Eldhugi

Fór og hlustaði á fyrirlestur Al Gore í Háskólabíói í morgun. Maðurinn er greinilega mjög vel þjálfaður í flutningi erindis síns, auk þess sem hann er með frábæra myndasýningu með. Fyrirlesturinn var langur, líklegast u.þ.b. 1,5 klst. Gore flutti mál sitt á sannfærandi hátt og náði að fanga athygli áheyrenda sinna allan tímann. Hann hefur greinilega kynnt sér málefnið vel, þ.e. hlýnun andrúmsloftsins, loftslagsbreytingar, veðurfarsbreytingar, gróðureyðingu, hækkandi sjávarmál, bráðnun jökla o.s.frv. 

Mér finnst líklegt að fyrirlestur Al Gore veki fólk sem á hlýðir til umhugsunar. Það er svo annað mál hversu margir geri eitthvað meira en bara að staldra við stundarkorn. Meginboðskapur Gore var nefnilega sá að allir bera ábyrgð og mikilvægt að til komi grundvallarbreyting í hegðun og afstöðu alls þorra almennings um víða veröld. Það er líka merkilegt að fylgjast með úrtöluröddunum sem alltaf láta á sér kræla þegar einhver kemur með óþægilegan boðskap, þegar rökin skortir bregða menn á það ráð að segja að slíkt sé hræðsluáróður.

Ég er þeirrar skoðunar að allt það fólk sem fyllti Háskólabíó í morgun hljóti að vera sammála um að breytingar í lífríkinu eru umtalsverðar og mikilvægt sé að sporna við. Hver er sjálfum sér næstur í þeim efnum eins og öllum öðrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband