Leiðakerfisbreytingarnar að skila sér

Það eru ánægjulegar fréttir sem berast úr herbúðum Strætó bs í dag.  Fram kemur að farþegafjölgun er umtalsverð, og því líklegt að langvarandi þróun farþegafækkunar sé loks að snúast við.  Þrátt fyrir þetta má ekki gleyma því að tölurnar eru enn lágar, og "markaðshlutdeild" almenningssamgangna með því lægsta sem þekkist hjá sambærilegum borgum í nágrannalöndum okkar. 

Leiðakerfi Strætó bs var gjörbylt um mitt ár 2005.  Sú breyting virðist nú vera að skila sér.  Að sjálfsögðu skal ekki lítið gert úr öðrum þáttum sem örva notkunina, eins og að gefa námsmönnum frítt í strætó.  Það er hins vegar alveg ljóst, að þjónustan sem slík verður að vera ásættanleg, því ef leiðarkerfið er kolómögulegt gefast þeir líka upp á að nota strætó sem fá frítt.  Því miður hefur umræðan um strætó og almenningssamgöngur um langa hríð verið neikvæð, og stöðugt er vegið að þjónustunni.  Það er því einkar ánægjulegt að sjá þessa þróun.

Fyrir Strætó bs og eigendur byggðasamlagsins, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, er þýðingarmikið að halda áfram að efla almenningssamgöngur.  Í því sambandi skiptir öllu máli að viðhafa aðgerðir sem flýta för vagnanna, þannig að þeir sem með þeim ferðast verði fljótari í förum en þeir sem kjósa einkabílinn.  Þetta á einkum við um álagstímana.  Með því að fjölga forgangsakreinum, koma upp ljósastýrðum forgangi og auka ferðaframboðið þegar flestir eru á ferðinni munu almenningssamgöngurnar eflast, og fleiri og fleiri sjá sér hag í að nýta sér þennan valkost.  Þá skiptir ekki öllu máli hvort er frítt eða ekki, það sem skiptir allan þorra almennings máli er að fá skilvirkt og öflugt almenningssamgangnakerfi á höfuðborgarsvæðinu. 


mbl.is Farþegum í strætó fjölgar um 13,65%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Hallsson

Nákvæmlega Ásgeir, og hafa frítt í strætó, gera að minnsta kosti tveggja ára tilraun með það. Þá mun farþegum Strætó fjölga enn meira. Og svo þarf að fjölga ferðum, auka tíðni. Áfram Strætó! Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 12.11.2007 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband