2.11.2007 | 14:35
Næsti áfangi hafinn í MBA
Í dag hófst önnur lota í MBA náminu. Fyrri lotunni lauk með prófum um síðustu helgi, þannig að nú er 1/8 hluti námsins að baki. Nú eigum við að vita allt um rekstrarhagfræði og starfsumhverfi, sem og stjórnun skipulagsheilda. Það er að vísu ekki komin niðurstaða úr prófunum, en vonandi verður það í lagi.
Nýju námskeiðun tvö sem nú fara af stað heita annars vegar "Greining viðfangsefna og ákvarðanir" og hins vegar Markaðsfræði. Í dag erum við að sökkva okkur niður í alls kyns tól og tæki sem auðvelda greiningu viðfangsefna, jafnframt erum við að feta okkur inn í heim tölfræðinnar. Þar er galdratólið Excel mikilvægt hjálpartæki. Hugtök eins og meðaltal, meðalgildi, tíðasta gildi, staðalfrávik o.s.frv. er mikilvægt að kunna deili á, sem og að geta handfjatlað þau í töflureikninum.
Með nýjum námskeiðum verða til nýjir vinnuhópar. Við í mínum hóp erum þegar búin að hittast lauslega, því ekki veitir af að hefjast handa nú þegar. Mörg verkefni eru í deiglunni, svo það verður nóg að snúast næstu 10 vikurnar. Ég kveð gamla hópinn með söknuði, hann var einstaklega samhentur og skemmtilegur. Annað kvöld ætlar mannskapurinn allur að hittast og skemmta sér, svona til að hrista okkur aðeins meira saman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.