10.7.2008 | 23:39
Tónleikar á heimsmælikvarða
Ég stenst ekki freistinguna og rýf bloggþögnina e.t.v. fyrr en ég ætlaði. Ástæðan er einföld. Við hjónin fórum í Iðnó í kvöld og nutum þess að hlusta á tónleika Þórs Breiðfjörðs Kristinssonar söngleikjasöngvara ásamt Vigni undirleikara hans.
Þór er "gamall" rokkari sem gerði garðinn frægan á sínum tíma í Hárinu og Superstar áður en hann hélt utan og nam söngleikjasöng í virtum skóla í London. Eftir það átti hann glæstan feril á West End um hartnær áratugarskeið. Hann er nú fluttur til Kanada ásamt fjölskyldunni, búinn að kaupa sér hús uppi í sveit og því orðinn nokkurs konar "tónlistarbóndi".
Tónleikar þeirra félaga í kvöld voru sannarlega góðir. Þór fór á kostum í helstu perlum söngleikjanna, bæði þeirra gömlu að "westan" sem og nýrri og klassískra söngleikja eins og Hringjarinn frá Notre Dam og Vesalingarnir. Tilfinnaskalinn var þaninn til hins ítrasta sem og tónskalinn, sem spannar býsna breitt svið. Þór er sannarlega stórsöngvari í orðsins fyllstu merkingu, röddin bæði stór og mikil og túlkunin afar fáguð og listræn.
Það er full ástæða til að benda þeim sem eru á ferðinni á Hvammstanga þ. 15. júlí eða á Akureyri daginn eftir að skella sér á tónleika og hlýða á söng Þórs, því þar ætla þeir félagar einnig að troða upp. Heimasíða Þórs er hér.
Flokkur: Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
Velkominn aftur á bloggið!
Heidi Strand, 18.7.2008 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.