

1. maí er merkilegur dagur fyrir margra hluta sakir. Þekktastur er hann fyrir að vera alþjóðlegur baráttudagur verkamanna. Í heiðnum sið var þessi dagur gjarnan haldinn hátíðlegur sem n.k. sumardagurinn fyrsti. Í kristnum sið hefur hin heilaga Valborg fengið þennan dag sér til heiðurs. Í Svíþjóð er hann jafnan haldinn hátíðlegur, þó einkum daginn áður á "Valborgsmässafton". Á námsárunum í Uppsölum var gaman að vera þennan dag, því nákvæmlega kl. 15 gekk rektor fram á svalir háskólabókasafnisins þar sem mannfjöldinn hafði safnast saman. Allir höfðu með sér stúdentshúfuna sem þeir settu upp um leið og rektorinn gerði slíkt á svölunum. Að því búnu hlupu allir eftir Drottningagötu niður að Fyrisánni, sem rennur í gegnum borgina miðja. Dagurinn var yfirleitt tekinn snemma á þessum hátíðisdegi stúdenta, fólk safnast saman víða um bæinn og fær sér síld, öl og snaps. Svo er dansað og sungið fram eftir nóttu. Notalegar þessar minningar sem rifjast upp á þessum degi.

Það fer vel á því að láta fylgja með skilgreiningu vina okkar og frænda í Færeyjum á þessum merka degi: Valborgarmessa er 1.mai. Dagurin eitur eftir einari Valborg, ið var borin í heim í Wessex í Onglandi ár 710 og doyði 25. februar 779. Hon var kosin halgimenni 1. mai 779, og hesin dagur er minnisdagur hennara í Norðurlondum. Í katólsku kirkjuni er tað tó deyðsdagur hennara, 25. februar, ið verður minnisdagur. Møguliga er upprunin til dagin ein várfagnaður, sum í víkingatíð hevur verið hildin umleið 25. februar. Dagurin verður so helst fyrst knýttur at deyðsdegi Valborgar, og eftir at hon er kosin halgimenni 1. mai, flytur fagnurin til henda dag. Í Svøríki verður dagurin hildin sum studentadagur, og í Finnlandi verður dagurin hildin við fagnaði, ið svarar til nýggjársaftan. (Heimild: Wikipedia)

Til hamingju með daginn góðir hálsar, til sjávar og sveita.


Þetta reddast

Manni dettur helst í hug vanþroskað og óábyrgt samfélag sem lætur jafn mikilvæg mál og hér um ræðir komsast í þá stöðu sem raun ber vitni. Á síðustu metrunum ranka menn loksins við sér þegar allt stefnir í óefni. Nú stóla menn líklegast á gamla góða trikkið - þetta reddast.
mbl.is Styttist í niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómissandi fólk

Allsnakinn kemurðu í heiminn
allsnakinn ferðu burt
frá þessum dauðu hlutum
sem þér fannst þú hafa dregið á þurrt

og eftir lífsins vegi
fer það sem hann fer
og veistu á miðjum degi
dauðinn, tekur mál af þér

ofmetnastu ekki
af lífsins móður mjólk
kirkjugarðar heimsins
geyma ómissandi fólk
(KK)
mbl.is 21 handtekinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meinhornið - nöldur og tuð

Mér finnst Íslendingar stundum miklir smáborgarar og heimóttalegir svo ekki sé meira sagt. Hverjar eru nú aðalfréttirnar þessa dagana?

  • Nokkrir sjálfskipaðir töffarar á vörubílum taka sér völd sem ekki nokkurt einasta lýðræðislegt nútímasamfélag mundi láta viðgangast. Hverju eru þeir að mótmæla? Erlendum verðhækkunum og veikingu gengis. Svo finnst þeim allt í lagi að stífla allar samgönguæðarnar, svarið sem forsprakkinn gaf aðspurður að því hvort þetta hefði ekki hættu í för með sér: "Lífið er alveg stórhættulegt"
  • Verktaki fór á hausinn fyrir mörgum mánuðum og hvarf frá hálfkláruðu verki á Reykjanesbrautinni. Síðan þá er hvert óhappið á fætur öðru, nokkrir búkkar og blikkljós eru settir upp til að beina umferðinni fram hjá þrengingum allan veturinn.
  • Ein af mest lesnu fréttunum á mogganum í dag er að nú sé búið að finna sökudólginn við andremmu.

Það vantar uppbyggilegar umræður um það sem skiptir máli. Uppbyggilega samfélagsábyrga umræðu t.d. um framtíð borgarinnar, lausn á umferðavandanum, áherslur í skipulagsmálum og almennt um mál sem skipta okkur máli sem hér búum og störfum.

 Er ekki rétt að lyfta umræðunni upp á ögn hærra plan? (eins og skáldið sagði forðum)


Eldhugi

Fór og hlustaði á fyrirlestur Al Gore í Háskólabíói í morgun. Maðurinn er greinilega mjög vel þjálfaður í flutningi erindis síns, auk þess sem hann er með frábæra myndasýningu með. Fyrirlesturinn var langur, líklegast u.þ.b. 1,5 klst. Gore flutti mál sitt á sannfærandi hátt og náði að fanga athygli áheyrenda sinna allan tímann. Hann hefur greinilega kynnt sér málefnið vel, þ.e. hlýnun andrúmsloftsins, loftslagsbreytingar, veðurfarsbreytingar, gróðureyðingu, hækkandi sjávarmál, bráðnun jökla o.s.frv. 

Mér finnst líklegt að fyrirlestur Al Gore veki fólk sem á hlýðir til umhugsunar. Það er svo annað mál hversu margir geri eitthvað meira en bara að staldra við stundarkorn. Meginboðskapur Gore var nefnilega sá að allir bera ábyrgð og mikilvægt að til komi grundvallarbreyting í hegðun og afstöðu alls þorra almennings um víða veröld. Það er líka merkilegt að fylgjast með úrtöluröddunum sem alltaf láta á sér kræla þegar einhver kemur með óþægilegan boðskap, þegar rökin skortir bregða menn á það ráð að segja að slíkt sé hræðsluáróður.

Ég er þeirrar skoðunar að allt það fólk sem fyllti Háskólabíó í morgun hljóti að vera sammála um að breytingar í lífríkinu eru umtalsverðar og mikilvægt sé að sporna við. Hver er sjálfum sér næstur í þeim efnum eins og öllum öðrum.


Að bregðast við hækkunum

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast undanfarna daga með umræðunni um hækkað eldsneytisverð og þeim mótmælum sem gripið hefur verið til. Menn eru duglegir að býsnast yfir hækkandi eldsneytisverði og hversu mikil áhrif það hafi á útgjöldin, hvort heldur er um að ræða rekstrarútgjöld atvinnufyrirtækjanna eða heimilisútgjöld almennings. Ég hef vissa samúð með sjónarmiðum atvinnubílstjóra, þetta er jú þeirra atvinnustarfsemi og hækkandi rekstrarkostnaður hefur áhrif á afkomuna nema honum sé velt yfir á verðlagningu þjónustunnar. Það er hins vegar erfiðara að skilja hvað býr að baki mótmælum jeppamanna, sem ég hygg eru langflestir að stunda akstur jeppa sinna sem tómstundagaman. Þeir jeppamenn sem hins vegar eru í atvinnustarfsemi (t.d. ferðaþjónustunni) falla auðvitað undir sama hatt og aðrir atvinnubílstjórar.

Það hefur verið ágætlega upplýst m.a. af hálfu forsætisráðherrra og fjármálaráðherra að álögur hins opinbera á eldsneytisverð hefur verið í formi fastrar krónutölu um nokkra hríð. Það þýðir með öðrum orðum að þegar eldsneytisverðið hækkar (t.d. vegna hærra innkaupsverðs) þá helst gjaldtaka ríkisins óbreytt og þar með rýrnar hún hlutfallslega eftir því sem útsöluverðið hækkar. Menn hafa auðvitað misjafna skoðun á því hvort sú skattlagning sé réttmæt eða ekki og einnig hvort þessi markaði tekjustofn skili sér í vegaframkvæmdir eins og lögin segja til um.

Í allri þessari umræðu um hækkað eldsneytisverð hefur ekki verið rætt mikið um hvort olíufélögin hafi tekið álagningu sína til endurskoðunar. Það hlýtur auðvitað að vera fyllilega réttlát spurning, einkum í ljósi þess að álagning þeirra ágætu fyrirtækja er væntanlega í formi prósentu en ekki fastrar krónutölu. Það má því gera ráð fyrir að með hærra útsöluverði fái þau félögin sífellt meira í sinn hlut og fitna því nánast eins og púkinn á fjósbitanum. Það var kannski það sem fékk N1 til að lækka verðið í dag - þetta er jú bara einn dagur milli kl. 8 og 19, svo hækkaði verðið aftur að nýju. Þá er væntanlega búið að slá á þá umræðuna, N1 og allir hinir sem selja eldsneyti komnir í tölu þeirra sem bera ábyrgð og bregðast við mótmælum í þjóðfélaginu.

Síðast en ekki síst sakna ég umræðu meðal almennings um til hvaða aðgerða sé hægt að grípa hjá hverjum og einum til að lækka útgjöld heimilanna vegna aukins eldsneytisverðs. Það er án efa raunhæft fyrir marga að draga úr akstrinum, t.d. með því að vinnufélagar sameinist í bíl til og frá vinnu eða þá fyrir þá sem það geta ganga, hjóla eða taka strætó. Að ekki sé nú minnst á almennt skipulag í þessum efnum, fækka markvisst ferðum á bílnum með því að skoða ferðaþarfir sínar vandlega ofan í kjölinn. Það er býsna mikið hægt að gera til að spara í þessum efnum - þótt svo auðvitað sé alveg sjálfsagt að vekja athygli með mótmælum einnig.


mbl.is Örtröð á bensínstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vor í loftinu

Þrátt fyrir að páskar séu snemma í ár leynir sé ekki að það er komið vor í loftið. Sólin skríður smátt og smátt hærra upp á himininn og geislar hennar verma sífellt betur. Vorjafndægur rétt nýliðin, framundan er stórkostlegur tími með birtu og yl. Farfuglarnir fara að láta sja sig og fuglasöngur fer að verða daglegur viðburður á ný.

Gott páskafrí að baka sem var nýtt til að hitta fjölskyldu og vini auk þess sem tíminn var vel notaður í heimanámi. Ekki veitir af, því enn á ný eru námskeiðslok í vændum með tilheyrandi verkefnaskilum og prófum. Það er ekki laust við að þetta sé aðeins farið að taka í - en á hinn bóginn bæta frábærir félagar og skemmtileg viðfangsefni það allt saman upp. Reikningshald og rekstrarstjórnun verður þemað næstu 2 vikurnar - eftir það taka við tvö siðustu námskeiðin áður en fyrra árinu í náminu lýkur: mannauðsstjórnun og fjármál fyrirtækja. Spennandi tímar framundan - vorið er í loftinu bæði í náttúrinni og mannlífinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband