Meðvitundarleysi í umhverfismálum

Nú hefur verið birt ný skýrsla á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNEP) um stöðu og horfur í umhverfismálum.  Skýrslan (GEO-4) er viðamikil, nær 600 síður, og að gerð hennar hafa komið fjölmargir vísindamenn og sérfræðingar um heim allan.  Megin niðurstaða skýrlsunnar er að u.þ.b. 60% af lífríki mannkyns séu í hættu vegna rányrkju mannsins.  Vissulega hefur margt vel verið gert, en betur má ef duga skal.  Mesta ógnin stafar af loftslagsmálum, og hvatt er til aðgerða sem draga úr loftslagsmengun og hlýnun andrúmsloftsins. 

Svo virðist sem Íslendingar séu stikk frí að stórum hluta þegar kemur að umræðunni um umhverfismál og aðgerðir til að bregðast við aðsteðjandi vanda.  Umræðan einkennist oftar en ekki af vanþekkingu og litlum áhuga á þessum þýðingamiklum málaflokki.  Þá virðist einnig skorta verulega á að Íslendingar geri sér grein fyrir mikilvægi þess að viðhafa ábyrga hegðun í umhverfismálum, svo sem með því að draga úr akstri einkabílsins, flokka sorp, endurvinna úrgang o.s.frv.

Margt hefur áunnist í umhverfisvernd á Íslandi.  Með skipulögðum hætti er unnið að jarðvegsfoki og landeyðingu, þótt enn sé langt í land í þeim efnum.  Metnaðarfull tilraun var gerð með rekstri vetnisstrætisvagna, sem gengu alfarið fyrir innlendum orkugjöfum.  Á sorphaugunum í Álfsnesi verður til nægjanlega mikil metangas til að knýja allan strætisvagnaflota höfuðborgarsvæðisins.  Nú þegar eru tveir vagnar á götunum sem ganga fyrir metangasi, sem hafa reynst vel. 

Íslendingar hafa náð frábærum árangri í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, bæði vatnsafli og gufuafli.  Upphitun húsa og rafmagnsnotkun er nærri 100% frá slikum orkugjöfum, hlutfall sem er einstakt í heiminum.  Um 30% af heildarorkunotkun á Íslandi er hins vegar í formi jarðefnaeldsneytis, en þar vegur þyngst rekstur bíla- og skipaflotans.  Það er verðugt verkefni að vinna að lausnum sem dregur úr notkun jarðefnaeldsneytis, það er best gert með auknum rannsóknum, metnaðarfullum tilraunum og síðast en ekki síst ábyrgari hegðun okkar allra.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband