Kastljósið varpar kastljósi

Kastljós RÚV miðvikudaginn 6. febrúar 2008 verður líklegast lengi í minnum haft þeirra sem það sáu. Til umfjöllunar voru drög að lokaskýrslu stýrihóps um REI málið sem frægt er orðið. Nú er nokkuð um liðið frá því öll þau ósköp dundu yfir með tilheyrandi fjölmiðlaumfjöllun; trúnaðarbresti milli samherja í stjórnmálum, fall meirihluta borgarstjórnar ásamt þverrandi trausti almennings á kjörnum fulltrúum sínum.

Það er sérlega áhugavert að fá þessa upprifjun nú eftir að þessi tími er liðinn frá því atburðirnir gerðust og því ákveðin fjarlægð komin á þá. Það er ekki síst athyglisvert að rifja upp málið nú í ljósi þeirrar staðreyndar að sjálfstæðismenn eru á ný komnir í meirihluta í borgarstjórn og þar með til áhrifa og valda. Eins og alkunna er þrætti þáverandi borgarstjóri og oddviti þeirra sjálfstæðismanna fram í rauðan dauðann og þvertók fyrir að hafa vitað um lista yfir þá starfsmenn Orkuveitunnar sem skyldu fá að kaupa hlui í REI á tilgreindu verði, né heldur kannaðist hann við að hafa séð frægt minnisblað þrátt fyrir að jafn mætur maður og Bjarni Ármannsson hefði haldið því fram, jafn vammlaus og hann vafalaust er. Í Kastljósinu í kvöld var svo gráu bætt ofan á svart í þessum efnum, því haft var eftir Hauki Leóssyni, sem var í stjórn OR og REI að þáverandi borgarstjóra hefði verið fullkunnugt um bæði listann og minnisblaðið.

Það er umhugsunarefni fyrir framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins að þessi sami einstaklingur skuli enn vera oddviti borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Það er líka umhugsunarefni fyrir sömu framvarðarsveit að þessi einstaklingur skuli á ný verða borgarstjóri í mars 2009, samkvæmt samkomulagi núverandi meirihluta. Skyldi framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins treysta á lélegt pólitískt minni kjósenda sinna? Jafnvel þótt það hafi e.t.v. á stundum verið lélegt til þessa er ég nokkuð viss um að það eigi ekki við lengur. Það er viðbúið að fylgið hrynji af Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórnarkosningunum 2010 fari fram sem horfi og ekki verði skipt um kallinn í brúnni. Best fyrir alla, ekki síst hann sjálfan, væri að hann axlaði ábyrgð og tæki pokann sinn, í stað þess að verða þröngvað til þess. Það er að mínu mati einungis tímaspurning hvenær það gerist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband