Magnaðasta ræða þingmanns fyrr og síðar

Vilmundur Gylfason flutti ræðu á Alþingi í nóvember 1982 á eldhúsdegi. Það er áhugavert að lesa þessa ræðu nú á tímum kreppu og umræðu um vanmátt stjórnkerfisins til að bregðast við vandanum. Þessa ræðu ættu allir upplýstir og hugsandi einstaklingar að lesa vandlega:

 

Herra forseti. Væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna verður andvígt núv. ríkisstj. Ég stend því að vantrausti því sem mælt hefur verið fyrir hér í kvöld.

Verðþensla í landinu nemur næstum 70%, erlendar skuldir landsmanna nema nær 4 þús. Bandaríkjadölum á hvert mannsbarn, stjórnkerfið er forspillt. Margir hv. alþm. hafa af því starfa að afla sér fylgismanna með setu t.d. í bankaráðum og Framkvæmdastofnun ríkisins. Á meðan blæðir landinu og hafið er ofnytjað.

Núv. ríkisstj. stendur fyrir frið. Hún stendur fyrir þær sögulegu sættir sem Morgunblaðið boðaði á sinni tíð. Þar eru Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl., þó að nokkrir þeirra séu að forminu til fyrir utan vegna persónulegrar styggðar. Og innan míns gamla flokks eru þau mörg, sem vilja fá að vera með, þrátt fyrir vantraustið í dag. Ég vísa í viðtal við hv. þm. Magnús H. Magnússon í Morgunblaðinu fyrir hálfum mánuði.

En friðurinn í núv. hæstv. ríkisstj. er friður gegn fólkinu í landinu, friður utan um ekki neitt. Þetta er friður hins þrönga og lokaða flokkavalds, friður til varnar völdum og hagsmunum. Þess vegna væri best að vantraustið væri samþykki og ríkisstj. færi þegar frá. Hvað svo?

Alþingi er skylt að gera tvennt áður en næstu alþingiskosningar fara fram. Koma því skikki á efnahagsmál sem hægt er, þó það sé auðvitað þolinmæðisverk sem tekur tíma, og ganga frá frv. til nýrrar stjórnarskrár. Þetta væri pólitískt óhæfuverk að efna til kosninga í skyndingu áður en slíku verki er lokið. Þess vegna á að kjósa í vor, þó svo hið þrönga valdakerfi sé nú ótt og uppvægt að efna í skyndingu til kosninga þegar það finnur hina þungu undirstrauma samfélagsins, hina hljóðlátu og ábyrgu uppreisn gegn því sjálfu.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj., sem auðvitað hefur ekki aðeins glatað trausti samfélagsins heldur einnig sjálfstrausti og sjálfsvirðingu, hefur sagt af sér er það samt að fara úr ösku í eld, ef einhver ímyndar sér að hv. þm. Geir Hallgrímsson og Kjartan Jóhannsson ráði við þau verkefni sem hæstv. ráðherrar Gunnar Thoroddsen og Svavar Gestsson hafa ekki ráðið við. Slæmt er það, en verra getur það verið. Slíkt er auðvitað engin lausn, í besta lagi brosleg hugmynd.

Nei, lausnin verður að vera öðruvísi hugsuð. Við reynum fyrst meirihlutastjórn á Alþingi. En væntanlega mun það ekki reynast fær leið. Við reynum þá minnihluta stjórn. Það er einnig ólíklegt að það gangi, en þó ekki útilokað. Ef það bregst verðum við að mynda ríkisstjórn utanþingsmanna. Vitaskuld eru þeir hv. alþm. til, þverpólitískt talað, sem mundu sýna utanþingsstjórn fulla ábyrgð meðan verið væri að koma skikki á efnahagsmál, eftir því sem hægt er, og ganga frá drögum að nýrri stjórnarskrá.

Ég treysti til slíkra verka t.d. hv. þm. Geir Gunnarssyni, Sighvati Björgvinssyni, Halldóri Ásgrímssyni og Eyjólfi Konráð Jónssyni. Á meðan þessu færi fram eru hv. þm. Matthías Bjarnason, Helgi Seljan, Stefán Valgeirsson og Jón Hannibalsson að dunda við atkvæðaöflun í Framkvæmdastofnun ríkisins, bankaráðum ríkisbankanna og rándýrum fjölskylduhátíðum í Broadway.

Menn spyrja: Hver ætti að veita slíkri utanþingsstjórn forstöðu? Ég treysti t.d. Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra til þess, manni sem hefur verið níddur sem ímynd kerfismennskunnar, en hefur nýverið gert heilli ríkisstj. og ónýtu valdakerfi skömm til með því að freista þess að halda uppi landslögum og réttum leikreglum í verðtryggingarmálum, meðan fyrirgreiðslukerfið hefur skolfið og titrað, nítt og nagað og reynst ófært um einföldustu stjórnarathafnir.

Þeir hv. alþm. eru til, meira að segja margir, sem mundu koma fram af fullri ábyrgð við slíkar aðstæður, þó svo flokkakerfið, hin þrönga lokaða lágkúra mundi auðvitað segja nei.

Þetta um ríkisstj. og vantraustið. Samandregið er svarið einfalt. Ríkisstj. er ónýt og á að fara frá. Og brbl., eignatilfærslan vegna hinnar heimatilbúnu kreppu hins ónýta stjórnkerfis, eiga auðvitað að falla. Ef menn og samtök þeirra hafa samið af sér, þá skulu stjórnvöld gefa samninga lausa. Það er einföld leið, ábyrgðin til fólksins.

Menn hljóta að sjá og skilja undirstrikun þeirrar staðreyndar að valdakerfið í landinu, hin þröngu og lokuðu flokksvöld, hin fölsku völd hafa brugðist, því að stjórnmálasamtök sem enn eru ekki formlega til þó undirbúningur sé vel á veg kominn, Bandalag jafnaðarmanna, hafa ein stjórnmálasamtaka sett fram skýrar tillögur um kjördæma- og stjórnarskrármál.

Síðan 1978 hefur setið stjórnarskrárnefnd undir forustu hæstv. forsrh. Það að hann skuli enn sitja þar, þrátt fyrir sitt virðulega embætti nú, lýsir miklum metnaði en lítilli dómgreind.

Nýlega hafa hv. alþm. séð vinnugögn stjórnarskrárnefndar. Vinnan er lítils, jafnvel einskis virði. Það er umskrift á nokkrum gömlum greinum stjórnarskrárinnar. Ekkert er komið um nútímaleg ákvæði eins og eignarréttarhugmyndir eða mannréttindi minnihlutahópa, ekkert um frelsi til tjáningar eða hagsmunasamtök. Og að því er kjördæmamálið sjálft varðar er nefndin í sömu sporum og hún var þegar hún byrjaði.

Með örfáum virðulegum undantekningum sitja þarna varðhundar valdsins, varðhundar hins þrönga flokksræðis og hugsa um sjálfa sig og völd sín, völdin gegn fólkinu í landinu. Væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna hefur hins vegar flutt hér á Alþingi tillögur, sem ég veit að varla eiga enn mikinn hljómgrunn í þessu skelfilega húsi en ég er samt jafn sannfærður um að muni eiga fylgi að fagna út um hið víða og breiða land, ef tekst að brjótast fram hjá varðhundum valdsins og til fólksins sjálfs.

Við leggjum til að forsrh. sé kosinn beinni kosningu í tvöfaldri umferð ef ekki næst hreinn meiri hluti í þeirri fyrri. M.ö.o., að landið verði eitt kjördæmi að því er tekur til framkvæmdavaldsins.

Við leggjum til að að því er tekur til löggjafarvaldsins verði kjördæmaskipun óbreytt.

Við leggjum til að algerlega verði skilið milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.ö.o. að störf hv. alþm. verði að setja landinu almennar leikreglur og síðan að hafa eftirlit með því að þessum almennu leikreglum sé fylgt.

Við leggjum til að mörkun utanríkisstefnu, sem vitanlega er afar viðkvæm fyrir eyland í Atlantshafinu miðju, verði af hendi Alþingis, enda verði annað hættulegt.

Og við leggjum til að þingrofsréttur verði afnuminn, m.ö.o. að kosið sé reglulega á fjögurra ára fresti. Þetta mun í senn leiða til styrkrar stjórnar og mikillar valddreifingar. Umfram allt eru þetta tillögur, þar sem hægt er að ná fullum og réttmætum sáttum milli þéttbýlis og dreifbýlis, í stað þess byggðastríðs sem gamla flokkakerfið ástundar um þessar mundir.

Vitaskuld eru að hluta til tvær þjóðir í landinu, sú sem byggir þétt og hin sem byggir dreift. Ekki má gera of mikið úr slíkri skiptingu, en það má heldur ekki líta fram hjá henni. Í þéttbýli er meiri þjónusta, erfiðara að komast úr og í vinnu, en samt um sumt meiri möguleikar. Í dreifbýli vítt hugsað er þessu öfugt farið. Við verðum að taka tillit til þessara staðreynda og umfram allt ná fullum sáttum. Forsvarsmenn gamla flokkakerfisins vilja ekki sættir. Þeir vilja ómerkilegt stríð. Þeir vilja stríð milli landshluta, aðstöðu til sinna eigin atkvæðaveiða.

Sú leið sem væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna leggur til er fær. En hún felur miklu meira í sér. Hún felur það í sér að flokksvöldin, völd nokkurra hundraða karla og kvenna í svokölluðum stjórnmálaflokkum --- þar sem menn eru auðvitað fyrst og fremst að vernda aðstöðu í verkalýðshreyfingu eða verslunarráði --- á fjölmiðlum eða jafnvel í heimi lista og bókmennta verði brotin upp. Lýðræði verði gert virki og beint. Ekki aðeins á þessu sviði heldur mun fylgja í kjölfarið virki og raunverulegt lýðræði, ekki þröngt og lágkúrulegt flokksræði í hinum smærri einingum samfélagsins. Þetta eru m.ö.o. tillögur fyrir fólk, en ekki tillögur gegn fólki.

Hv. alþm. eiga ekki að sitja í Kröflunefndum neins konar, ekki bankaráðum, ekki Framkvæmdastofnun ríkisins. Þeir eiga ekki að sitja í útvarpsráði og ákveða hvaða varðhundur valdsins fær að tala um daginn og veginn eða stjórna valdhlýðnum umræðuþáttum í sjónvarpi. Þetta lokaða valdakerfi verður brotið upp. Nú á rismikið fólk, allt fólk að fá sitt tækifæri. Nú skal bælingin í hinu niðurnjörvaða flokkavaldi vera á burt.

Ég vil eindregið hvetja þá sem á mál mitt kunna að hlýða að kynna sér fyrsta þskj. væntanlegs Bandalags jafnaðarmanna, þskj. um hreinan aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds og beina kosningu forsrh., og þá sérstaklega klassískar ritgerðir þeirra Gylfa Þ. Gíslasonar og Ólafs Jóhannessonar. Þar er lýst með ljósum hætti hinum raunverulegu vandamálum íslenskrar stjórnmálasögu, hættum sem stafa af hagsmuna- og flokkavaldi.

Annað þingmál væntanlegs Bandalags jafnaðarmanna er um það bil að sjá dagsins ljós. Við viljum gefa fiskverð frjálst. Burt með oddamanninn, burt með ríkisvaldið. Samningar manna og samtaka þeirra eiga að vera frjálsir. Menn og samtök þeirra eiga að bera fulla ábyrgð á því sem þeir eru að gera og semja um. Ef húsin semja um hærra verð en þau geta greitt, þá eiga þau að fara á hausinn. En ríkið á ekki að greiða þeim bakreikninga með lækkuðu gengi, hækkuðu vöruverði fólksins í landinu. Við viljum frelsi, frelsi fyrir litlar einingar. Við viljum ábyrgð, ábyrgð fyrir einstaklinga og samtök þeirra. Við viljum að samningsgerð sé frjáls og við viljum að maðurinn sé frjáls.

Varðhundar valdsins eru víðar, varðhundar hins þrönga og lokaða flokkakerfis. Menn spyrja af hverju við í væntanlegu Bandalagi jafnaðarmanna tökum þá áhættu sem við gerum, því að ekki eigum við mikla peninga og ekki eigum við aðgang að stofnunum valdsins.

Ég vil segja pólitíska dæmisögu. Eitthvert veigamesta frv. sem við höfum staðið fyrir hér á Alþingi er frv. til l. um heimild til handa starfsfólki á stærri vinnustöðum að semja sjálft um kaup sitt og kjör eða hvað annað, þar með talin félagsmál og aðild að stjórn eða eignaraðild að fyrirtækjum. Þessi hugsjón hefur víða verið kynnt á vinnustöðum og er óhætt að segja að fólk hafi sýnt henni áhuga. Það veit að hér er verið að fjalla um aukin réttindi og aukin völd, að vísu dreifð, en þess sjálfs.

Við höfum þurft að sæta því, að í gamla flokknum er eitthvert apparat sem þeir kalla verkalýðsmálaráð. Þar sitja nokkrir tugir karla og kvenna sem meira og minna hafa atvinnu af störfum í þágu verkalýðshreyfingar. Aftur og aftur hefur þetta fólk kolfellt að gamli flokkurinn sem slíkur hafi nokkur afskipti af þessu máli, nú síðast fyrir nokkrum vikum. Við vitum hins vegar að þetta kerfi er rammfalski. Þetta fólk er ekki fulltrúar fyrir neinn nema sjálft sig og hagsmuni sína. Nú verður auðvitað að álykta afar varlega og ekki vil ég gera þessu fólki eða yfir höfuð nokkrum manni upp illar hvatir. En hagsmunavarsla af þessu tagi er stórhættuleg. Og umfram allt stendur hún framförum og frelsi fyrir þrifum.

Þessi litla dæmisaga segir mikla pólitíska sögu. Hún er lýsing á hagsmunavörslu gamla flokkakerfisins eins og það leggur sig. Helsti talsmaður gegn þessu frv. á Alþingi hefur verið hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Í vaxtamálum gengur hann ekki erinda síns fólks, svo mikið er víst. Og ég vil bæta við, að þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir allt eru auðvitað góðar taugar í mínum gamla flokki. En þessi þrönga hagsmunavarsla er ekki aðeins ósæmileg, hún er beinlínis andlýðræðisleg. Hin þröngu flokksvöld teygja arma sína víða. Yfirstéttin hér á hinu háa Alþingi, dyggilega studd varðhundum valdsins, ekki síst á ríkisfjölmiðlum og flokksblöðum, hefur sína siði og sinar leikreglur. Og ég vil bæta því við að verið er að lýsa reglu þó svo að frá henni séu veigamiklar undantekningar.

Þið hafið heyrt þá hér í kvöld metast um það hver hafi skrökvað mest að þjóðinni á árum áður og hver minnst. Allir hafa þeir nokkuð til síns máls, satt er það. Svo koma þeir fjallhlaðnir skýrslum úr Þjóðhagsstofnun og lesa verðbólgutölurnar sínar. Þeir eru ekki ósammála um neitt sem máli skiptir. Í raun og veru eru þeir allir eins. Munurinn er aðeins sá, að sumir eru ráðherrar en aðrir vilja vera ráðherrar.

Ég vil segja sögu um hegðan valdakerfisins, aðferðirnar sem það hefur til þess að halda uppreisnarmönnum niðri, gagnrýni úti. Eftir myndun núv. ríkisstj. kom fljótlega 1. mars 1980. Þá átti að leiðrétta vexti samkv. lögum um efnahagsmál, Ólafslögum svokölluðum. Ég bað um orðið utan dagskrár til að spyrja hæstv bankamálaráðh. Tómas Árnason hverju það sætti að það hefði ekki verið gert. Lögbrjóturinn kom í þennan ræðustól og hafði nánast það mikilvægast að segja, að umræður utan dagskrár væru hvimleiðar og spilltu fyrir eðlilegum þingstörfum, --- eðlilegum þingstörfum, sagði lögbrjóturinn. Og uppistaðan í frétt Ríkisútvarpsins þá um kvöldið var svofelld:

„Alexander Stefánsson“, sá sem var hér áðan, „sem gegndi starfi forseta Nd. í fjarvist Sverris Hermannssonar, sagði úr forsetastóli að þessi umræða sýndi nauðsyn þess að endurskoða reglur Alþingis við umræður utan dagskrár.“

Þetta var þjóðinni sagt um umræður um lögbrot á hinu háa Alþingi. Svona dæmi má taka endalaust.

Annað dæmi er meðferð valdsins á hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, þegar hún reyndi að halda á lofti mannréttindum erlends pilts sem hingað kom til lands sem gestur. Valdið, fjölmiðlarnir hafði engan áhuga á prinsippinu, rétti mannsins til að hlýða samvisku sinni. Þeir hundeltu hins vegar hv. þm. með sitt eina áhugamál: Hvaða áhrif hefur þetta upphlaup, þessi uppákoma á stöðu valdsins í landinu?

Þriðja dæmið um meðferð hins samtryggða valds á okkur, sem sjáum í gegnum þetta næfurþunna og brothætta kerfi, sem samanstendur af nokkrum hundruðum karla og kvenna: Sýslumaður einn lætur án heimildar og umboðs Ríkisútvarpið hafa eftir sér róg um nýlátna erlenda stúlku og særða systur hennar eftir harmleik erfiðari en tárum taki.

Spurt er á Alþingi hvort rn. hafi séð ástæðu til að gera athugasemd við þessa framkomu, en áður hafði Blaðamannafélag Íslands, ein valddruslan til, ályktað til varnar sýslumanni. Valdakerfið bannar þessa fsp. og ætlar ennfremur að brjóta landslög á spyrjanda með því að láta bannið ekki koma til atkv. samdægurs eins og landslög þó mæla skýrt fyrir um.

Þetta er aðferð sem ríkisfjölmiðlar og flokksblöð taka fullan þátt í til þess að láta gagnrýni líta út sem gífuryrði og upphlaup. Valdakerfinu tókst þó ekki atlagan að þessu sinni því að flokksbræður stóðu með, þó með hangandi haus væri, umfram allt Alþb. þó með. Það mun hafa verið verk hæstv. fjmrh. Ragnars Arnalds. Má upplýst fólk í landinu standa í þakkarskuld við hann fyrir það, að þessi aflaga valdakerfisins að einstaklingi geigaði. Tveir fyrrum flokksbræður stóðu hins vegar upp og þurftu endilega, um leið og þeir afsakandi tilkynntu að þeir væru meðmæltir, að flytja ástarjátningar til valdsins, segja að þeir væru nú samt á móti efni fsp., með rógi valdsins. Og eitt stórmennið sat þess utan hjá. Á þeim degi, þeirra sem ég þekki, var Alþfl. gamli lágkúrulegastur.

En hið þrönga flokksvald smýgur víðar. Meira að segja á bókmenntasviðinu vilja þeir taka af okkur ráðin, segja okkur hver er skáld og hver ekki. Og nú sný ég blaðinu við.

Á Morgunblaðinu, sem auðvitað er því miður óupplýst og þröngt flokksblað í vondum skilningi orðsins, hefur þó svona verið ort í síðustu bók höfundar:

 

Í svipnum hans sé ég æsku okkar

og eitthvað svo viðkvæman sumarstreng,

við skiljum vart þessi óblíðu örlög,

sem ætla sér, vinur, þinn góða dreng.

 

Við uxum úr grasi með glitrandi vonir

en gleymdum oftast að hyggja að því

að það er ekki sjálfsagt að sólin rísi

úr sæ hvern einasta dag eins og ný.

 

Og veröldin kom eins og vorbjört nóttin

með vinalegt bros og gleði til þín,

og lífið kom einnig með ótal drauma

í óvænta franska heimsókn til mín.

 

Nú bíðum við þess að bráðum komi

þessi broslausi dagur --- og svo þetta högg.

Þegar líf okkar er að lokum aðeins

eitt lítið spor í morgundögg.

 

Svona yrkir ekki nema ljóðsnillingur, meðal þeirra fremstu á tungunni sem nú eru til. En þetta þrönga og lokaða flokkakerfi, --- hafið þið hugsað um það? --- hefur lagst á hann vegna stöðu hans. Við bjuggum meira að segja til orðið „sálmaskáld“ sem háðsyrði. Jafnvel á þessu sviði láta þeir fólk ekki í friði. Það skal breytast, það verður að breytast. Við viljum gera uppreisn, en uppreisn innan þess ramma sem stjórnskipunin gerir ráð fyrir og aldrei öðruvísi. Við viljum gera uppreisn í grasrótinni úti á meðal fólks. Við treystum því að fólkið vilji. Við myndum ekki flokk, aldrei framar flokk, heldur laustengt bandalag laustengdra samtaka karla og kvenna, þar sem það ræður miðað við höfðatölu. Við vitum um okkar vanda. Hann er sá að þó að við séum idealistar í dag, þá getum við verið orðin stofnun fyrr en varir. Engin hugsjón nær nema ákveðnum aldri, þá verður hún stofnun. Þess vegna verðum við alltaf að vita, væntanlegir þátttakendur í Bandalagi jafnaðarmanna, að þó sú þörf sé fyrir okkur í dag, þá er langt frá því að sú þörf vari til eilífðarnóns. Það kemur kannske fljótt og kannske seint, en það kemur að því að við förum að þvælast fyrir eins og gamla flokkakerfið gerir í dag. Þetta verðum við að vita.

Þeir munu ráðast að okkur með upphrópunum, með því að loka fjölmiðlunum. Þeir munu reyna að hæða okkur, reyna að láta allt líta út sem upphlaup eða gífuryrði. Ég nefni dæmi. Hæstv. ráðh. Svavar Gestsson segir á fundi flokks síns að fram séu að koma mörg aukaframboð. Ég endurtek, aukaframboð. Hugsið ykkur mannfyrirlitninguna, þá fyrirlitningu á skoðunum annarra sem felst í þessu litla orði. Og líklegt er að fjölmiðlakerfið kaupi þetta valdsins orð. Auðvitað vill Svavar Gestsson að aðeins hann sjálfur og Geir Hallgrímsson séu í aðalframboðum svo að þeir geti metist á um það hvor hafi skrökvað meira og þrasað svolítið um NATO. Þetta er þeirra kerfi og þeirra vald. Við hin erum aukapersónur, --- kannske auka-Íslendingar.

Þeir mega kalla væntanlegt bandalag sérframboð. En við eigum von og kannske erum við von. Við treystum því að fólkið í landinu sjái í gegnum valdhrokann, hið niðurnjörvaða vald með sama hætti og við gerum sjálf. Við höfum nefnt lausnir, en þær lausnir snúast auðvitað einvörðungu um svokölluð stjórnmál. Eftir sem áður er það einstaklingurinn, gleði hans og sorgir sem mestu máli skiptir. Hann er sjálfur bærastur til að ráða fram úr eigin málum. Til þess þarf hann aðeins þolanlegar aðstæður, frelsi og frið.

Ég þakka þeim sem hlýddu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband