Borgarskipulag í brennidepli

Það er afar áhugaverð sýningin sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur, sem er til húsa í gamla Hafnarhúsinu við Tryggvagötu. Þar eru nú til sýnis tillögur sem bárust í hugmyndasamkeppni um Vatnsmýrina sem Reykjavíkurborg efndi til og kunngerði úrslitin á dögunum.

Verðlaunatillagan er mögnuð. Hún nær að fanga á einstakan hátt hina einu sönnu Reykjavíkurstemmingu um leið og til verður áhugaverð nútímalausn sem er til þess fallin að ganga vel upp við umhverfi sitt. Það er væntanlega ekki einfalt að bæta heilu borgarhverfi við, ekki síst eins og í þessu tilviki svo nálægt miðbænum eins og raun ber vitni. Það er líka ánægjulegt til þess að vita hversu góð samstaða náðist um tillöguna um leið og það er athyglisvert að verða vitni að því hversu umræðan um hvort flugvöllurinn eiga að vera eða fara kemst á vitrænna stig en áður.

Sem áhugamaður um samögnur tekur maður eftir að margir góðir möguleikar opnast með þessari tillögu. Varpað er fram hugmynd um léttlestir og einnig tengingu yfir á Kársnesið með göngum sem mundi opna leið fyrir lestarsamgöngur til Keflavíkur.

Með tilkomu "102 Reykjavík" skapast ný sóknarfæri fyrir Reykjavík, ekki síst í samgöngulegu tilliti. Það verður áhugavert að fylgjast með umræðunni og hvernig unnið verður áfram með tillöguna. Ekki síst verður fróðlegt að sjá hvernig skipulagsyfirvöld sjá fyrir sér tenginu þessa nýja hverfis við önnur hverfi höfuðborgarsvæðisins, t.d. hvort eigi að aðlaga þetta nýja hverfi "bílaborginni Reykjavík" eða hvort sú ágæta bílaborg verði aðlöguð þessu nýja hverfi og þeim áhugaverðu möguleikum sem tillagan hefur upp á að bjóða.

Nú er bara að vona að sæmilegur stöðuleiki fari að nást í borgarpólitíkinni svo unnt sé að nýta kraftana í uppbyggilega umræðu, ekki síst um jafn mikilvæg mál og skipulagsmál og samgönumál. Það eru spennandi tímar framundan á þessum vettvangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband