Laugavegurinn

Um daginn átti ég samtal við starfsmann erlendrar ferðaskrifstofu sem hingað kom til að ganga frá dagskrá fyrir hóp sem hingað kemur á hans vegum í sumar. Við fórum vítt og breitt, skoðuðum veitingastaði, hótel, kynntum okkur afþreyingu af ýmsu tagi og þar fram eftir götunum. Þegar kom að því að taka ákvörðun um hótel fannst honum ekki skipta öllu máli að vera nálægt miðbænum, enda var hann búinn að fara þar um og sá í sjálfu sér ekkert áhugavert þar. Hann minntist sérstaklega á að það væri lítið spennandi fyrir hópinn að vera í miðbænum þar sem ekkert væri um göngugötur og áhugaverð svæði þar sem fólk væri í fyrirrúmi. Þessi orð urðu mér talsvert umhugsunarefni, sérstaklega eftir að hafa farið með viðkomandi hefðbundinn "city sightseeing tour" þar sem m.a. miðbæ Reykjavíkur eru gerð góð skil.

Kaupmenn við Laugaveginn mundu líklegast gera best í því að fá borgina til að loka götunni fyrir bílaumferð og byggja t.d. létt glerþak yfir götuna sem hægt væri að opna á góðviðrisdögum. Tækni nútímans hlýtur að ráða við slíkar lausnir. Þetta kallar að sjálfsögðu á aðgerðir á aðliggjandi svæðum, t.d. varðandi bílastæði, gönguleiðir, almenningssamgöngur o.fl. Reynsla margra borga víða um Evrópu er sú að fyrst eftir að bílaumferð var takmörkuð tóku miðborgirnar að blómstra.

Það er ekkert varið í að ganga um Laugaveginn eða annars staðar í miðbænum þegar stöðug bílaumferð fer hjá með tilheyrandi úblæstri og hávaðamengun, að ekki sé nú minnst á allan þann fjölda bíla sem lagt er ólöglega, m.a. upp á gangstéttum. Nú er lag fyrir borgaryfirvöld og hagsmunaaðila miðbæjarins að snúa saman bökum og koma með raunhæfa lausn sem gerir miðbæinn eftirsóttan að nýju. Hún er miklu einfaldari en marga grunar og er sannarlega til þess fallin að efla svæðið, bæði kaupmönnum, veitingahúsaeigendum, almenningi og borgaryfirvöldum í hag.


mbl.is Kreppa á Laugavegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband