Strætókórinn 50 ára - nostalgía

Við hjónakornin skelltum okkur á afmælistónleika Strætókórsins í kvöld. Um þessa mundir eru liðin 50 ár frá því að nokkrir starfsmenn SVR tóku sig til og stofnuðu tvöfaldan kvartett, sem síðar varð að Söngfélögum SVR og loks að Strætókórnum. Þessi merki kór hefur haft marga ágæta söngstjóra, t.d. Jónas Ingimundarson, Jón Stefánsson, Sigvalda Kaldalóns, Guðlaug Viktorsson og nú Guðmund Ómar Óskarsson.

Það er eitthvað alveg sérsakt við þennan kór. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að syngja með þeim í nokkur ár og taka þar með þátt í þessum skemmtilega félagsskap. Enn er einn af stofnfélögunum starfandi með kórnum, Frantz Pétursson, sem vann hjá SVR um árabil. Hann bauð kórfélögum (gömlum og nýjum) í kaffisamsæti eftir tónleikana þar sem rifjaðar voru upp gamlar minningar auk þess sem hann var gerður að heiðursfélaga. Það voru sýndar gamlar myndir úr starfi kórsins, þar á meðal mynd frá fyrstu árunum tekin í stofunni heima, en þangað kom kórinn ævinlega í heimsókn á gamlársdag um árabil og söng fyrir forstjórann og gesti hans. Bernskuminningin er sterk, ég man eftir að hafa setið sem lítill patti í forundran og hlustað á margradda söng sem hljómaði vel. Ætli þetta hafi bara ekki kveikt kóráhugann?

Ég færi þessum góðu félögum mínum bestu þakkir fyrir frábæra skemmtun í kvöld og óska þeim innilega til hamingju með afmælið.


Hvað þarf til að sjálfstæðismenn átti sig?

Vegferð Sjálfstæðisflokksins í Borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er ein samfelld sorgarsaga. Nú rétt tæpum tveimur árum eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks náði völdum stendur ekki steinn yfir steini. Borgarstjóranum tókst á þeim skamma tíma sem hann var við völd í Ráðhúsinu að svæla í burtu fjöldan allan af hæfu og góðu fólki. Eftir að hann lét af störfum heldur þessi sorgarsaga áfram, jafnvel þótt nú sé flokkurinn á ný kominn í meirihluta. Forystan er sundruð, ekkert liggur fyrir um hver taki við embætti borgarstjóra eftir 10 mánuði auk þess sem litlir kærleikar virðast innan raða borgarfulltrúanna.

Skoðanakönnun dagsins sýnir svo ekki er um að villast að forysta sjálfstæðismanna í borgarmálum hefur beðið skipbrot. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir forystusveit flokksins. Hvað skyldi flokksforystan ætla að láta fleyið reka lengi stjórnlaust? Hva þarf til að þeir átti sig?


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgarlæri a la MBA

Það er fátt um fína drætti og glæsileg afrek í eldhúsinu þessa dagana. Undir öllum venjulegum kringumstæðum væri maður vísast búinn að elda a.m.k. einu sinni um helgina ærlega máltíð, t.d. lambalæri með rauðkáli og grænum baunum, að ógelymdu malti og appelsín með (enda það sterkasta sem tengdamamma fæst til að drekka.....). Þess í stað er bara setið við lærdóminn, svo það verður víst að vera það sem næst kemst lærinu þessa helgina.

Búinn að skila af mér einu verkefni í dag, annað er í vinnslu og gengur bara prýðilega sýnist mér. Stefni á að skila því á morgun. Kennsluhelgi framundan, skólaseta n.k. föstudag og laugardag. Það er farið að síga aðeins í verð ég að viðurkenna, enda komið langt fram á vor. Nú er bara að halda þetta út. Það verður kennt alveg fram yfir mánaðamót, en síðasta prófið verður laugardaginn 7. júní. Mikið lifandis skelfing verður gaman þann dag! Eftir próflok kl. 13 söfnumst við saman hópurinn og efnum til MBA-leikanna með tilheyrandi hópefli, leikjum og húllum-hæ. Mér er ekki grunlaust um að það eigi eftir að verða mikið fjör og stuð langt fram eftir nóttu.

Námsgreinarnar nú á lokasprettinum eru býsna ólíkar: Fjármál fyrirtækja og Mannauðsstjórnun. Áhugavert að skygnast inn í fræðin, fjármálastjórnun er reyndar eitthvað sem maður þekkir af reynslu í gegnum tíðina en það sama er ekki hægt að segja um mannauðsstjórnunina. Sumum finnst þetta fag algjört froðusnakk, skoðanir á því eru misjafnar eins og gengur. Mannauðurinn er sennilega vanmetin auðlind víða, það er því til mikils að vinna að sinna þessum málaflokki vel, enda líklegt að þau fyrirtæki sem það geri uppskeri ríkulega.


Hjólað í vinnuna: 14 km fyrsta daginn

Þrátt fyrir rigningu og dumbung lét maður sig hafa það að fara á hjólinu í vinnuna í dag. Fór fyrst á námskeið í HR, síðan á fund í Faxafeni, þá í vinnuna og loks í búð neðst á Laugaveginum áður en haldið var heim á leið. Samtals rétt rúmir 14 km. Góð tilfinning og gaman að taka þátt. Það er ágætis þátttaka á vinnustaðnum, komin tvö lið og hartnær 40% starfsmanna eru með. Nú er auðvitað ekkert annað í stöðunni en að salla inn kílómetrunum og færa samviskusamlega inn á skjalið, þannig að það skiptir máli að vera með frá fyrsta degi.

 


Snúa bökum saman?

Er ekki tímabært fyrir þessa tvo dugmiklu einstaklinga að ákveða á þessum tímapunkti að snúa bökum saman og setja á laggirnar sameiginlegt framboð forseta og varaforseta? Ef ekki er hætt við að það skemmi fyrir þeim báðum og keppinauturinn standi með pálmann í höndunum þegar kemur að kosningunum í haust.
mbl.is Jöfn barátta forsetaframbjóðanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgreining kaupenda og seljenda opinberrar þjónustu

Ég hlustaði eins og svo oft áður á Silfur Egils í dag. Umræðurnar voru í senn fjörugar og athyglisverðar. Það var gaman að sjá gömlu brýnin Ragnar Arnalds og Jón Baldvin takast á um Evrópumálin, þessir karlar hafa engu gleymt þegar kemur að mælskulistinni og málafylgjunni.

Í fyrri hluta Silfursins var mikið rætt um heilbrigðismálin. Mér fannst Guðlaugur Þór standa sig nokkuð vel, hann lét ekki koma sér úr jafnvægi þótt hart væri að honum gengið, sérstaklega af fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttur. Fram kom í máli Guðlaugs að mikil áhersla væri nú lögð á aðgreiningu kaups og sölu á opinberri þjónustu, í þessu tilviki innan heilbrigðisþjónustunnar. Með því móti væru áherslurnar lagðar á að fá sem best verðmæti fyrir það fjármagn sem í þessa þjónustu væri veitt. Þetta hljómar skynsamlegt.

Á höfuðborgarsvæðinu starfrækja sveitarfélögin sjö þrjú byggðasamlög: Slökkviðliðið, Sorpu og Strætó. Starfsemi Slökkviliðsins og Sorpu hefur verið í góðri sátt milli sveitarfélaganna eftir því sem best verður séð og lítill sem enginn ágreiningur um áherslurnar þar. Öðru máli gegnir um Strætó. Þar á bæ hafa hins vegar hlutirnir ekki gengið jafn vel, enda var grundvallarbreytingum á þjónustunni hrint í framkvæmd árið 2005. Þegar grundvallarbreytingar eru gerðar á þjónustu í almannaþágu er eðlilegt að þær falli í misjafnan jarðveg, enda hver sjálfum sér næstur í þeim efnum. Það á við bæði um viðskiptavinina, eigendurna og starfsmennina.

Frá því ég lét af störfum sem framkvæmdastjóri Strætó bs hef ég lítið tjáð mig um málefni byggðasamlagsins. Ég get þó ekki látið hjá líða í þessu sambandi að lýsa þeirri skoðun minni að mikilvægt sé að aðgreina þjónustu-, skipulags- og umsjónarhlutverki Strætó frá akstri vagnanna. Strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu er nú um mundir ekið af fjórum rekstraraðilum. Auk Strætó bs eru þetta þrjú fyrirtæki í einkaeigu, Hagvagnar, Teitur Jónasson og Allrahanda. Með því að aðgreina rekstur vagnanna frá annarri starfsemi byggðasamlagsins næst meiri gegnsæi og línur verða skýrari. Með vel skilgreindum útboðsgögnum og öflugu gæðaeftirliti má tryggja að þjónustan verði í þeim gæðaflokki sem til er ætlast.

Það er svo annað mál hvort sveitarfélögin eigi yfir höfuð að vera að vasast í útgerð farartækja. Það sem háir starfsemi Strætó fyrst og fremst eru pólistísk afskipti af rekstrinum. Þannig fá stjórnendur ekki nauðsynlegt svigrúm til að reka fyrirtækið samkvæmt lögmálum almenns fyrirtækjarekstrar. Það er athyglisverð staðreynd að 5 af 7 aðildarsveitarfélögum byggðasamlagsins er stýrt af sjálfstæðismönnum, þrjú af þeim hafa hreinan meirihluta. Stjórnarformaður byggðasamlagsins undanfarin tvö ár er forseti bæjarstjórnar Kópavogs og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir þetta bólar ekkert á umræðu í þá veru að færa farartækjaútgerð frá byggðasamlaginu og úthýsa henni alfarið, enda vel þekkt áhugaleysi sveitarstjórnamanna á höfuðborgarsvæðinu um málefni almenningssamgangna.

Framundan er útboð á akstri þar sem samningar við þá þrjá aðila sem sinna akstrinum eru nú að renna sitt skeið. Það er því kjörið tækifæri fyrir stjórn Strætó bs að stíga skrefið til fulls og bjóða út alla starfsemina. Ef þetta er eitthvað viðkvæmt heima fyrir geta sveitarfélögin út af fyrir sig alltaf stofnað sitt eigið félag sem býður í reksturinn og keppir þannig á jafnréttisgrundvelli við alla hina.

Um leið og ég býð fyrrum vinnufélaga mína hjá Strætó velkomna sem bloggvini mína verður áhugavert að lesa viðbrögð þeirra við þessum hugrenningum mínum.


Merkur stjórnmálamaður hættir

Ken Livingstone er einn af merkilegustu stjórnmálamönnum samtímans. Hann er stjórnmálamaður sem þorir og er trúr sannfæringu sinni. Hann lyfti Grettistaki í almenningssamgöngum í London, en líklegast verður hans einna helst minnst fyrir að koma á s.k. þrengslaskatti (e. Congestion Charges) í London. Með því móti tókst að stemma stigu við umferð einkabíla um miðborg London og þannig draga stórlega úr henni. Þessi ákvörðun var í fyrstu mjög umdeild en eftir því sem leið á hefur hún notið sífellt meiri stuðnings almennings.

Það verður athyglisvert að fylgjast með Boris, hinum nýja borgarstjóra og verkum hans. Það er ekki einfalt að feta í fótsport Livingstone, trúlegt er að margir Lundúnarbúar eigi eftir að sakna hans og verka hans.


mbl.is Borgarstjóraskipti í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valborgarmessa

1. maí er merkilegur dagur fyrir margra hluta sakir. Þekktastur er hann fyrir að vera alþjóðlegur baráttudagur verkamanna. Í heiðnum sið var þessi dagur gjarnan haldinn hátíðlegur sem n.k. sumardagurinn fyrsti. Í kristnum sið hefur hin heilaga Valborg fengið þennan dag sér til heiðurs. Í Svíþjóð er hann jafnan haldinn hátíðlegur, þó einkum daginn áður á "Valborgsmässafton". Á námsárunum í Uppsölum var gaman að vera þennan dag, því nákvæmlega kl. 15 gekk rektor fram á svalir háskólabókasafnisins þar sem mannfjöldinn hafði safnast saman. Allir höfðu með sér stúdentshúfuna sem þeir settu upp um leið og rektorinn gerði slíkt á svölunum. Að því búnu hlupu allir eftir Drottningagötu niður að Fyrisánni, sem rennur í gegnum borgina miðja. Dagurinn var yfirleitt tekinn snemma á þessum hátíðisdegi stúdenta, fólk safnast saman víða um bæinn og fær sér síld, öl og snaps. Svo er dansað og sungið fram eftir nóttu. Notalegar þessar minningar sem rifjast upp á þessum degi.

Það fer vel á því að láta fylgja með skilgreiningu vina okkar og frænda í Færeyjum á þessum merka degi: Valborgarmessa er 1.mai. Dagurin eitur eftir einari Valborg, ið var borin í heim í Wessex í Onglandi ár 710 og doyði 25. februar 779. Hon var kosin halgimenni 1. mai 779, og hesin dagur er minnisdagur hennara í Norðurlondum. Í katólsku kirkjuni er tað tó deyðsdagur hennara, 25. februar, ið verður minnisdagur. Møguliga er upprunin til dagin ein várfagnaður, sum í víkingatíð hevur verið hildin umleið 25. februar. Dagurin verður so helst fyrst knýttur at deyðsdegi Valborgar, og eftir at hon er kosin halgimenni 1. mai, flytur fagnurin til henda dag. Í Svøríki verður dagurin hildin sum studentadagur, og í Finnlandi verður dagurin hildin við fagnaði, ið svarar til nýggjársaftan. (Heimild: Wikipedia)

Til hamingju með daginn góðir hálsar, til sjávar og sveita.


Þetta reddast

Manni dettur helst í hug vanþroskað og óábyrgt samfélag sem lætur jafn mikilvæg mál og hér um ræðir komsast í þá stöðu sem raun ber vitni. Á síðustu metrunum ranka menn loksins við sér þegar allt stefnir í óefni. Nú stóla menn líklegast á gamla góða trikkið - þetta reddast.
mbl.is Styttist í niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfram mjakast þetta allt saman - sól á Sólvangi

Það er ennþá nóg að gera á vettvangi MBA námsins þótt langt sé liðið á vorið. Nú er síðast áfanginn á þessari önn hafnn, honum lýkur ekki fyrr en 7. júní n.k. Þá kemur langþráð sumarhvíld í næstum því þrjá mánuði. Nú er verið að kljást annars vegar við fjármál fyrirtækja og hins vegar mannauðsstjórnun. Ólíkar greinar en báðar áhugaverðar. Ekki spillir fyrir að kennararnir eru góðir - menn sem kunna sitt fag og einnig þá list að miðla þekkingunni.

Það var mikill léttir að ljúka tveimur síðustu námskeiðum, reikningshaldi og rekstrarstjórnun. Hvorutveggja nokkuð strembnar greinar sem kröfðust mikils vinnuframlags. Það var því ljúft að uppskera þokkalegar einkunnir úr þeim báðum.

Svo er það ein góð og notaleg frétt úr vinahópnum: Hún Berta Sóley er komin heim til sín á Sólvang. Henni lá einhver ósköp á í heiminn, hún og tvíburasystir hennar fæddust á Valentínusardaginn, þ. 14. febrúar s.l., eftir tæpa 28 vikna meðgöngu. Hún var ekki nema 1000 g litla skinnið, og þurfi því bæði á vaxtarækt og ljósabekk að halda á vökudeildinni. Hún er nú orðin 2600 g og dafnar vel. Það er á stefnuskránni að heimsækja hana og nýbakaða foreldrana fljótlega. Tvíburasystir Bertu Sóleyjar, Elsa Björt, lifði ekki nema 6 daga. Það er mikið og ögrandi verkefni fyrir ungt fólkt að takast samtímis á við gleði og sorg, það er ekki einfalt hlutskipti. Við dáumst að ungu foreldrunum fyrir æðruleysi þeirra, og óskum fjölskyldunni alls hins besta í framtíðinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband