20.1.2008 | 13:48
Góð heimsókn til New York
Nú er senn á enda runnin stutt helgarheimsókn mín til vinar míns Sigtryggs og Línu konu hans, sem hér hafa búið í u.þ.b. 20 ár. Búin að vera frábær helgi í góðra vina hópi, þar sem slegið var á létta strengi og samverunnar notið til fulls. Sigtryggur er búinn að taka fyrri lyfjameðferð sína vegna krabbameins síns, og nú tekur síðari törnin við hjá honum í vikunni. Það er frábært að sjá hversu vel gengur hjá honum og hve fjölskyldan er samheldin og ákveðin í að takast af skynsemi á við þetta vandasama verkefni. Það er líka búið að vera frábært að sjá framfarir og nánast dagamun, svo allt lofar þetta góðu. Auðvitað ekki hægt að líkja því saman að vera á staðnum og hitta mannskapinn eða að vera einungis í síma- og tölvupóstsambandi. Átti einnig frábæran dag í borginni á föstudag, fór á þrjá fundi vinnu minnar vegna í Midtown Manhattan. Einstaklega skemmtileg og lifandi borg, New York.
Hér í landi er mikið fjör í pólitíkinni, enda stendur undirbúningur forsetakosninga sem hæst með tilheyrandi forvölum beggja stóru flokkanna. Það fylgir þessu sérstök stemming og gaman að fylgjast með. Við sem hér vorum saman komin um helgina (helmingurinn búsettur í USA og helmingurinn á Íslandi) vorum öll meira og minna sammála um að það myndi teljast með ólíkindum ef þessi þjóð kysi sér forseta á ný úr röðum Repúblikana, miðað við það sem á undan er gengið og þá þróun sem hefur orðið í forsetatíð Bush. Það er hins vegar ekki á vísan að róa í þessu sambandi, skjótt skipast veður í lofti og mál geta tekið nýja stefnu án þess að nokkurn hafi órað fyrir því. Eins og staðan er núna hjá Demókrötum virðist sem Hillary Clinton sé að rífa sig upp úr öldudal sem hún lenti eftir að hafa tapað í New Hampshire, en það er enn á brattan að sækja. Það er hins vegar merkileg staða sem nú er uppi í herbúðum þeirra, nefnilega að þar sem þessi flokkur er núna sigurstranglegri en hinn er því líklegt að næsti forseti Bandaríkjanna verði annað hvort kona eða blökkumaður. Ekki nóg með það, í samræðum okkar hér um helgina vorum við nokkurn veginn búin að komast að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri fyrir Demókrata að fylkja sér um Hillary og að Obama yrði varaforseti hennar. Slá tvær flugur í einu höggi! Hillary gæti svo stigið af veldisstóli sínum eftir eitt kjörtímabil og hleypt Obama að sem gæti þá orðið forseti í tvö kjörtímabil ef allt gengi vel. Óskhyggja? Getur vel verið - en það er gaman að velta þessu öllu fyrir sér og fylgjast með umræðunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.