Glöggt er gests augað

Land- og ferðamálafræðiskor hélt áhugaverða málstofu í Öskju í dag, miðvikudag. Umfjöllunarefnið voru bílar og umferð í borginni. Tvö erindi voru flutt, annars vegar af frönskum doktorsnema við deildina sem kallaði fyrirlestur sinn "Cars and the City" eða "Bílar í borginni" og hins vegar breskur prófessor í "mobility and urban planning" við Álaborgarháskóla.

Hinn franski doktorsnemi, Virgile Collin-Lange greindi frá rannsókn sem hann framkvæmdi nýlega meðal menntaskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Þar spurði hann viðmælendur sína um ferðamáta og velti fyrir sér þeirri óvenjulegu staðreynd hversu margir eiga bíl. Hann spurði einni um hið séríslenska fyrirbæri "rúntinn" - það eru greinilega margir unglingar sem nota bílinn í félagslegum tilgangi, merkilegt nokk. Helstu niðurstöður hans voru þær að bílaeign unglinga er ekki einungis í samgöngulegum tilgangi, heldur hefur einnig með lífsstíl að gera. Einn viðmælanda hans sagði eitthvað á þessa leið: "Bíllinn minn er eitthvað það fallegasata sem ég hef nokkurn tíma eignast. Við erum ástfangin. Ég fæ bílpróf eftir mánuð, og þaðan í frá munu ég og bíllinn minn verða ástfanginn að eilífu. Bíllinn minn er eitt það besta sem hefur gerst í lífi mínu. Ég keypti hann sjálf(ur) og ég vann mikið til að geta keypt hann." Það var athyglisverð staðreynd að áður en ungviðið fékk bílpróf voru tæplega 40% þeirra sem tóku strætó í skólann, en eftir að þau voru komin með bílpróf datt þetta hlutfall niður fyrir 10%.

Hinn breski Tim Richardson fjallaði um það vandasama verkefni sem blasir við í borgum nútímans, sem standa frammi fyrir síaukinni umferð og meiri þrengslum og töfum. Hann sagði m.a. frá tilraunum sem hafa verið gerðar í London, Osló og Edinburg, þar sem umferð í miðborgunum var takmörkuð með gjaldtöku. Ken Livingstone, borgarstjóri í London er frumkvöðull á þessu sviði. Hann lagði pólitíska framtíð sína að veði þegar hann ákvað að leggja gjald á umferð í miðborg London, en uppskar ríkulega. Allir voru meira og minna á móti þessum aðgerðum áður en ráðist var í þær, en eftir að reynslan er fengin er fólk upp til hópa ánægt. Livingstone var síðar endurkjörinn borgarstjóri með góðri kosningu. 

Báðir fyrirlesarar voru undrandi yfir bílaborginni Reykjavík og hinni miklu bílamenningu sem hér ríkir. Það mátti sjá a.m.k. einn borgarfulltrúa meirihlutans á málstofunni, sem er virðingarvert. Nú verður spennandi að sjá hvort borgarstjórnin ætlar að fylgja fast eftir áformum sínum um mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar - svo við þurfum ekki að bíða í 2 eða 3 ljós þessar 10 - 15 mínútur, tvisvar á dag þegar mesti álagstíminn er. Þá getum við áfram ekið í bílunum okkar alein til og frá vinnu, og strætó heldur áfram að bíða í sömu röðinni eins og allir hinir.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband