Búðarferð án forsjárhyggju

Við Davíð fórum í dag og keyptum í matinn, nánar tiltekið í þá ágætis verslun Sainsbury´s.  Það er gaman að fara í góðar matvörubúðir þar sem er gott úrval og góð verð.  Við keyptum kartöflur og ýmislegt fleira, því nú erum við að sjóða hangiket.  Það verður veisla með öllu tilheyrandi:  hangikjöt með uppstúf, ora grænum og öðru sem þess háttar kræsingum tilheyrir.  Nú er kominn þessi fíni ilmur í íbúðina, það er jólalykt í húsinu.

Það vakti athygli mína að auk hefbðundinna matvæla var gott úrval af áfengi ýmiss konar.  Þarna gat maður valið úr góðu rauðvíni og hvítvíni frá hinum og þessum stöðum, gott úrval af bjór, og það sem meira er að þá var hægt að velja á milli ýmissra góðra viský tegunda og annarra sterkra drykkja.  Ég tók líka eftir því að svo virtist sem að þeir sem voru að kaupa inn í búðinni voru ekkert endilega bundnir meira yfir þessum vörum frekar en grænmetinu og ávöxtunum.  Það sem meira er, bæði börn og unglingar voru áberandi meðal viðskiptavinanna, ekki varð þó séð að þau væru að sniglast í kringum vínrekkana. 

Mér finnst við Íslendingar vera heimóttalegir í umræðunni um hvort leyfa eiga sölu bjórs og borðvína í matvöruverslunum.  Umræðan ber öll keim af forsjárhyggju og því að nauðsynlegt sé að hafa vit fyrir fólki.  Mér er sagt að alkahólismi sé sjúkdómur.  Það er því líklegt að þeir sem eru haldnir þessum sjúkdómi láti ekki aðgengið að vímugjafanum aftra sér.  Mér finnst miður að hugsanleg áhrif á þá sem eru veikir fyrir eigi að hafa áhrif á það hvort allir hinir eigi að geta keypt sér rauðvín um leið og steikin er keypt.  Það er svona svipað og að taka burt allar sykraðar vörur úr venjulegum búðum af tillitssemi við sykursjúka.  Látum nú af sveitamennskunni og smásálarhugsunargangnum, lyftum huganum upp á ögn æðra plan og leyfum frjálsum straumum að leika um vanga okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Einarsson

Sæll frændi og verði ykkur að góðu í hangiketsveislu í bretaveldi reikna ég með. Þessar pælingar þínar með úrvalið í búðinni og hvað má og ekki má eru ágætar, minna mig á þegar ég verslaði inn til heimilisins hálfsmánaðarlega í Tesco, en maður mátti gæta sín því eftir var að fara í gegn um nálarauga tollarana heima og því rétt svo að maður lyktaði af vínrekkunum. 

Lenti í smá debat um aðgang að víni í matvörubúðun á Goðahólnum mínum um daginn. Þetta er hitamál og tilfinningar og bitur reynsla margra af alkoholisma blandast sterkt í umræðuna.

Jóhannes Einarsson, 11.11.2007 kl. 18:16

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Flyttu bara aftur í Mosó, Ásgeir minn. Þar er, eins og þú veist, enginn heimóttarskapur á ferðinni. Innangengt úr öllum helstu stofnunum og fyrirtækjum bæjarins í búsbúðina.

Samt eru merkilega margir Mosfellingar edrú amk. flesta virka daga.

Ætlar þú annars að vera lengi með Tjöllum?

Sigurður Hreiðar, 12.11.2007 kl. 08:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband