4.5.2008 | 17:06
Aðgreining kaupenda og seljenda opinberrar þjónustu
Ég hlustaði eins og svo oft áður á Silfur Egils í dag. Umræðurnar voru í senn fjörugar og athyglisverðar. Það var gaman að sjá gömlu brýnin Ragnar Arnalds og Jón Baldvin takast á um Evrópumálin, þessir karlar hafa engu gleymt þegar kemur að mælskulistinni og málafylgjunni.
Í fyrri hluta Silfursins var mikið rætt um heilbrigðismálin. Mér fannst Guðlaugur Þór standa sig nokkuð vel, hann lét ekki koma sér úr jafnvægi þótt hart væri að honum gengið, sérstaklega af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttur. Fram kom í máli Guðlaugs að mikil áhersla væri nú lögð á aðgreiningu kaups og sölu á opinberri þjónustu, í þessu tilviki innan heilbrigðisþjónustunnar. Með því móti væru áherslurnar lagðar á að fá sem best verðmæti fyrir það fjármagn sem í þessa þjónustu væri veitt. Þetta hljómar skynsamlegt.
Á höfuðborgarsvæðinu starfrækja sveitarfélögin sjö þrjú byggðasamlög: Slökkviðliðið, Sorpu og Strætó. Starfsemi Slökkviliðsins og Sorpu hefur verið í góðri sátt milli sveitarfélaganna eftir því sem best verður séð og lítill sem enginn ágreiningur um áherslurnar þar. Öðru máli gegnir um Strætó. Þar á bæ hafa hins vegar hlutirnir ekki gengið jafn vel, enda var grundvallarbreytingum á þjónustunni hrint í framkvæmd árið 2005. Þegar grundvallarbreytingar eru gerðar á þjónustu í almannaþágu er eðlilegt að þær falli í misjafnan jarðveg, enda hver sjálfum sér næstur í þeim efnum. Það á við bæði um viðskiptavinina, eigendurna og starfsmennina.
Frá því ég lét af störfum sem framkvæmdastjóri Strætó bs hef ég lítið tjáð mig um málefni byggðasamlagsins. Ég get þó ekki látið hjá líða í þessu sambandi að lýsa þeirri skoðun minni að mikilvægt sé að aðgreina þjónustu-, skipulags- og umsjónarhlutverki Strætó frá akstri vagnanna. Strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu er nú um mundir ekið af fjórum rekstraraðilum. Auk Strætó bs eru þetta þrjú fyrirtæki í einkaeigu, Hagvagnar, Teitur Jónasson og Allrahanda. Með því að aðgreina rekstur vagnanna frá annarri starfsemi byggðasamlagsins næst meiri gegnsæi og línur verða skýrari. Með vel skilgreindum útboðsgögnum og öflugu gæðaeftirliti má tryggja að þjónustan verði í þeim gæðaflokki sem til er ætlast.
Það er svo annað mál hvort sveitarfélögin eigi yfir höfuð að vera að vasast í útgerð farartækja. Það sem háir starfsemi Strætó fyrst og fremst eru pólistísk afskipti af rekstrinum. Þannig fá stjórnendur ekki nauðsynlegt svigrúm til að reka fyrirtækið samkvæmt lögmálum almenns fyrirtækjarekstrar. Það er athyglisverð staðreynd að 5 af 7 aðildarsveitarfélögum byggðasamlagsins er stýrt af sjálfstæðismönnum, þrjú af þeim hafa hreinan meirihluta. Stjórnarformaður byggðasamlagsins undanfarin tvö ár er forseti bæjarstjórnar Kópavogs og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir þetta bólar ekkert á umræðu í þá veru að færa farartækjaútgerð frá byggðasamlaginu og úthýsa henni alfarið, enda vel þekkt áhugaleysi sveitarstjórnamanna á höfuðborgarsvæðinu um málefni almenningssamgangna.
Framundan er útboð á akstri þar sem samningar við þá þrjá aðila sem sinna akstrinum eru nú að renna sitt skeið. Það er því kjörið tækifæri fyrir stjórn Strætó bs að stíga skrefið til fulls og bjóða út alla starfsemina. Ef þetta er eitthvað viðkvæmt heima fyrir geta sveitarfélögin út af fyrir sig alltaf stofnað sitt eigið félag sem býður í reksturinn og keppir þannig á jafnréttisgrundvelli við alla hina.
Um leið og ég býð fyrrum vinnufélaga mína hjá Strætó velkomna sem bloggvini mína verður áhugavert að lesa viðbrögð þeirra við þessum hugrenningum mínum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:10 | Facebook
Athugasemdir
Það sem ég furða mig á þegar vandamál fyrirtækja eru skoðuð, er hvernig þau eru uppsett miðað við kennda aðferðafræði í framhaldsskólum og á vinnumarkaði. Alveg eins og í fjölbýlishúsum þá setja menn sig í hlutverk. Einn yfir, einn reiður, einn á móti og restin gerir bara það sem þarf, þegar þeim er sagt að gera það. Ef við skoðum út fyrir kassann og hættum að búa til þessa háu pýramídastjórnun þar sem toppurinn gnæfir yfir þá er miklu skynsamlegra að koma á kerfum þar sem menn vinna sameiginlega að markmiðunum. Afhverju ekki að fletja pýramídann út? Hætta að vera með stjórnendur? Bjóða út skrifstofuvinnuna og ráða eftirlitsmann/(menn) sem sér til þess að neðsti hluti pýramídans skili sínu. Í þessu tilviki væri hægt að hugsa sér að starfsmenn skiptu með sér leiðum eða vögnum og tækju ábyrgð á að t.d. hver leið gengi skv. samningi og t.d. einn leiðtogi á hverjum bíl. Starfsmenn myndu tryggja mönnun bílanna og að kerfið gengi í heild. Þvottastöð, verkstæði og aðrar verkstöðvar yrðu gerðar sjálfstæðar einingar. Í öllum tilvikum myndi öll yfirstjórnunin sparast og flytjast á hverja verkstöð fyrir sig. Starfsmenn Strætó eru á lágum launum og það hefur gengið illa að manna störfin vegna þessa. Með þessu væri hægt að slá nokkrar flugur í einu höggi. Ákvarðanataka og stjórnun færi fram á “gólfinu” milliliðalaust og möguleiki yrði á að hækka laun starfsmanna án þess að auka kostnað, jafnvel spara talsvert. Með þessu yrðu allir ábyrgir og nokkuð ljóst allavega að menn yrðu að taka afstöðu og standa eða falla með fyrirtækinu "sínu". Þ.e. þetta er fyrirtækið okkar en ekki “ÞEIR” og “VIД. Þetta er bara stutta útgáfan, það er til lengri ef einhver hefur áhuga.
Jóhannes Gunnarsson, 7.5.2008 kl. 10:29
Sæll Ásgeir minn. Ég gæti skrifað langt commet á þessar hugleiðingar þínar bæði um almenningssamgöngur alment, aðkomu kjörnina fulltrúa bæjarfélana og verktaka. Ég ætla ekki að gera það en er tilbúin að taka umræðu við þig persónulega. Eitt vil ég þó benda á sem þú komst ekki inn á en ég veit að þér er fullkunnugt um að 70% af rekstrakostnaði fyrirtækis eru laun og launatengd gjöld. Við vitum líka báðir að sá sem myndi bjóða í akstur fyrir bæjarfélag myndi ekki gera það öðruvísi en til að hagnast á því og það er bara eðlilegt þvi enginn stendur í fyrirtækjarekstri nema til að hagnast á því. Og hvernig fer hann þá að því að gera þetta fyrir minni pening en bæjarfélag, jú hann býður starfsmönnum sínum upp á verri kjör en bæjarstarfsmennirnir eru á enda eins og allir vita eru þeir á slíkum ofurlaunum að full ástæða er til að lækka þau. Hæstu laun vagnstjóra í dag eru 182,872 eftir 25.ára starf og því full ástæða til þess að lækka þau. Og ekki má gleyma því að tilboðið sem vertakinn gerir í aksturinn er vísitölubundinn og þar af leiðandi fær verktakinn fleiri krónur í sinn vasa án þess að þurfa að hækkalaunin. Ég tek líka undir þau orð Ingunar að það rýrir þjónustuna þegar vagnstjórar geta ekki talað íslensku. Og svo er það líka spurning er bílstjórastéttin ekki bara deyandi stétt, það er orðið mjög dýrt að taka meiraprófið og svo eiga menn líka að sækja námskeið sem kostar í dag 70.000. og tekur viku til þess að fá ökuskirteinið endurnýjað samkv. tilskipun frá EB en þau lög eru nú til afgreiðslu á Alþingi. Að lokum. Vandamál almenningissamgangna er ekki rekstrarform heldur eiga kjörnir fulltrúar að gera það upp við sig hvort þeir vilji hafa þær og þá hvernig.
með kveðju Sigurbjörn Halldórsson.
Sigurbjörn Halldórsson (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 10:47
Takk öll fyrir málefnalegar athugasemdir. Mér finnst mikilvægt að rugla ekki saman vandamálum tengdum verktökum og rekstrarforminu. Það sem ég held að væri Strætó almennt fyrir góðu er að aðgreina rekstur vagnanna frá annari starfsemi byggðasamlagsins. Það að skipuleggja og hafa umsjón með almenningssamgöngum er svo ólíkt því að gera starfrækja akstur vagnanna. Ef rekstrarsvið Strætó fengi að vera "í friði" og hafa tækifæri til að starfa undir eðlilegum formerkjum er ég viss um að slíkt mundi verða starfseminni til góðs. Það eru nokkur dæmi um það á Norðurlöndunum (t.d. í Noregi) að sveitarfélögin hafa haldið í þessa starfsemi en þurft eigi að síður að bjóða í og keppa um aksturinn. Með rétt skilgreindum útboðsgögnum og vel reknu fyrirtæki er ekkert því til fyrirstöðu að Strætó geti "rúllað upp" slíku útboði. Með öðrum orðum: mér finnst í raun ekki aðalatriði málsins hvert eignarhaldið er, heldur hitt að reksturinn fái að dafna á sínum eigin forsendum. Ég held að við getum öll verið sammála um það. Fyrirtæki sem vill standa sig vel í rekstri og ná góðum árangri veit vel að grundvöllur þess er hæft og ánægt starfsfólk. Það ættu alvöru verkkaupar einnig að gera sér grein fyrir.
Ásgeir Eiríksson, 8.5.2008 kl. 00:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.