Törnin búin í bili - nú þarf að kljást við ný viðfangsefni

Það er ekki laust við að manni finnist það erfitt að vera í námi á gamals aldri. Undanfarin dægur hafa einkennst af miklum önnum tengdum námi, ekki síst vegna skila á stóru verkefni sem við unnum saman í hóp nokkur saman. Þar að auki var kennsla s.l. föstudag og laugardag og síðan tók við 3ja daga heimapróf sem lauk nú í kvöld. Ég viðurkenni fúslega að svona tarnir taka í, en á hinn bóginn eru verkefnin og viðfangsefnin áhugaverð og hópfélagarnir frábærir í alla staði. Það er með ólíkindum hversu miklu er hægt að koma í verk á stuttum tíma þegar ekkert annað er í boði en að klára verkefnin áður en fresturinn er úti.

Næst á dagskrá er að koma sér í jólaskapið, kaupa "jólagjöfina" sem reyndar er alltaf sami hausverkurinn ár eftir ár. Þeir sem luma á góðri hugmynd um gjöf fyrir umburðarlynda, þolinmóða, elskulega og blíða eiginkonu mega gjarnan láta ljós sitt skína - allar hugmyndir eru vel þegnar. 

Rigningatíðin undanfarið hefur tekið á taugarnar hér í húsi, vatn er að finna sér leið í gegnum leyndar sprungur með tilheyrandi óþægindum. Það væri nú óskandi að það færi að kólna, kæmi jafnvel smá vetrarstillur með snjóföl, stjörnuskini, norðurljósum og jólastemmingu. Að ekki sé nú minnst á birtuna sem því fylgir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband