Kraftaverkin gerast enn

Sem betur fer berast jákvæð og góð tíðindi, mitt í öllu fréttaflóðinu af versnandi efnahag, slysförum, aukinni verðbólgu og hækkun stýrivaxta. Ég skrifaði hér á síðuna í nóvember s.l. um Sigtrygg vin minn í New York sem þá hafði greinst með krabbamein. Annað nýrað þurfti að fjarlægja auk þess sem blettir voru komnir í bæði lungun og lifrina. Eftir uppskurðinn fór hann í tvær lyfjameðferðir með nokkurra vikna millibili. Þessi meðferð kallast IL2 og byggir á náttúrulegum efnum sem mér skilst að líkaminn framleiði sjálfur í einhverju mæli. Þessum efnum er sem sagt dælt í líkama sjúklingsins í miklu magni meðan á meðferð stendur með tilheyrandi aukaverkunum. Auk hefðbundinna fylgikvilla eins og almenns slappleika, ógleði og slíkum hlutum fylgir þessu einnig mikill kláði. Það var því mikið á sig lagt.

Í gær átti ég langt og gott samtal við Sigtrygg í símann. Hann sagði mér að hann hefði nú verið að fá niðurstöður úr sneiðmyndatöku sem hann fór í á dögunum, þar sem staðfest var það sem komið hafði fram í síðustu læknisskoðun að öll meinvörp væru á bak og burt. Það lítur því allt út fyrir að kappinn sé læknaður og þurfi ekki að hafa meiri áhyggjur af því frekar en hver annar að fá þennan sjúkdóm að nýju. Til öryggis mætir hann í eftirlit nokkrum sinnum út árið, en ef ekkert óvænt kemur upp á (sem allir vona að sé hæpið úr því sem komið er) ætti hann að vera eins og nýr eftir þetta allt saman.

Sigtryggur sýndi það og sannaði í veikindum sínum að samstaða fjölskyldunnar og einbeittur vilji allra um að ná bata skiptir máli. Þau hafa öll tekið á málum með aðdáunarverðum hætti svo til fyrirmyndar er. Hann hefur einnig verið duglegur að halda okkur vinum sínum og ættingjum vel upplýstum um gang mála gegnum bloggsíðu sína, sem hefur verið ómetanlegt fyrir okkur sem erum svona fjarri honum á erfiðum tímum.

Það er stórkostlegt að upplifa jákvæðar fréttir þegar krabbamein er annars vegar og verða vitni að því þegar fólk nær góðum bata. Fyrir nokkrum árum var sett samasem merki milli krabbameins og dauðadóms, nú á tímum framfara í læknavísindum er öldin önnur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Gott að heyra þegar allt gengur vel.
Mataræði skiptir líka miklu máli, ekki síst þegar svona alvarlegir sjúkdómar greinast. Ég hef mikla trú á mataræðinu sem Jane Plant mælir með. Hún læknaði sjálfa sig af brjóstakrabbameini þegar læknarnir voru búin að gefast upp. Hún skrifaði þessa bók.

Heidi Strand, 13.4.2008 kl. 22:18

2 Smámynd: Heidi Strand

Fyrirgefðu, þetta var önnur bók. Hér er Jane Plant.

Heidi Strand, 13.4.2008 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband