12.5.2008 | 16:56
Helgarlæri a la MBA
Það er fátt um fína drætti og glæsileg afrek í eldhúsinu þessa dagana. Undir öllum venjulegum kringumstæðum væri maður vísast búinn að elda a.m.k. einu sinni um helgina ærlega máltíð, t.d. lambalæri með rauðkáli og grænum baunum, að ógelymdu malti og appelsín með (enda það sterkasta sem tengdamamma fæst til að drekka.....). Þess í stað er bara setið við lærdóminn, svo það verður víst að vera það sem næst kemst lærinu þessa helgina.
Búinn að skila af mér einu verkefni í dag, annað er í vinnslu og gengur bara prýðilega sýnist mér. Stefni á að skila því á morgun. Kennsluhelgi framundan, skólaseta n.k. föstudag og laugardag. Það er farið að síga aðeins í verð ég að viðurkenna, enda komið langt fram á vor. Nú er bara að halda þetta út. Það verður kennt alveg fram yfir mánaðamót, en síðasta prófið verður laugardaginn 7. júní. Mikið lifandis skelfing verður gaman þann dag! Eftir próflok kl. 13 söfnumst við saman hópurinn og efnum til MBA-leikanna með tilheyrandi hópefli, leikjum og húllum-hæ. Mér er ekki grunlaust um að það eigi eftir að verða mikið fjör og stuð langt fram eftir nóttu.
Námsgreinarnar nú á lokasprettinum eru býsna ólíkar: Fjármál fyrirtækja og Mannauðsstjórnun. Áhugavert að skygnast inn í fræðin, fjármálastjórnun er reyndar eitthvað sem maður þekkir af reynslu í gegnum tíðina en það sama er ekki hægt að segja um mannauðsstjórnunina. Sumum finnst þetta fag algjört froðusnakk, skoðanir á því eru misjafnar eins og gengur. Mannauðurinn er sennilega vanmetin auðlind víða, það er því til mikils að vinna að sinna þessum málaflokki vel, enda líklegt að þau fyrirtæki sem það geri uppskeri ríkulega.
Flokkur: Menntun og skóli | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.