Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.3.2008 | 22:53
Hagfræði almúgans
Þessa dagana verðum við vitni að rússíbanareið krónunnar. Nú hefur það loks gerst sem lengi hefur verið beðið eftir, þ.e. að hin ofmetna íslenska króna virðist nú loks vera á sanngjörnu verði gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það er auðvitað afstætt hvað er sanngjarnt, en líklegast ber nú flestum saman um að verðmæti gjaldmiðilsins undanfarin misseri hafi verið of hátt ef eitthvað er.
Á sama tíma og gengisvístalan hækkar haldast stýrivextir áfram háir. Það er eðlilegt, því helsta stjórntæki Seðlabankans er s.k. verðbólgumarkmið. Með öðrum orðum, bankinn notar vaxtastigið til að stemma við verðbólgudraugnum svo hann fari ekki á kreik og verðbólgan verði umfram skilgreind markmið. Nú er staðan hins vegar sú að með breyttu gengi (sumir segja réttmætri leiðréttingu gengisins) er ljóst að öll aðföng þjóðarbúsins hækka, enda flest keypt erlendis frá og greitt fyrir með erlendri mynt. Það þarf því fleiri krónur til að standa straum af þessum innkaupum, hvort heldur er um að ræða nauðsynjavörur eða aðrar vörur. Við þetta hækkar verðlagið í landinu og verðbólgan eykst. Þá heldur Seðlabankinn áfram að hafa vextina háa, því fræðin segja að verði vextirnir lækkaðir auki það eftirspurnina eftir fjármagni og kyndi þar með undir aukna neyslu, með tilheyrandi áhrifum á verðlag og verðbólgu. Það eru þvi góð ráð dýr fyrir Seðlabankann. Fátt um góð úrræði þar á bæ eins og málum er háttað. Á hinn bóginn má benda á að með þessari veikingu krónunnar vænkast hagur útflutningsfyrirtækjanna sem væntanlega skilar sér í auknum skatttekjum í ríkissjóð.
Það kemur í hugann sú áleitna spurning hvort ekki sé rétt að lækka vextina þrátt fyrir allt þegar svo er ástatt sem nú. Heimilin í landinu eru lang flest skuldug upp fyrir haus, bæði vegna húsnæðiskaupa og vafalaust mörg einnig vegna neyslulána. Með allri verðhækkuninni sem framundan er vegna veikingar krónunnar verður erfitt fyrir þessi skuldsettu heimili að standa straum af útgjaldaaukanum. Ef vextirnir væru hins vegar lækkaðir mundi það vega upp að einhverju leyti útgjaldaaukann og kæmi það mörgum til góða, einkum þeim sem skuldugir eru. Það mundi án efa slá á þensluna frekar en auka hana eins og nú er ástatt. Þar að auki mundi vafalaust tiltrúin á gjaldmiðlinum vaxa á ný, enda nauðsynlegt að byggja upp traust á krónunni innan frá í stað þess að láta verðmat hennar stýrast af mati spákaupmanna sem versla með jöklabréf.
Hagfræðing er býsna merkileg fræðigrein - hún kemur stöðugt á óvart.
Segir gengi krónunnar næstum rétt skráð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2008 | 19:04
Frábær frammistaða
Strætóbílstjórar eru upp til hópa frábært fólk. Þeir sinna starfi sínu oft við erfiðar aðstæður og kemur þar margt til. Þeim er ætlað að aka samkvæmt tímaáætlun óháð ytri aðstæðum, svo sem færð og umferðarálagi. Þeir þurfa að eiga við einstaklinga í misjöfnu ástandi, þótt svo auðvitað séu farþegar í strætó upp til hópa ákaflega viðkunnalegt og þægilegt í samskiptum. Þeir þurfa svo að sinna farmiðasölu, innheimta fargjald, sinna fjarskiptum og fleira mætti telja. Þar að auki gera farþegarnir þær kröfur til vagnstjóranna að þeir séu í góðu skapi, þjónustulundaðir, liprir og þægilegir. Síðast en ekki síst er gerð krafa um mjúkan, þægilegan og öruggan akstur.
Það er eins og hvíli stundum einhver álög á starfsemi Strætó bs., fjölmðilar og almenningur virðist oftar en ekki vera tilbúnir að beina spjótum sínum og gagnrýni á starfsemina, og oftast er stutt í alhæfingar. Það hefur allt sín áhrif á starfsemina og starfsmennina. Þeir eru því ekki öfundsverðir og sinna starfi sínu vægast sagt oft við erfiðar aðstæður.
Það er ánægjulegt að loks skuli birtast jákvæð og uppbyggileg frétt frá þessu þjakaða fyrirtæki. Frammistaða vagnstjórans er til fyrirmyndar í alla staði, hún á heiður skilinn fyrir snör handtök og rétt viðbrögð. Væri ekki rétt að sæma hana viðurkenningu fyrir afrekið?
Þetta var ekki auðvelt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2008 | 22:17
Samgönguráð ræðir sporbundnar samgöngur
Á vef Samgönguráðuneytisins má sjá frétt um að þann 8. febrúar hafi verið haldin málstofa á vegum Samgönguráðs. Málstofan fjallaði um sporvagna, svæðis- og samgönguskipulag og skýrsludrög um almenningssamgöngur á Íslandi. Í fréttinni kemur fram að sérfræðingur frá Stuttgart í Þýskalandi hafi fjallað um reynslu af léttlestakerfi þar í borg, þar sem m.a. hafi komið fram að léttlestir geti verið fyllilega raunhæfur valkostur fyrir borgir af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið er.
Samgöngunefnd Reykjavíkur tókst á hendur ferð til nokkurra borga í Þýskalandi árið 2003, þar á meðal Stuttgart, þar sem nefndin kynnti sér léttlestavæðingu þessara borga ásamt reynslu þeirra af því að hafa valið þennan kost. Tekin var saman skýrsla um ferðina og í kjölfarið urðu talsverðar umræður um hvort slíkt gæti verið raunhæfur valkostur fyrir borgina. Málið hlaut ekki brautargengi á þeim tíma og var tekið af dagskrá.
Það er áhugavert að Samgönguráð skuli nú taka málið til umfjöllunar, ekki síst í ljósi þess að fram að þessu hefur tiltölulega lítið frumkvæði komið frá ríkisvaldinu hvað varðar almenningssamgöngur í þéttbýli. Sveitarfélögin hafa alfarið þurft að bera hita og þunga af starfrækslu þessa málaflokks, gagnstætt því sem almennt tíðkast. Í því sambandi má benda á að í Þýskalandi greiðir ríkið 80% af stofnkostnaði við almenningssamgöngur í þéttbýli. Hér á landi er starfsemin að greiða talsverða fjármuni á ári hverju til ríkissjóðs, mest í formi virðisaukaskatts.
Bendi í leiðinni á útvarpsþáttinn Krossgötur á RÚV (rás 1 á laugardögum), þar sem Hjálmar Sveinsson fjallar um þessar mundir um skipulagsmál og nú í síðasta þætti um samgöngustefnu fyrirtækja, innheimtu vegatolla í þéttbýli og almenningssamgöngur. Hann tók við mig viðtal sem hann birti í þessum þætti þar sem hann spurði mig álits um ýmislegt er varðar reynslu mína af starfsemi innan þessa málaflokks undanfarin ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2008 | 21:37
Kastljósið varpar kastljósi
Kastljós RÚV miðvikudaginn 6. febrúar 2008 verður líklegast lengi í minnum haft þeirra sem það sáu. Til umfjöllunar voru drög að lokaskýrslu stýrihóps um REI málið sem frægt er orðið. Nú er nokkuð um liðið frá því öll þau ósköp dundu yfir með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun; trúnaðarbresti milli samherja í stjórnmálum, fall meirihluta borgarstjórnar ásamt þverrandi trausti almennings á kjörnum fulltrúum sínum.
Það er sérlega áhugavert að fá þessa upprifjun nú eftir að þessi tími er liðinn frá því atburðirnir gerðust og því ákveðin fjarlægð komin á þá. Það er ekki síst athyglisvert að rifja upp málið nú í ljósi þeirrar staðreyndar að sjálfstæðismenn eru á ný komnir í meirihluta í borgarstjórn og þar með til áhrifa og valda. Eins og alkunna er þrætti þáverandi borgarstjóri og oddviti þeirra sjálfstæðismanna fram í rauðan dauðann og þvertók fyrir að hafa vitað um lista yfir þá starfsmenn Orkuveitunnar sem skyldu fá að kaupa hlui í REI á tilgreindu verði, né heldur kannaðist hann við að hafa séð frægt minnisblað þrátt fyrir að jafn mætur maður og Bjarni Ármannsson hefði haldið því fram, jafn vammlaus og hann vafalaust er. Í Kastljósinu í kvöld var svo gráu bætt ofan á svart í þessum efnum, því haft var eftir Hauki Leóssyni, sem var í stjórn OR og REI að þáverandi borgarstjóra hefði verið fullkunnugt um bæði listann og minnisblaðið.
Það er umhugsunarefni fyrir framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins að þessi sami einstaklingur skuli enn vera oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Það er líka umhugsunarefni fyrir sömu framvarðarsveit að þessi einstaklingur skuli á ný verða borgarstjóri í mars 2009, samkvæmt samkomulagi núverandi meirihluta. Skyldi framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins treysta á lélegt pólitískt minni kjósenda sinna? Jafnvel þótt það hafi e.t.v. á stundum verið lélegt til þessa er ég nokkuð viss um að það eigi ekki við lengur. Það er viðbúið að fylgið hrynji af Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórnarkosningunum 2010 fari fram sem horfi og ekki verði skipt um kallinn í brúnni. Best fyrir alla, ekki síst hann sjálfan, væri að hann axlaði ábyrgð og tæki pokann sinn, í stað þess að verða þröngvað til þess. Það er að mínu mati einungis tímaspurning hvenær það gerist.
30.1.2008 | 23:45
Glöggt er gests augað
Land- og ferðamálafræðiskor hélt áhugaverða málstofu í Öskju í dag, miðvikudag. Umfjöllunarefnið voru bílar og umferð í borginni. Tvö erindi voru flutt, annars vegar af frönskum doktorsnema við deildina sem kallaði fyrirlestur sinn "Cars and the City" eða "Bílar í borginni" og hins vegar breskur prófessor í "mobility and urban planning" við Álaborgarháskóla.
Hinn franski doktorsnemi, Virgile Collin-Lange greindi frá rannsókn sem hann framkvæmdi nýlega meðal menntaskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Þar spurði hann viðmælendur sína um ferðamáta og velti fyrir sér þeirri óvenjulegu staðreynd hversu margir eiga bíl. Hann spurði einni um hið séríslenska fyrirbæri "rúntinn" - það eru greinilega margir unglingar sem nota bílinn í félagslegum tilgangi, merkilegt nokk. Helstu niðurstöður hans voru þær að bílaeign unglinga er ekki einungis í samgöngulegum tilgangi, heldur hefur einnig með lífsstíl að gera. Einn viðmælanda hans sagði eitthvað á þessa leið: "Bíllinn minn er eitthvað það fallegasata sem ég hef nokkurn tíma eignast. Við erum ástfangin. Ég fæ bílpróf eftir mánuð, og þaðan í frá munu ég og bíllinn minn verða ástfanginn að eilífu. Bíllinn minn er eitt það besta sem hefur gerst í lífi mínu. Ég keypti hann sjálf(ur) og ég vann mikið til að geta keypt hann." Það var athyglisverð staðreynd að áður en ungviðið fékk bílpróf voru tæplega 40% þeirra sem tóku strætó í skólann, en eftir að þau voru komin með bílpróf datt þetta hlutfall niður fyrir 10%.
Hinn breski Tim Richardson fjallaði um það vandasama verkefni sem blasir við í borgum nútímans, sem standa frammi fyrir síaukinni umferð og meiri þrengslum og töfum. Hann sagði m.a. frá tilraunum sem hafa verið gerðar í London, Osló og Edinburg, þar sem umferð í miðborgunum var takmörkuð með gjaldtöku. Ken Livingstone, borgarstjóri í London er frumkvöðull á þessu sviði. Hann lagði pólitíska framtíð sína að veði þegar hann ákvað að leggja gjald á umferð í miðborg London, en uppskar ríkulega. Allir voru meira og minna á móti þessum aðgerðum áður en ráðist var í þær, en eftir að reynslan er fengin er fólk upp til hópa ánægt. Livingstone var síðar endurkjörinn borgarstjóri með góðri kosningu.
Báðir fyrirlesarar voru undrandi yfir bílaborginni Reykjavík og hinni miklu bílamenningu sem hér ríkir. Það mátti sjá a.m.k. einn borgarfulltrúa meirihlutans á málstofunni, sem er virðingarvert. Nú verður spennandi að sjá hvort borgarstjórnin ætlar að fylgja fast eftir áformum sínum um mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar - svo við þurfum ekki að bíða í 2 eða 3 ljós þessar 10 - 15 mínútur, tvisvar á dag þegar mesti álagstíminn er. Þá getum við áfram ekið í bílunum okkar alein til og frá vinnu, og strætó heldur áfram að bíða í sömu röðinni eins og allir hinir.....
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2008 | 00:19
Ó borg mín, borg.....
Sá mikli skáldsnillingur Vilhjálmur frá Skáholti samdi ódauðlegt ljóð á sínum tíma með þessu nafni sem Haukur Morthens gerði síðan fallegt lag við og söng inn á plötu. Í öllu pólitíska fárinu undanfarna daga í borgarpólitíkinni er ekki laust við að þessi fleygu orð komi í hugann - nú þegar enn skal skipt um meirihluta.
Það er með ólíkindum hvernig málum er komið hjá Reykjavíkurborg. Menn skipta orðið um borgarstjóra með örfárra mánaða millibili eins og ekkert sé, það er ekki von á góðri stjórnsýslu þegar svo háttar til því eftir höfðinu dansa limirnir. Það er í hæsta máta undarlegt að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn skuli enn á ný tefla fram leiðtoga sínum sem borgarstjóraefni, ekki síst eftir það sem á undan er gengið. Það er eins og einhver álög hvíli á þessum stjórnmálaflokki - það að láta sama manninn taka við aftur er vísasta leiðin til að steypa flokknum í glötun fyrir næstu kosningar og ávísun á slakt kjörgengi.
Í Kastljósi Sjónvarpsins þriðjudaginn 22. janúar 2008 var viðtal við áðurnefndan leiðtoga sjálfstæðismanna, fyrrverandi og verðandi borgarstjóra. Ég hygg að aldrei hafi nokkur maður staðið sig jafn hörmulega og í þessu viðtali - endalaus vörn og tönnlast í sífellu á einhverju sem ekki var nokkur leið að skilja. Hví auðnast þessum flokki ekki lengur að hafa í röðum sínum glæsilega leiðtoga, skörunga og foringja sem áður var aðalsmerkið? Það þarf ekki annað en að nefna nokkur nöfn borgarstjóra: Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson, Davíð Oddsson ..... er núverandi oddviti samanburðarhæfur við þennan hóp? Það er ekki nema von að fylgið mælist lágt - og það mun án efa fara þverrandi sjái menn ekki að sér.
19.11.2007 | 23:08
Lítil sem engin umræða um nýja loftslagsskýrslu
Á dögunum var kynnt lokaútgáfa skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu Þjóðanna. Það er umhugsunarvert hversu lítil umræða er um þessa skýrslu og útkomu hennar. Megin niðurstaða skýrslunnar er að hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum er staðreynd. Það þarf því væntanlega enginn að velkjast lengur í vafa um hvert stefnir, og af hvaða völdum.
Margir eru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að grípa til róttækra ráðstafana, og vísa í því sambandi til aðgerða af hálfu hins opinbera. Það sem skiptir hins vegar öllu máli er að sýna ábyrga hegðun - allt skiptir máli. Það er lítið á því að græða t.d. að gefa frítt í strætó ef fólk heldur áfram að keyra bílinn eftir sem áður.
Ég fékk sendan áhugaverðan hlekk á myndband þar sem einstaklingur tekur sig til og útskýrir á einfaldan hátt hvernig mál eru vaxin, og hvaða valkostir eru stöðunni. Hvet alla til að líta á myndbandið, og senda það áfram til vina og kunningja. Hér er slóðin: http://www.youtube.com/watch?v=bDsIFspVzfI
4.11.2007 | 20:09
Áhugaverðar áherslur Svandísar
Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarstjórn, var í viðtali í Silfri Egils í dag. Það var sem betur fer ekki einungis talað um Orkuveituna og REI, heldur einnig tæpt á öðrum málum. Það var áhugavert að hlusta á viðtalið, hér er greinilega á ferðinni stjórnmálamaður af betri gerðinni, sem gerir sér far um vönduð vinnubrögð, er sjálfri sér samkvæm og með skýra og ákveðna sýn á málefnin.
Ég hef áður hér í blogginu tjáð mig um málefni almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það var því fróðlegt að heyra í viðtalinu að þegar Svandís var spurð hverjar væru hennar áherslur í borgarmálunum taldi hún upp umhverfismálin, og í því sambandi málefni er snúa að samgöngum, samgöngumannvirkjum og síðast en ekki síst almenningssamgangna. Það kom fram hjá henni að efla þyrfti strætó, auka forgang í umferð, og hún sagði jafnframt að hún væri ekki feimin við að þrengja að einkabílnum.
Hér eru á ferðinni nýjar og athyglisverðar áherslur á vettvangi borgarstjórnar. Svandís vakti athygli á grænum skrefum sem tekin voru undir forystu Gísla Marteins Baldurssonar, og vill halda áfram á þeirri braut. Með því að takast á við rót vandans og efla forgang í umferðinni, sem verður sennilega ekki gert af neinu viti nema að þrengja að einkabílnum í einhverju mæli, kveður því við nýjan tón. Það er margsannað að mun fleiri munu nota almenningssamgöngur um leið og þeir sjá sér hag í því, ekki síst ef það verður beinlínis fljótlegra að fara á milli staða t.d. með strætó en á bíl. Þá mun koma af sjálfu sér í framhaldinu aukin og bætt þjónusta í samræmi og takt við aukna eftirspurn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2007 | 09:29
Meðvitundarleysi í umhverfismálum
Nú hefur verið birt ný skýrsla á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNEP) um stöðu og horfur í umhverfismálum. Skýrslan (GEO-4) er viðamikil, nær 600 síður, og að gerð hennar hafa komið fjölmargir vísindamenn og sérfræðingar um heim allan. Megin niðurstaða skýrlsunnar er að u.þ.b. 60% af lífríki mannkyns séu í hættu vegna rányrkju mannsins. Vissulega hefur margt vel verið gert, en betur má ef duga skal. Mesta ógnin stafar af loftslagsmálum, og hvatt er til aðgerða sem draga úr loftslagsmengun og hlýnun andrúmsloftsins.
Svo virðist sem Íslendingar séu stikk frí að stórum hluta þegar kemur að umræðunni um umhverfismál og aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda. Umræðan einkennist oftar en ekki af vanþekkingu og litlum áhuga á þessum þýðingamiklum málaflokki. Þá virðist einnig skorta verulega á að Íslendingar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að viðhafa ábyrga hegðun í umhverfismálum, svo sem með því að draga úr akstri einkabílsins, flokka sorp, endurvinna úrgang o.s.frv.
Margt hefur áunnist í umhverfisvernd á Íslandi. Með skipulögðum hætti er unnið að jarðvegsfoki og landeyðingu, þótt enn sé langt í land í þeim efnum. Metnaðarfull tilraun var gerð með rekstri vetnisstrætisvagna, sem gengu alfarið fyrir innlendum orkugjöfum. Á sorphaugunum í Álfsnesi verður til nægjanlega mikil metangas til að knýja allan strætisvagnaflota höfuðborgarsvæðisins. Nú þegar eru tveir vagnar á götunum sem ganga fyrir metangasi, sem hafa reynst vel.
Íslendingar hafa náð frábærum árangri í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, bæði vatnsafli og gufuafli. Upphitun húsa og rafmagnsnotkun er nærri 100% frá slikum orkugjöfum, hlutfall sem er einstakt í heiminum. Um 30% af heildarorkunotkun á Íslandi er hins vegar í formi jarðefnaeldsneytis, en þar vegur þyngst rekstur bíla- og skipaflotans. Það er verðugt verkefni að vinna að lausnum sem dregur úr notkun jarðefnaeldsneytis, það er best gert með auknum rannsóknum, metnaðarfullum tilraunum og síðast en ekki síst ábyrgari hegðun okkar allra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 11:15
Minnkum svifrykið í vetur - notum ónegld dekk
Nú þegar októbermánuður líður senn til enda með öllum sínum rigningardögum hillir loks undir veðrabreytingu. Það þykir víst flestum nóg komið með alla rigninguna, og hlakka því til helgarinnar þegar veður hér á suð-vesturhornina á að batna til muna. Það verður að vísu kaldara, en þurrt og bjart.
Svifryksmengun hefur aukist undanfarin ár í Reykjavík. Þegar veður er stillt, þurrt og logn, spæna nagladekkin undir bílunum malbikið upp og svifryksagnirnar svífa um loftið með tilheyrandi slæmum afleiðingum. Reykjavíkurborg hefur rekið áróður fyrir því undanfarin misseri að minnka notkun nagladekkja, enda fækkar sífellt þeim tilvikum sem þau eru nauðsynleg. Með öflugum snjómokstri og hálkueyðingu er unnt að komast leiðar sinnar all flesta daga á ónegldum vetrardekkjum. Flestir nýrri bílar eru þar að auki útbúnir ABS bresmum og spólvörn, sem eykur enn á akstursfærni bílanna.
Það er til tiltölulega litlum hagsmunum fórnað fyrir mikla með því að hafa vetrardekkin ónegld. Við sem höfum ekið á ónegldum vetrardekkjum mörg undanfarin ár vitum að það er alveg jafn auðvelt fyrir okkur að komast leiðar okkar á veturna eins og alla hina sem eru með naglana í dekkjum. Nú er bara að láta umhverfið njóta vafans, og leggja sitt af mörkum með því að sýna gott fordæmi og sleppa nöglum í dekkjum hér eftir.