Senn lýkur náminu

Þessa dagana er ég í orlofi frá vinnunni, einkum til að taka smá törn í MBA náminu sem nú er senn á enda runnið. Á fjórðu og síðustu önn námsins tökum við valnámskeið, annað hvort þrjú slík og lokaverkefni eða fjögur námskeið. Gert er ráð fyrir að fyrri hluta annarinnar taki maður tvö námskeið og á þeim síðari hin tvö eða eitt námskeið og lokaverkefni eftir atvikum. Ég valdi að taka fjögur námskeið, og ekki nóg með það, tek þau öll á fyrri hlutanum. Það er nefnilega svo freistandi að vera búinn í byrjun mars í stað lok maí. Fyrir bragðið tekur maður sé frí núna nokkra daga í vinnunni og notar tímann í námið, nema auðvitað þegar maður lítur upp úr bókunum og fær smá útrás á blogginu.

Ég er þeirrar skoðunar að almennt hafi maður gott af því að staldra við endrum og sinnum í lífinu og takast á við nýjar áskoranir. MBA nám sem stundað er samhliða vinnu flokkast tvímælalaust sem ögrandi verkefni og er þess vegna mikil áskorun. Ekki síst þegar langt er um liðið frá því maður lauk hefðbundnu háskólanámi, voru 27 ár í mínu tilviki! Námið hefur bara gert mér gott eitt til. Ég hef endurnýjað kunnáttuna í flest öllum greinum viðskiptafræðinnar, fengið leiðsögn góðra kennara, hlustað á færa sérfræðinga (jafnt innlenda sem innlenda), heimsótt áhugaverð fyrirtæki og unnið í fjölbreytilegum verkefnum. Síðast en ekki síst hef ég kynnst hópi af frábæru fólki sem eru bæði með fjölbreyttan bakgrunn og mismunandi áhugasvið. Hópurinn hefur náð að tengjast vel innbyrðis, hann stendur þétt saman jafnt í leik sem starfi. Ég er sannfærður um að þessi tengsl og vináttubönd eiga eftir að endast mörgum okkar út ævina.

Á tímum óvissu og efnahagsþrenginga eru margir sem staldra við og hugsa sinn gang. Á slíkum tímapunkti er fyllilega þess virði að hugleiða nám eða einhverjar aðrar breytingar sem gera manni gott. Það eflir mann og styrkir, víkkar sjóndeildarhringinn og eflir færnina. Nú er bara að stíga skrefið, þau ykkar sem eru að hugsa sér til hreyfings!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband