Samgönguráð ræðir sporbundnar samgöngur

Á vef Samgönguráðuneytisins má sjá frétt um að þann 8. febrúar hafi verið haldin málstofa á vegum Samgönguráðs. Málstofan fjallaði um sporvagna, svæðis- og samgönguskipulag og skýrsludrög um almenningssamgöngur á Íslandi. Í fréttinni kemur fram að sérfræðingur frá Stuttgart í Þýskalandi hafi fjallað um reynslu af léttlestakerfi þar í borg, þar sem m.a. hafi komið fram að léttlestir geti verið fyllilega raunhæfur valkostur fyrir borgir af svipaðri stærð og höfuðborgarsvæðið er.

stuttgart

Samgöngunefnd Reykjavíkur tókst á hendur ferð til nokkurra borga í Þýskalandi árið 2003, þar á meðal Stuttgart, þar sem nefndin kynnti sér léttlestavæðingu þessara borga ásamt reynslu þeirra af því að hafa valið þennan kost. Tekin var saman skýrsla um ferðina og í kjölfarið urðu talsverðar umræður um hvort slíkt gæti verið raunhæfur valkostur fyrir borgina. Málið hlaut ekki brautargengi á þeim tíma og var tekið af dagskrá.

Það er áhugavert að Samgönguráð skuli nú taka málið til umfjöllunar, ekki síst í ljósi þess að fram að þessu hefur tiltölulega lítið frumkvæði komið frá ríkisvaldinu hvað varðar almenningssamgöngur í þéttbýli. Sveitarfélögin hafa alfarið þurft að bera hita og þunga af starfrækslu þessa málaflokks, gagnstætt því sem almennt tíðkast. Í því sambandi má benda á að í Þýskalandi greiðir ríkið 80% af stofnkostnaði við almenningssamgöngur í þéttbýli. Hér á landi er starfsemin að greiða talsverða fjármuni á ári hverju til ríkissjóðs, mest í formi virðisaukaskatts.

Bendi í leiðinni á útvarpsþáttinn Krossgötur á RÚV (rás 1 á laugardögum), þar sem Hjálmar Sveinsson fjallar um þessar mundir um skipulagsmál og nú í síðasta þætti um samgöngustefnu fyrirtækja, innheimtu vegatolla í þéttbýli og almenningssamgöngur. Hann tók við mig viðtal sem hann birti í þessum þætti þar sem hann spurði mig álits um ýmislegt er varðar reynslu mína af starfsemi innan þessa málaflokks undanfarin ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband