Ó borg mín, borg.....

Sá mikli skáldsnillingur Vilhjálmur frá Skáholti samdi ódauðlegt ljóð á sínum tíma með þessu nafni sem Haukur Morthens gerði síðan fallegt lag við og söng inn á plötu. Í öllu pólitíska fárinu undanfarna daga í borgarpólitíkinni er ekki laust við að þessi fleygu orð komi í hugann - nú þegar enn skal skipt um meirihluta.

Það er með ólíkindum hvernig málum er komið hjá Reykjavíkurborg. Menn skipta orðið um borgarstjóra með örfárra mánaða millibili eins og ekkert sé, það er ekki von á góðri stjórnsýslu þegar svo háttar til því eftir höfðinu dansa limirnir. Það er í hæsta máta undarlegt að Sjálfstæðismenn í borgarstjórn skuli enn á ný tefla fram leiðtoga sínum sem borgarstjóraefni, ekki síst eftir það sem á undan er gengið. Það er eins og einhver álög hvíli á þessum stjórnmálaflokki - það að láta sama manninn taka við aftur er vísasta leiðin til að steypa flokknum í glötun fyrir næstu kosningar og ávísun á slakt kjörgengi.

Í Kastljósi Sjónvarpsins þriðjudaginn 22. janúar 2008 var viðtal við áðurnefndan leiðtoga sjálfstæðismanna, fyrrverandi og verðandi borgarstjóra. Ég hygg að aldrei hafi nokkur maður staðið sig jafn hörmulega og í þessu viðtali - endalaus vörn og tönnlast í sífellu á einhverju sem ekki var nokkur leið að skilja. Hví auðnast þessum flokki ekki lengur að hafa í röðum sínum glæsilega leiðtoga, skörunga og foringja sem áður var aðalsmerkið? Það þarf ekki annað en að nefna nokkur nöfn borgarstjóra: Gunnar Thoroddsen, Geir Hallgrímsson, Davíð Oddsson ..... er núverandi oddviti samanburðarhæfur við þennan hóp? Það er ekki nema von að fylgið mælist lágt - og það mun án efa fara þverrandi sjái menn ekki að sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband