19.10.2007 | 20:33
Fyrsti áfangi MBA námsins senn í höfn
Nú um helgina eru síðustu kennsludagar í fyrstu tveimur námskeiðunum í MBA náminu sem ég nú legg stund á við HÍ. Það eru auðvitað mikil viðbrigði fyrir einstakling kominn á sextugsaldurinn að setjast að nýju á skólabekk - en jafnframt áhugavert. Hópurinn er frábær, fólk úr ýmsum áttum og með fjölbreyttan bakgrunn. Kennararnir eru góðir, og námsefnið áhugavert. Hópavinna er mikil, og hópurinn sem ég tilheyri nú á fyrsta námskeiðinu er einstaklega samhentur og skemmtilegur.
Einn af hópfélögum mínum er hinn geðþekki Birkir Jón Jónsson, alþingismaður þeirra Framsóknarmanna og Siglfirðingur. Það er vert að benda á færslu hans í dag, þar sem hann greinir frá öllum þeim fjölda vinnustunda sem liggja að baki hárri þjóðarframleiðslu okkar Íslendinga. Þetta málefni var til umfjöllunar hjá Gylfa Magnússyni í dag þegar fjallað var um þjóðhagfræði. Íslendingar eru aftarlega á merinni þegar kemur að framlegð, því að baki hárri þjóðarframleiðslu á mann liggur m.a. mikill fjöldi vinnustunda, mikil atvinnuþátttaka og langur starfsaldur Það þarf með öðrum orðum að hafa mikið fyrir hagsældinni. Færslu Birkis má sjá hér.
Framundan er að lesa skruddurnar, taka tvö próf, hið síðara fyrsta vetrardag. Það verður fróðlegt að sjá hver útkoman úr því verður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.