Færsluflokkur: Bloggar

Hægan Electra

Enn á ný stendur til að virkja með látum, að þessu sinni í náttúruperlunni og útivistarsvæðinu í Henglinum.  Nokkrir kollegar mínir úr Félagi leiðsögumanna hafa opnað vefsíðu, þar sem þeir vekja athygli á þessum áformum.  Það er full ástæða til að hvetja fólk til að kynna sér málið, mikilvægt er að standa vel og vandlega að ákvörðunum sem þessum svo ekki verði um óafturkræf spjöll á þessu einstaka svæði.  Slóðin á vef þeirra er hér

Um er að ræða s.k. Bitruvirkjun, sem á að rísa rétt vestan við Ölkelduháls.  Það sem er sérstaklega aðfinnsluvert er að Orkuveitan lét sjálf kosta mat á umhverfisáhrifum, en fyrirtækið á augljóslega hagsmuna að gæta í þessu máli og því afar ótrúverðugt að slíkur háttur skuli hafður á.

Við leiðsögumenn sem höfum farið með erlenda ferðamenn um Hengilssvæðið vitum e.t.v. betur en margir aðrir hvers kyns náttúruperla svæðið er.  Það er einstakt að komast í slíkt umhverfi einungis steinsnar frá höfuðborginni.  Svæðið hentar frábærlega til útiveru, gönguferða, baða í heitum lindum o.m.fl.  Það hlýtur að skipta máli að horfa einnig á þessa hlið málsins, ekki síst í ljósi þess að ferðamönnum fjölgar stöðugt og þeir sem hingað sækja eru ekki síst að leita eftir ósnortinni náttúru, einkum svæðum sem hafa sérstöðu á borð við Hengilssvæðið.  Stigum varlega til jarðar í þessu máli, eins og leikritaskáldið sagði:  Hægan, Electra....

 


mbl.is Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Próflok

Í dag var prófdagur í MBA náminu.  Við sátum við frá kl. 9 - 12 og tókumst á við ýmis viðfangsefni innan hagfræðinnar, bæði rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði.  Flestum þótti prófið frekar snúið, og tíminn naumur.  Það verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður.  Um næstu helgi hefjast ný námskeið, sem standa fram í janúar.  Annað er í markaðsfræði, en hitt fjallar um greiningu viðfangsefna og ákvarðanir. 

Það er mikill kraftur í hópi MBA nemenda.  Við héldum smá fund að loknu prófi, þar sem við huguðum að félagslífinu, hagsmunamálum okkar sem nemenda og ýmsu fleiru.  Það verður áhugavert að vinna með þessum hópi næstu tvo veturna, samheldnin og félagsandinn er í góðum gír.

Framundan er að taka að sér verkefni í leiðsögn, verð með sænska matvörukaupmenn í nokkra daga og fer með þá um.  Það verður fróðlegt að spjalla við þá um bransann, og hvernig kaupin gerast á eyrinni austur í Svíaríki.  Það er alltaf áhugaverðar samræður um land og þjóð við ferðamennina, þeir eru áhugasamir um margt, einkum það sem snýr að samanburði í daglega lífinu.  Ekki eru þeir síðir hrifnir af landinu og náttúrunni, og sumir hverjir eru mjög móttækilegir fyrir alls konar fróðleik.  Jarðfræðin skorast oftast hátt, en einnig ýmislegt er varðar landshagi, menningu og sögu. 

Góða helgi kæru lesendur!


Persónuleikapróf - magnaðar niðurstöður

Það er bæði skemmtilegt og áhugavert að stunda MBA námið, og velta fyrir sér ýmsum hliðum fræðanna.  Nú er að ljúka námskeiði sem fjallar um skipulagsheildir og stjórnun, þar sem fjallað er um stjórnun í víðum skilningi, t.d. mannauðsstjórnun, breytingastjórnun, viðskiptasiðferði, stjórnunarstíla o.m.fl.

Í síðasta tímanum var m.a. fjallað um ákvarðanatöku og atferli í fyrirtækjum.  Kennari okkar benti okkur fyrir tímann á persónuleikapróf kennt við Meyers - Brigg, og flestir í hópnum fundu prófið á netinu og tóku það sér til gamans.  Niðurstöðurnar voru síðan skoðaðar í tímanum af hópnum sameiginlega. 

Áður en að þessum tíma kom höfðu nokkrir einstaklingar í MBA hópnum lagt til að kosin yrði stjórn hópsins, nokkurs konar hagsmuna- og félagsráð nemendahópsins.  Ákveðið var að allir skyldu skrifa 3 nöfn á blað, og þeir sem efstir voru í kjörinu yrðu tilnefndir sem stjórn hópsins.  Niðurstöðurnar voru kynntar s.l. laugardag, þ.e. sama dag og fjallað var um ákvarðanatöku og atferli.  Þá kom hið merkilega í ljós, að 6 efstu einstaklingarnir í kjörinu voru allir með sömu niðurstöðu úr persónuleikaprófinu!   Tilviljun?  A.m.k. sagði kennari okkar að þessi niðurstaða kæmi sér ekki á óvart.......


Formannsþankar Stefnis

Eitt af áhugamálum mínum er kórsöngur.  Ég hef verið félagi í Karlakórnum Stefni til margra ára, þar fær maður að kljást við raddaðan söng og vera um leið í góðum félagsskap.  Eins og gengur og gerist með mörg félagasamtök er sífellt verið að brydda upp á nýjungum varðandi fjáröflun, og gengur misvel. 

Nýlega bauðst okkur Stefnismönnum að mæta á áhorfendapallana í skemmtiþætti Sjónvarpsins nokkur laugardagskvöld í röð, gegn því að fá nokkrar krónur á haus fyrir hvern sem mætti.  Málið var borið undir félagsmenn, fyrst í tölvupósti og síðan á kóræfingu, en fékk dræmar undirtektir. 

Formaður okkar sem jafnframt er hagyrðingur ágætur samdi af þessu tilefni og sendi okkur í tölvupósti í kvöld:

Upp hefur komið sá kvittur

að hver og einn Stefnistittur

afþakki teiti

í Efstaleiti

þótt bjóðist þeim bjór og snittur


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband