Færsluflokkur: Lífstíll

Hjólað í vinnuna: 14 km fyrsta daginn

Þrátt fyrir rigningu og dumbung lét maður sig hafa það að fara á hjólinu í vinnuna í dag. Fór fyrst á námskeið í HR, síðan á fund í Faxafeni, þá í vinnuna og loks í búð neðst á Laugaveginum áður en haldið var heim á leið. Samtals rétt rúmir 14 km. Góð tilfinning og gaman að taka þátt. Það er ágætis þátttaka á vinnustaðnum, komin tvö lið og hartnær 40% starfsmanna eru með. Nú er auðvitað ekkert annað í stöðunni en að salla inn kílómetrunum og færa samviskusamlega inn á skjalið, þannig að það skiptir máli að vera með frá fyrsta degi.

 


Ryanair hefur sölu á heilsudrykk frá Tahiti um borð í vélum sínum

Ég hef áður minnst á Noni ávaxtasafann frá Tahiti hér á síðunni.  Um er að ræða safa úr samnefndum ávexti sem vex þar syðra, og hefur verið notaður í safa um aldir að því að talið er.  Safinn er talinn hafa góð áhrif m.a. á ónæmiskerfið, innihalda andoxunarefni sem eru manninum gagnleg, talinn hafa áhrif til lækkunar kólesteróls, ásamt því að hafa yfirleitt góð áhrif á mannskepnuna.

Tahiro hjá Ryanair

Lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur nú tekið þá ákvörðun að selja TaHiro drykkinn "Vitalise" um borð í vélum sínum, en þessi drykkur inniheldur þennan merka safa.  Vörur þessar eru almennt ekki seldar öðru vísi en í beinni markaðsfærslu, ef frá eru talinn nokkur lífsstílskaffihús í heiminum sem rekin eru af Tahitian Noni.  Ryanair flytur u.þ.b. 55 miljónir farþega með vélum sínum árlega, svo hér verður heldur betur breyting á aðgengi fólks að þessari vöru.

Það verður fróðlegt að sjá hver viðbrögðin verða.  Samdóma álit alls megin þorra þeirra einstaklinga sem neyta Noni safans eða afurða sem innihalda hann er að neysla safans hafi góð og jákvæð áhrif á viðkomandi.  Margir finna fyrir aukinni vellíðan, betra úthaldi, betri svefn og almennt betri líðan.  Nú er bara að prófa fíneríið næst þegar þið, kæru lesendur, takið ykkur far með Ryanair.

 


Hvernig er blóðþrýstingurinn?

Ég þurfti nýlega að fara til læknis út af einhverri umgangspest, sem ekki er í sjálfu sér í frásögu færandi.  Eftir að hafa rætt þau mál við lækninn og þegar heimsókninni var um það bil að ljúka, spyr læknirinn mig hvort blóðþrýstingurinn hafi verið mældur nýlega.  Ég sagði að það væru nú ábyggilega komin 2 ár síðan síðast, en hins vegar hefði ég alltaf verið með fínan þrýsting.  Reyndar hefði hann verið svona í efri mörkum þá, enda mikið stress og álag þá um stundir. 

Læknirinn tók sig til og mældi, tók síðan af sér hlustunarpípuna, og sagði:  Ásgeir, þú ert með hættulega háan þrýsting, sem verður strax að bregðast við.  Ég sagði við hann að þetta væri nú örugglega bara eitthvað tilfallandi, enda hefði ég verið í erilsömu álagsstarfi, þar til fyrir nokkrum mánuðum.  "Svona há gildi verða ekki skýrð með stressi og álagi" sagði þá minn maður.  Þrýstingur af þessu tagi (195/115) eru það sem kalla má "silent killer" ef ekkert er að gert.  Þetta er ávísun á heilablóðfall.  Í framhaldinu var svo skrifaður út lyfseðill, pillurnar virðast virka á tilætlaðan hátt og allt að verða eðlilegt aftur. 

Ég hvet alla til að láta mæla blóðþrýstinginn reglulega.  Flestöll apótek bjóða viðskiptavinum sínum upp á mælingu, svo er auðvitað fullt af vinnustöðum sem hafa trúnaðarlækni og þangað er auðvelt að sækja slíka þjónustu.  Að ekki sé nú minnst á heilsugæslustöðina eða heimilislækninn.  Háþrýstingur er algjörlega einkennalaus, og lítið er vitað um orsakir hans.  Hann hefur ekkert endilega að gera með holdafar eða slíka þætti, heldur getur hann verið himinhár hjá hinum mestu mjónum.  Ekki draga að láta mæla - það er mikilvægt að hafa þrýstinginn í lagi!


Tímastjórnun - aðferð til árangurs

Fyrisögnin er fengin að láni hjá góðum vini mínum, Thomasi Möller.  Hann hefur skrifað bók um tímastjórnun, hann er einnig höfundur dagbókar Odda sem margir eiga, og inniheldur mörg góð ráð um tímastjórnun, markmiðasetningu og aðrar aðferðir til að ná árangri.  Þar að auki hefur Thomas haldið fjölmörg námskeið um tímastjórnun og stjórnun almennt. 

"Ég hef tekið eftir því að þeir sem ná árangri nýta tíma sem aðrir sóa" á Henry Ford eitt sinn að hafa sagt.  Þetta eru án efa orð að sönnu.  Herbert von Karajan sagði einhvern tíma að "þeir sem náð hafa öllum sínum markmiðum hafa sett þau of lágt".  Mannskepnan þarf stöðugt að takast á við ný verkefni, og fyrir marga er nauðsynlegt að þau séu bæði örgrandi og krefjandi.  "Fólk sem nær árangri setur sér skýr, skrifleg markmið" skrifar Brian Tracy í einni af bókum sínum.  Thomas segir í dagbókinni góðu að markmiðin þurfi að vera SMART - þ.e. Skýr, Mælanleg, Aðgerðatengd, Raunhæf og Tímasett. 

Ég hvet alla til að velta fyrir sér mikilvægi markmiðasetningar og góðrar tímastjórnunar.  Þeir sem sinna því vel eru líklegri en aðrir til að ná langt í lífinu, lifa innihaldsríku og gefandi lífi, auk þess sem þeir eru líklegri til að búa við góða heilsu og hamingju.  "Lifðu eins og þú munir deyja á morgun - lærðu eins og þú munir lifa til eilífar".  Lífið er stórkostlegt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband