Áhugaverðar áherslur Svandísar

Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarstjórn, var í viðtali í Silfri Egils í dag.  Það var sem betur fer ekki einungis talað um Orkuveituna og REI, heldur einnig tæpt á öðrum málum.  Það var áhugavert að hlusta á viðtalið, hér er greinilega á ferðinni stjórnmálamaður af betri gerðinni, sem gerir sér far um vönduð vinnubrögð, er sjálfri sér samkvæm og með skýra og ákveðna sýn á málefnin. 

Ég hef áður hér í blogginu tjáð mig um málefni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.  Það var því fróðlegt að heyra í viðtalinu að þegar Svandís var spurð hverjar væru hennar áherslur í borgarmálunum taldi hún upp umhverfismálin, og í því sambandi málefni er snúa að samgöngum, samgöngumannvirkjum og síðast en ekki síst almenningssamgangna.  Það kom fram hjá henni að efla þyrfti strætó, auka forgang í umferð, og hún sagði jafnframt að hún væri ekki feimin við að þrengja að einkabílnum.

Hér eru á ferðinni nýjar og athyglisverðar áherslur á vettvangi borgarstjórnar.  Svandís vakti athygli á grænum skrefum sem tekin voru undir forystu Gísla Marteins Baldurssonar, og vill halda áfram á þeirri braut.  Með því að takast á við rót vandans og efla forgang í umferðinni, sem verður sennilega ekki gert af neinu viti nema að þrengja að einkabílnum í einhverju mæli, kveður því við nýjan tón.  Það er margsannað að mun fleiri munu nota almenningssamgöngur um leið og þeir sjá sér hag í því, ekki síst ef það verður beinlínis fljótlegra að fara á milli staða t.d. með strætó en á bíl.  Þá mun koma af sjálfu sér í framhaldinu aukin og bætt þjónusta í samræmi og takt við aukna eftirspurn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband