Leiðsögunám á háskólastigi

Endurmenntun Háskóla Íslands hefur nú ákveðið að bjóða upp á leiðsögunám á hausti komandi. Hér má sjá lýsingu á náminu. Leiðsögunám hefur til þessa verið kennt hjá Leiðsöguskóla Íslands sem er fóstraður hjá Menntaskólanum í Kópavogi, auk þess sem Ferðamálaskólinn hefur einnig boðið upp á sambærilegt nám.

Námið hjá Endurmenntun HÍ er 3ja anna grunnnám, 60 einingar. Það er því talsvert umfangsmeira en námið hjá hinum skólunum tveimur, en þar er um að ræða 2ja anna nám. Námið er þróað innan veggja Háskólans í samráði við ýmsa fagaðila, jafnt innan skólans sem utan. Leiðsögunám er afar áhugavert og skemmtilegt nám, sem veitir nemendum innsýn og heildarmynd um allt milli himins og jarðar sem gesti okkar fýsir að fræðast um. Áhersla er á land og þjóð, sögu, menningu, náttúrufar, jarðfræði, bókmenntir, listir, landshagi og hvaðeina annað sem áhugavert getur talist. Allt raðast þetta síðan saman í eina heildarmynd sem leiðsögumaðurinn kemur til skila á hinum ýmsu tungumálum eftir því sem við á.

Umsóknarfresturinn er runninn út, en mér er ekki grunlaust um að enn sé hægt að sækja um með það að markmiði að hefja námið á hausti komanda. Vert er að vekja athygli á því að námið er unnt að taka sem fjarnám.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Loksins, loksins virðist gamli góði Leiðsöguskólinn vera kominn nokkurn veginn þangað sem hann á réttilega heima. Það var alltaf mikill vandræðagangur hvar hann ætti að vera uns honum var sísað í hinn unga Menntaskóla í Kópavogi sem tók honum eins og góðu vogreki. Leiðsöguskólinn var lengi vel einkaskóli, rekinn af Ferðamálráði en var eins og svo margt sem tengist menntun á Íslandi að mátti helst ekki kosta nokkurn skapaðan hlut. Veturinn sem eg stundaði nám við skóla þann kostaði það 97.000 krónur. Það var 1991-92 og eftir verðlagi nú sennilega nálægt 300.000. Þá stóð nokkurn veginn á sléttu kostnaður við námið þá um veturinn og launin sem fékkst fyrir 12 daga erfiða tjaldferð um landið. Núna þarf að fara í lengri ferð eða tvær styttri til að ná áþekkum launum. Laun við ferðaþjónustu hafa dregist nokkuð aftur úr miðað við flest annað í þjóðfélaginu en vonandi er að Eyjólfur hressist með hagstæðara gengi evrunnar.

Annars var námið við leiðsöguskólann mjög skemmtilegt. Að miklu leyti var það góð og þörf upprifjun á því sem eg nam í MH á sínum tíma. Jarðfræðin sem og náttúrufræðin almennt höfðaði mest til mín ásamt sögu og þjóðfélagsmálum. Í Leiðsöguskólanum kenndi Ingvar Birgir Friðleifsson sem varði doktorsritgerð um jarðfræði Esjunnar. Hann er einn allra skemmtilegasti og fjölfróðasti kennari sem eg hefi nokkru sinni haft öðrum góðum kennurum ógleymdum. Þegar Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna var komið á fót var hann fenginn til að veita honum forstöðu. Það hefur hann gert með miklum myndarskap og er sennilega enginn Íslendingur sem hefur átt meiri þátt í að útbreiða þekkingu um jarðhita út um allan heim en Ingvar Birgir.

Já það var einvalalið í skólanum! Og á reynslu og þekkinga þeirra eldri byggjum við og bætum!

Bestu kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 23.5.2008 kl. 08:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband