Færsluflokkur: Ljóð

Formannsþankar Stefnis - II

S.l. föstudagskvöld, 26. 10.2007 var á dagskrá RÚV þátturinn Útsvar, þar sem sveitarfélögin etja kappi.  Að þessu sinni leiddu saman hesta sína fulltrúar Vestmannaeyja og Mosfellsbæjar.  Það var að ekki að spyrja að því, sveitungar mínir Mosfellingar gerðu góða feð suður og unnu rimmuna með glæsibrag.  Það var enda einvalalið frá hálfu Mosfellsbæjar, Diddú eðalsöngkona frá Túnfæti, Bjarki menningarbóndi á Hvirfli og Höskuldur prófessor og söngfélagi minn í karlakórnum Stefni.

Eftir hina frækilegu sigurför sendi formaður Stefnis Höska tölvupóst, enda þótti honum að Stefnisfélaginn hefði borið af í frammistöðu annars ágæts liðs, sem fékk 67 stig úr rimmunni við Vestmanneyinga:

Þarna var heilmikil harka

hláturinn ekkert að marka

og hvergi brást liðið

með Höskuld í miðið

með hjálp frá Diddú og Bjarka.

 

Hann flest veit frá A til Ö

og eitthvað þau hin þarna tvö.

Hún er alls engin blekking

þessi afburða þekking

það er flott að fá 67.

Af sinni alkunnu hógværð svaraði Höski formanni, og þótti tilhlýðilegt að leiðrétta þann misskilning að hann hefði haft eitthvað meira að gera með sigurinn en þau hin.  Sagði að Bjarki hefði nú verið sá sem allt vissi - enda mikill spekingur og frægur spurningabani frá fyrri tíð.  Formaðurinn lagði  nú ekki meiri trú en svo á orð Höska, að hann sendi honum þennan kveðskap til baka: 

Já, Bjarki er bráðskarpur fýr

og brosmilda dívan er hýr,

en þú gast þetta einn,

þú ert gáfaður sveinn.

En  - það þurfa að vera þrír.

Já, góðir hálsar, það er gaman í karlakór.  Og það var býsna gaman hjá okkur á bjórkvöldinu í kvöld! 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband