MBA námið er krefjandi en jafnframt skemmtilegt

Það er býsna gaman í skólanum. Nú er önnur önnin af fjórum hafin, tíminn líður ótrúlega hratt við þessa iðju. Á hverri önn eru fjögur námskeið kennd, tvö í senn. Á haustönninni lærðum við (eða rifjuðum upp, sum okkar) rekstrarhagfræði og starfsumhverfi; skipulagsheildir og stjórnun, greiningu viðfangsefna og ákvarðanir; sem og markaðsfræði. Allt þetta námskeið spannar býsna mikið efni, farið er í fræðilega hlið málsins jafnframt því sem raunhæf verkefni eru leyst, unnið er í hópum, fyrirtæki heimsókn, próf þreytt o.s.frv. Það rifjast upp gamli góði prófskrekkurinn meira að segja. Við lærum að nýta okkur alls konar verkfæri, tól og tæki. Nýjar víddir hafa opnast fyrir manni um notkun töflureiknis (Excel), við lærum að vinna tölfræðilegar greiningar, vinna markaðsáætlanir og fleira mætti telja.

Nú eru tvö afar áhugaverð námskeið í gangi, annars vegar rekstrarstjórnun og hins vegar reikningshald. Við lærum þar að greina flæði og ferla, tókumst á hendur stýringu á ímyndaðri verksmiðju í hermilíkani þar sem reynir á kunnáttu, snör viðbrögð og hæfni til að taka réttar ákvarðanir. Við lærum að greina ársreikninga, fáum innsýn í heim reikningsskilastaðla, lærum enn meira á excel og þau verkfæri sem hann hefur upp á að bjóða og svona má áfram telja. Sem sagt, býsna fróðlegt, skemmtilegt, krefjandi og áhugavert. Því er ekki að leyna að öll þessi yfirferð færir manni nýja sýn á þau viðfangsefni og það sem maður almennt er að kljást við í daglegum störfum sínum í atvinnulífinu.

Það eru 47 frábærir einstaklingar sem stunda námið í þessum hóp. Þetta er fjölbreyttur hópur með mikla breidd og ólíkan bakgrunn. Fólk á öllum aldri, allt frá 28 ára upp í 55 eða svo. Stjórnmálamenn, kennarar, listamenn, heilbrigðisstarfsfólk, lögfræðingar, viðskiptafræðingar, ráðgjafar og fleira mætti telja. Einstaklega skemmtilegur hópur sem fellur vel saman, og traust vináttubönd verða til. Það er ekki síður mikilvægt, enda segja þeir sem lokið hafa MBA náminu nú þegar að sú vinátta og tengslamyndun sem til er stofnað í náminu sé ómetanleg. Það sannast því vísukornið úr barnaskólanum: "Í skólanum, í skólanu, er skemmtilegt að vera......"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Kristinsdóttir

Ég dauðöfunda þig. Ég er í tveim síðustu áföngum í náminu. Skrifa lokaritgerð og svo bara allt búið í vor og alvaran tekur við.

Anna Kristinsdóttir, 12.2.2008 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband