12.10.2008 | 14:46
Breytinga er þörf
Það var athyglisvert að hlusta á viðtalið við Ragnar í Silfrinu í dag. Hef einnig heyrt fyrri viðtöl við hann, sem og lesið nokkrar af greinum hans í Mogganum undanfarið. Fyrsta starfið sem ég fékk eftir að hafa lokið námi var í Hagdeild Iðnaðarbankans sáluga, undir stjórn Ragnars. Hann er bankamaður af gamla skólanum og fagmaður fram í fingurgóma.
Í gær sagði Jón Ormur Halldórsson í viðtali við Hjálmar Sveinsson í Krossgötum að birtingarform spillingar á Íslandi væri pólitískar skipanir seðlabankastjóra. Það veiki trúverðugleika Seðlabankans að þar skuli ávallt vera í forsvari menn sem áður voru í landsmálaforystunni í stjórnmálunum. Það hefur að sjálfsögðu ekkert að gera með persónur þeirra manna sem þessi embætti skipa eða hafa skipað.
Framundan er þýðingarmikið uppbyggingartímabil í peningamálum og efnahagsstjórn landsins. Það er löngu tímabært að hefja yfirstjórn Seðlabankans yfir allan vafa og skipa í þá forystusveit hæfa einstaklinga með þar til bæra þekkingu og reynslu. Ragnar er á besta aldri, er ekki í föstu starfi að því best er vitað og hefur svo ekki er um villst sýnt það með skrifum sýnum og í viðtölum að full ástæða er til að fara að ráðum hans. Besti leikurinn í stöðunni er því að fá Ragnar til að taka að sér starf Seðlabankastjóra.
Ragnar: Ríkið stendur ekki undir skuldbindingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er aldrei hægt að eyða meiru en aflað er, er kennt í búfræði. Ég hef að vísu lent í því að þurfa meiri hey en ég aflaði. Þá tók ég það til ráðs að standa yfir fénu að vetri til á beit 2 klst á dag og gefa síldarmjöl með og komst þannig út úr málinu.
Þessar aðstæður sem við erum komin í, eru áfall fyrir hagfræði og viðskiptafræðimenntunina í landinu og raunar algert skipbrot. Mér sýnist Ragnar einn af fáum sem hafa þorað að andæfa, eða þorað að nýta þekkingu sína og menntun til þess.
Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.