Færsluflokkur: Menning og listir

Tónleikar á heimsmælikvarða

Ég stenst ekki freistinguna og rýf bloggþögnina e.t.v. fyrr en ég ætlaði. Ástæðan er einföld. Við hjónin fórum í Iðnó í kvöld og nutum þess að hlusta á tónleika Þórs Breiðfjörðs Kristinssonar söngleikjasöngvara ásamt Vigni undirleikara hans.

Þór er "gamall" rokkari sem gerði garðinn frægan á sínum tíma í Hárinu og Superstar áður en hann hélt utan og nam söngleikjasöng í virtum skóla í London. Eftir það átti hann glæstan feril á West End um hartnær áratugarskeið. Hann er nú fluttur til Kanada ásamt fjölskyldunni, búinn að kaupa sér hús uppi í sveit og því orðinn nokkurs konar "tónlistarbóndi".

Tónleikar þeirra félaga í kvöld voru sannarlega góðir. Þór fór á kostum í helstu perlum söngleikjanna, bæði þeirra gömlu að "westan" sem og nýrri og klassískra söngleikja eins og Hringjarinn frá Notre Dam og Vesalingarnir. Tilfinnaskalinn var þaninn til hins ítrasta sem og tónskalinn, sem spannar býsna breitt svið. Þór er sannarlega stórsöngvari í orðsins fyllstu merkingu, röddin bæði stór og mikil og túlkunin afar fáguð og listræn.

Það er full ástæða til að benda þeim sem eru á ferðinni á Hvammstanga þ. 15. júlí eða á Akureyri daginn eftir að skella sér á tónleika og hlýða á söng Þórs, því þar ætla þeir félagar einnig að troða upp. Heimasíða Þórs er hér.


Verðum við númer 11?

Flott hjá þeim í kvöld Eurobandinu, fumlaus og kröftugur flutningur. Ég sem hef ekki haft áhuga á að fylgjast með þessu í mörg ár - hver veit nema maður fylgist bara með á laugardaginn! Gaman að fylgjast með stemmingu á Dalvík, þar kunna menn greinilega að fagna og styðja vel við bakið á sínum manni.
mbl.is Ísland verður 11. í röðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strætókórinn 50 ára - nostalgía

Við hjónakornin skelltum okkur á afmælistónleika Strætókórsins í kvöld. Um þessa mundir eru liðin 50 ár frá því að nokkrir starfsmenn SVR tóku sig til og stofnuðu tvöfaldan kvartett, sem síðar varð að Söngfélögum SVR og loks að Strætókórnum. Þessi merki kór hefur haft marga ágæta söngstjóra, t.d. Jónas Ingimundarson, Jón Stefánsson, Sigvalda Kaldalóns, Guðlaug Viktorsson og nú Guðmund Ómar Óskarsson.

Það er eitthvað alveg sérsakt við þennan kór. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að syngja með þeim í nokkur ár og taka þar með þátt í þessum skemmtilega félagsskap. Enn er einn af stofnfélögunum starfandi með kórnum, Frantz Pétursson, sem vann hjá SVR um árabil. Hann bauð kórfélögum (gömlum og nýjum) í kaffisamsæti eftir tónleikana þar sem rifjaðar voru upp gamlar minningar auk þess sem hann var gerður að heiðursfélaga. Það voru sýndar gamlar myndir úr starfi kórsins, þar á meðal mynd frá fyrstu árunum tekin í stofunni heima, en þangað kom kórinn ævinlega í heimsókn á gamlársdag um árabil og söng fyrir forstjórann og gesti hans. Bernskuminningin er sterk, ég man eftir að hafa setið sem lítill patti í forundran og hlustað á margradda söng sem hljómaði vel. Ætli þetta hafi bara ekki kveikt kóráhugann?

Ég færi þessum góðu félögum mínum bestu þakkir fyrir frábæra skemmtun í kvöld og óska þeim innilega til hamingju með afmælið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband