Nagandi óvissa

Nú hafa ný lög verið afgreidd á Alþingi og framundan hefst nýr kafli í efnahagslífi þjóðarinnar. Almenningur veit á þessu stigi lítið sem ekkert um hvaða þetta hefur í för með sér. Algjör óvissa ríkir fyrir fjölskyldurnar í landinu, hvort heldur um er að ræða þá sem tekið hafa lán til að fjármagna kaup á bílum og íbúðum eða þá sem eiga sparifé í bönkunum.

Það er staðreynd að um langt skeið hefur hið hefðbundna innlánsform bankanna ekki verið raunhæfur kostur, því hafa margir kosið að ávaxta fé sitt með öðrum hætti. Allir bankarnir hafa t.d. boðið upp á s.k. peningamarkaðssjóði sem gefið hafa mun betri ávöxtun en hefðbundnir innlánsreikningar. Nú er þessi sparnaður háður óvissu, því innlánstrygging stjórnvalda nær ekki til þessa forms. Það er algjörlega háð gengi bréfanna í þessum sjóðum hversu verðmæt inneignin er. Það verður því fróðlegt að fylgjast með þegar bankarnir opna á morgun hver þróunin verður með þessa sjóði. 

Það er mörgum spurningum ósvarað eftir daginn, atriðum sem hafa verið í umræðunni undanfarna daga. Virtir hagfræðiprófessorar hafa undanfarið lýst þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að skipta um forystu í Seðlabankanum, rætt hefur verið um upptöku Evru og sitt sýnist hverjum um ágæti krónunnar. Þessar spurningar hljóta að verða áleitnar á næstu dögum, svo ekki sé meira sagt. Forsætisráðherran talar um að gengi krónunnar sé óeðlilega lágt, það sé langt frá því sem kalla megi eðlilegt jafnvægisgengi. Það skyldi þó ekki vera að gengi endurspegli tiltrú markaðarins á stjórn efnahags- og peningamála? Vonandi auðnast þjóðinni að komast út úr þessum hremmingum, sem þó nánast enginn veit hverjar verða. Það læðist að manni sá grunur að stóri skellurinn eigi enn eftir að koma á daginn – hvenær sem það nú gerist og hver sem hann verður. Þá er mikilvægt að þjóðin treysti ráðamönnum sínum og stjórnvöldum, ekki síst yfirstjórn peningamálanna.

 


mbl.is Ný lög um fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónleikar á heimsmælikvarða

Ég stenst ekki freistinguna og rýf bloggþögnina e.t.v. fyrr en ég ætlaði. Ástæðan er einföld. Við hjónin fórum í Iðnó í kvöld og nutum þess að hlusta á tónleika Þórs Breiðfjörðs Kristinssonar söngleikjasöngvara ásamt Vigni undirleikara hans.

Þór er "gamall" rokkari sem gerði garðinn frægan á sínum tíma í Hárinu og Superstar áður en hann hélt utan og nam söngleikjasöng í virtum skóla í London. Eftir það átti hann glæstan feril á West End um hartnær áratugarskeið. Hann er nú fluttur til Kanada ásamt fjölskyldunni, búinn að kaupa sér hús uppi í sveit og því orðinn nokkurs konar "tónlistarbóndi".

Tónleikar þeirra félaga í kvöld voru sannarlega góðir. Þór fór á kostum í helstu perlum söngleikjanna, bæði þeirra gömlu að "westan" sem og nýrri og klassískra söngleikja eins og Hringjarinn frá Notre Dam og Vesalingarnir. Tilfinnaskalinn var þaninn til hins ítrasta sem og tónskalinn, sem spannar býsna breitt svið. Þór er sannarlega stórsöngvari í orðsins fyllstu merkingu, röddin bæði stór og mikil og túlkunin afar fáguð og listræn.

Það er full ástæða til að benda þeim sem eru á ferðinni á Hvammstanga þ. 15. júlí eða á Akureyri daginn eftir að skella sér á tónleika og hlýða á söng Þórs, því þar ætla þeir félagar einnig að troða upp. Heimasíða Þórs er hér.


Blogglok

Nú hyggst ég láta staðar numið og hætta bloggi í bili a.m.k. Aldrei að vita hvenær það verður svo opnað aftur.....

 kveðja


Strákurinn að standa sig

Gaman að vel skuli ganga hjá easyJet, enda minn maður að leggja sitt lóð á vogaskálarnar þar. Að hans sögn ríkir góður andi meðal starfsmanna félagsins og liðsheildin sterk.


mbl.is Farþegum easyJet fjölgar um 15,9%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsýn

Það glittir í land eftir langa og stranga siglingu. Senn lýkur fyrri hluta MBA námsins, nánar tiltekið með prófi laugardaginn 7. júní. Við hófum leikinn í kringum 25. ágúst s.l., svo þetta er orðin býsna langt og strangt úthald. Undanfarna daga og vikur hefur mannskapurinn lagt á sig mikla verkefnavinnu og prófundirbúning. Það verður ljúft að standa upp frá prófborðinu kl. 13 á laugardag, ganga út í sumarið, fagna áfanganum í góðum hóp og gleyma öllu erfiðinu um stund.

MBA námið hefur fyllilega staðið undir væntingum. Allir sem hafa hug á að efla færni sína, eru með háskólapróf og a.m.k. 3ja ára starfsreynslu og vilja takast á við stjórnunarstarf ættu að hugleiða nám þetta. Það nær yfir marga og mismunandi þætti sem nýtast vel í krefjandi störfum. Bakland Háskóla Íslands er traust og gott, fagmennskan er í fyrirrúmi.

Framundan er sumarleyfi bæði frá vinnu og námi. Ég er staðráðinn í að njóta þess út í ystu æsar.


Hvenær byrja verkin að tala?

Borgarstjórinn klifar stöðugt á því að hann og meirihlutinn þurfi vinnufrið til að láta verkin tala. Nú hefur hins vegar þverskurður þjóðarinnar talað, og það bara býsna skýrt.

Öðru vísi mér áður brá. Sjálfstæðisflokkurinn var stórveldi í Reykjavík og flaggskip flokksins á landsvísu. Enn á ný horfa stuðningsmenn flokksins hnípnir á hvernig fleyið flýtur sofandi að feigðarósi. Ekkert bólar á viðbörgðum hjá flokksforystunni, ekkert er að frétta af leiðtogamálum borgarstjórnarflokksins og enginn veit enn hver verður næsti borgarstjóri eftir einungis 10 mánuði.

Síðustu fréttir eru svo þær að nú tókst þeim að fá starfsmenn Orkuveitunnar upp á móti sér, því forstjórinn hefur fengið að taka pokann sinn. Maðurinn sem stýrði sameinginu Vatnsveitunnar, Hitaveitunnar og Rafmagnsveitunnar í Orkuveitu Reykjavíkur, verkefni sem vísast hefur ekki verið auðvelt viðureignar. Orkuveitan er athyglisvert fyrirtæki sem hefur náð góðum árangri, ekki síst með útrásaráætlunum sínum. Það er býsna merkilegur árangur þegar opinbert fyrirtæki er annars vegar. Það þurfti hins vegar greinilega að finna blóraböggul i hinu margumtalaða REI máli.

Hversu lengi skyldi þessi þróun halda áfram?

 


mbl.is Fylgi D-lista aldrei minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftaverk - barnið bjargaðist

Á Sólvangi gegnt Eyrarbakka búa þau Elsa og Pjetur vinir okkar, ásamt Siggu dóttur sinni, Grétari sambýlismanni hennar og Bertu Sóley sem fæddist langt fyrir tímann í febrúar. Tvíburasystir hennar lifði einungis í 6 daga eftir að hafa fengið heiftarlega sýkingu. Sýkingin uppgötvaðist hjá Bertu Sóleyju áður en hún var komin á alvarlegt stig svo það tókst að gera ráðstafanir í tæka tíð. Nú er Berta Sóley komin heim, búin að ná fæðingaþyngd og dafnar eðlilega.

Í dag vildi svo ótrúlega til að foreldrarnir voru rétt ný búin að taka barnið úr vöggunni þegar skjálftinn reið yfir. Allt lék á reiðiskjálfi, lausamunir hentust um allt og ekki vildi betur til en svo að kommóða féll ofan á vögguna. Það er ekki gott að segja hvernig blessuðu barninu hefði reitt af ef það hefði enn verið í vöggunni. Mikil guðs mildi var að hún var komin í arma móður sinnar þegar þessi ósköp dundu yfir. Ég hef þá trú að Bertu Sóley sé ætlað mikilvægt hlutskipti í þessu jarðlífi.


mbl.is Forgangsmál að tryggja öryggi íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

14. sæti - meira og minna allt fyrirséð

Man núna af hverju ég hef ekki haft áhuga á að fylgjast með þessari keppni mörg undanfarin ár, þetta er allt meira og minna samkvæmt bókinni og næstu nágrannar gefa hverjir öðrum flest stig. Spádómurinn var þó ekki alvitlaus, munaði þremur sætum.

Kattarkonan frá Svíþjóð fer sennilega í af-strekkingu fyrir næstu keppni.

Okkar fólk stóð sig með prýði, geisluðu af gleði og orku. Það bara dugar ekki í þessari keppni, né heldur frambærilegt lag. Verður ekki stuð í öllum eurovision partýum kvöldsins?


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðum við númer 11?

Flott hjá þeim í kvöld Eurobandinu, fumlaus og kröftugur flutningur. Ég sem hef ekki haft áhuga á að fylgjast með þessu í mörg ár - hver veit nema maður fylgist bara með á laugardaginn! Gaman að fylgjast með stemmingu á Dalvík, þar kunna menn greinilega að fagna og styðja vel við bakið á sínum manni.
mbl.is Ísland verður 11. í röðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðsögunám á háskólastigi

Endurmenntun Háskóla Íslands hefur nú ákveðið að bjóða upp á leiðsögunám á hausti komandi. Hér má sjá lýsingu á náminu. Leiðsögunám hefur til þessa verið kennt hjá Leiðsöguskóla Íslands sem er fóstraður hjá Menntaskólanum í Kópavogi, auk þess sem Ferðamálaskólinn hefur einnig boðið upp á sambærilegt nám.

Námið hjá Endurmenntun HÍ er 3ja anna grunnnám, 60 einingar. Það er því talsvert umfangsmeira en námið hjá hinum skólunum tveimur, en þar er um að ræða 2ja anna nám. Námið er þróað innan veggja Háskólans í samráði við ýmsa fagaðila, jafnt innan skólans sem utan. Leiðsögunám er afar áhugavert og skemmtilegt nám, sem veitir nemendum innsýn og heildarmynd um allt milli himins og jarðar sem gesti okkar fýsir að fræðast um. Áhersla er á land og þjóð, sögu, menningu, náttúrufar, jarðfræði, bókmenntir, listir, landshagi og hvaðeina annað sem áhugavert getur talist. Allt raðast þetta síðan saman í eina heildarmynd sem leiðsögumaðurinn kemur til skila á hinum ýmsu tungumálum eftir því sem við á.

Umsóknarfresturinn er runninn út, en mér er ekki grunlaust um að enn sé hægt að sækja um með það að markmiði að hefja námið á hausti komanda. Vert er að vekja athygli á því að námið er unnt að taka sem fjarnám.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband